24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram við þessa umr., að þegar skattalagafrv. það, sem hér er lagt til að breyta, var til umr. á frumstigi talaði ég m.a. gegn 59. gr. og flutti mál mitt í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, í þingflokki mínum og í hv. deild og lagðist gegn þessari grein og fleiri greinum þessara laga, sem ég taldi þá og tel enn stríða gegn réttlætiskennd minni. Ég vil bæta við, og það er undirstrikað með flutningi brtt. minnar og þeim mörgu undirskriftum sem borist hafa frá bændum, að grein þessi stríðir sérstaklega á móti réttlætiskennd fólksins í landinu. Mótmæli á borð við þau sem nú hafa borist frá bændum, — bændum, en ekki bændasamtökunum, 2000 bændum, ef ég skil rétt, eru þau sömu og bárust frá samtökum atvinnuveganna á þeim tíma sem frv. var fyrst í athugun í nefndum.

Ég tek undir allt það sem flm. hefur sagt. Ég vona að honum takist betur en mér forðum að fá þessari grein breytt. En ég vil endurtaka að það eru fleiri greinar í þessu skattalagafrv. óréttlátar. Það getur vel verið að það komi úr hörðustu átt, en ég ætla samt að taka þá áhættu að segja þetta: Á sama tíma sem 59. gr. var samþ. var samþ. í fyrsta sinn að forseti Íslands og maki skuli vera skattfrjáls af öllum sínum tekjum. Hvers vegna þessar andstæður í samþykktum? Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að forseti Íslands ætti — og það væri réttlætanlegt — að vera skattfrjáls af embættistekjum sínum, en ekki af aukatekjum. Segjum nú svo að ég hefði náð kjöri sem forseti Íslands. Átti ég þá — eða annar í minni stöðu — að vera skattfrjáls af öllu öðru sem ég hefði tekjur af? Það er ranglátt. Það er ekki rétt.

Annars vegar er þarna verið að hegna mönnum fyrir að hafa frumkvæði að uppbyggingu á atvinnurekstri. Ungir menn hafa stundum ekki tekjur sem svara eðlilegum launatekjum í mörg ár meðan á uppbyggingu atvinnurekstrarins stendur, en þá skal áætla þær hjá viðkomandi aðila. Það eru margir í sömu stöðu. Þessir 2000 bændur eru brot af þeim fjölda sem hefði skrifað undir hefði verið farið um landið allt, en flm. gat um, ef ég man rétt, að aðeins hafi verið um Suðurland og Norðurlandskjördæmi vestra að ræða.

Ég vil líka benda á annað í þessum skattalögum, eins og ég gerði á sínum tíma úr þessum ræðustól, þá grein sem fjallar um það ef fjölskylda vinnur saman. Við skulum taka dæmi: Ef sonur aðstoðar föður við að mála fyrirtæki hans eða mála heima hjá honum skal faðirinn gefa þá vinnu upp eins og um aðkeypta vinnu hafi verið að ræða vegna þess að sonurinn má ekki gefa þann hluta sem ríkið hefði fengið í tekjur ef faðirinn hefði keypt að, vinnuna af fagmönnum.

Ég verð að segja að það er furðanlegt hvernig hv. 5. þm. Suðurl. getur talað. Hér er t.d. um álagningu tekna á lítinn atvinnurekstur að ræða, sem ég held að hafi minni möguleika á því að færa einkaneyslu yfir á rekstur fyrirtækisins en stærri atvinnurekstur eftir að bókhald hefur verið endurskoðað, eftir að réttmæt skattyfirvöld hafa sannfærst um að fyrirtækið gefi rétt upp til skatts og þar af leiðandi bæði tekjur og útgjöld. Þegar réttir aðilar sjá að viðkomandi aðilar hafa ekki tekjur til að reikna sér ákveðna lágmarksupphæð skal samt sem áður bæta við þá upphæð við álagningu skatta. Það eru ekki allir ungir menn sem ganga inn í rótgróin fyrirtæki til að reka þau. Það eru frekar rótgrónu fyrirtækin sem færa einkaneysluna á fyrirtækisreksturinn.

Það er ýmislegt sem má taka upp og bæta í þessum skattalögum. Þau eru meingölluð. Ég vil benda á til viðbótar því sem ég hef nú sagt, að vald ríkisskattstjóra, þó að það hafi verið mjög takmarkað í nefnd, er allt of mikið eins og það kemur fram í núverandi skattalögum og gerir ríkisskattstjóra og þá, sem með honum starfa, að nokkurs konar dómstól á lokastigi. Sem betur fer var eitt atriði fellt niður úr frv. að núverandi skattalögum. Hugsið ykkur að í frv. var skattstjóra heimilað að beita valdi áður en því var breytt og frv. varð að lögum. Hugsunin, sem kom fram var að ríkisskattstjóra skyldi heimilað að senda lögreglu til hvers sem var til að fá upplýsingar um þriðja aðila. Hvert stefnum við með svona hugsunarhætti og svona vinnubrögðum?

Ég lýsi stuðningi mínum við frv., sem hér liggur frammi, og hefði gjarnan viljað, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að skattalagafrv. yrði skoðað gaumgæfilega og gerðar á því breytingar, sem nauðsynlegar eru til þess að það misbjóði ekki réttlætiskennd fólksins, eins og það gerir í því formi sem það er í nú.