25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki halda hér langa ræðu, en vil þó leggja inn nokkra umræðupunkta.

Eins og, vona ég, flest foreldri í þessu landi hefur ekki farið hjá því, að ég hafi reynt að lesa mér nokkuð til um þessi mál, og eitt get ég fullyrt, að till., sem hér liggur fyrir, gerir á of sterkan hátt ráð fyrir því, að það sé vitað hvað áfengissýki er. Það er ekki vitað. Um það held ég að öllum vísindamönnum beri saman. Það getur skipt verulegu máli, þegar álykta skal um hvað gera skuli við áfengissýki, að við vitum raunverulega ekki hvaða fyrirbæri hún er. Mér er ljóst að til eru þeir hópar manna sem fullyrða að hér sé um líffræðilegan sjúkdóm að ræða, og ég skal ekki hafa á móti því né halda því fram. Ég veit það ekki frekar en þeir vísindamenn sem þessi mál hafa kannað. Uppi eru alls konar kenningar um það, sumar líklegar, aðrar ólíklegar.

En það, sem ég vildi frekar koma hér inn á, er félagslegi þátturinn í drykkjusýki. Ég vil taka strax fram, að ég tel fulla ástæðu til að álykta hér á Alþ. um drykkjuvanda Íslendinga því hann er auðvitað fyrir hendi. Hitt er svo annað mál, hvað gera skuli. Það er ýmislegt í málflutningi þeirra þingflokksmanna Alþfl. sem ég get ekki verið sammála vegna þess að þar tel ég að ýmsu sé haldið fram sem orkar meira en tvímælis. Nægir að benda á ýmislegt, sem þar kemur fram, sem ekki þarf mikla vísindalega aðferðafræðiþekkingu til að hafa á móti eða efast um.

Það nægir að nefna t.d. að hér er vitnað í rannsókn sem.þeir dr. Tómas Helgason, Jóhannes Bergsveinsson og Gylfi Ásmundsson hafa gert og er tekin út úr augljóslega miklu lengra máli. Þar er fullyrt að vegna þess að menn í þéttbýli eigi auðveldara með að ná í áfengi hætti þeim frekar til að verða áfengissjúklingar en þeim sem búa í dreifbýli og eiga erfiðara með að ná í áfengi. Fyrsta spurning, sem hlyti að vakna við slíka fullyrðingu, er: Það skyldi nú aldrei vera hollara og eðlilegra líf að búa í dreifbýli.

Ég held nefnilega að við hljótum að taka með þann þátt, sem er óumdeilanlegur og ég held að flestir læknar mundu vera sammála um, að nokkrir andlegir erfiðleikar eru oft fylgifiskar eða orsök drykkjusýki. Þá getum við líka spurt okkur hvort þjóðfélag okkar sé ekki ágætis gróðrarstía fyrir drykkjusýki. Ég held nefnilega að það sé ekkert sérstaklega hollt líf sem við lifum á Íslandi þessa dagana. Og ég er satt að segja ekkert hissa á þó að það sé óhollara en það var. En það segi ég vegna þeirrar fullyrðingar, sem hér er haldið fram, að drykkjusýki hafi mjög'aukist. Ég veit ekki hvort skýrslur og skrár eru til um þetta, það má vel vera. Nú leyfi ég mér að efast um rannsóknir á þeim málum hét fyrr á árum. En sé svo kæmi mér það ekki alveg á óvart að það héldist í hendur við þær þjóðfélagsbreytingar sem hér hafa orðið einmitt á þessum árum.

Það var líka minnst á það áðan að konur tækju nú meiri þátt í drykkju en áður. Það er líka hægt að spyrja sjálfan sig hvort gjörbylting í lífi kvenna kynni ekki að hafa haft áhrif á líf þeirra, jafnvel valdið þeim erfiðleikum. Allar breytingar kosta ákveðna erfiðleika. Það jafnrétti kvenna, sem áunnist hefur á síðustu árum, hefur auðvitað ekki gengið tollalaust yfir líf kvenna. Ekkert er einfalt í þessum heimi.

Ég vil ekki láta þessa umr. fara fram án þess að teknir séu inn í þetta mál þættir eins og vinnuþrælkun Íslendinga, erfiðleikar við öflun húsnæðis, þjóðfélagslegt misrétti, þar sem menn eru skattpíndir, og það segi ég þó að ég styðji núv. ríkisstj., á meðan aðrir nota peningana okkar án þess að borga nokkra skatta. Ég held líka að mannleg samskipti séu ekkert mjög holl á Íslandi. Ég held að við séum, eins og í öðrum auðvaldsþjóðfélögum, hrædd hvert við annað, við séum að keppa hvert við annað, við lifum ekki í hollu og æskilegu manneskjulegu samneyti. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, þó ég sé enginn vísindamaður, að þetta hefur áhrif á drykkjusiði Íslendinga.

Við getum strax litið á unglingana okkar. Það segir mér enginn að 13, 12, 11 ára unglingar séu drykkjusjúkir. Það stenst ekki neina kenningu, hvorki að sjúkdómurinn sé líffræðilegur né félagslegur. Það er alveg sama hvora kenninguna við tökum, unglingur hefur ekki haft neinn tíma til þess að verða drykkjusjúkur. Af hverju drekka unglingarnir þá? Það skyldi nú aldrei vera vegna þess að þeim leiðist, þeir finna ekki tilgang, þeir eygja ekki að hverju eigi að stefna. Þeir sjá ekki tilganginn með þjóðfélagi okkar. Þeim finnst það ekki nógu gott. Þeir sjá allt það sem við hinir fullorðnu höfumst að. Ég get vel skilið ungt fólk — ég á sjálf slíkt fólk -sem spyr: Að hverju erum við að keppa? Við heyrum aldrei annað en að það sé af hinu illa að greiða það sem okkur ber að greiða til þjóðfélagsins. Það trúir enginn á þetta þjóðfélag. Það er um að gera að svindla og svíkja það. Þetta unga fólk er opið og tiltölulega óspillt, og ég get afar vel skilið að það skilji ekki til hvers það á að vera að byggja upp þetta þjóðfélag, sem svona er skilað í hendurnar á því. Við skulum líka spyrja okkur um það.

Þrátt fyrir langa og ágæta bindindisræðu félaga míns, hv. þm. Helga Seljans, furðar mig á því, að hann skyldi ekki tala meira um þessa hlið málsins. Þess vegna minnist ég á hann að ég trúi ekki að við leysum þetta vandamál með því að banna áfengi. Við getum bannað hvað sem er. Ég er alveg sammála flm. þáltill. um það atriði. Ég tel mig t.d. mega borða sykur þó að sykursjúkir hafi ekki gott af honum. Ég tel það mannréttindi mín að geta fengið mér í glas hvenær sem mér sýnist. Það hlýtur að vera mín ábyrgð sem manneskju hvað ég geri mikið að því. Þess vegna held ég að bann sé ekki nein lausn.

Ég tek undir orð hv. 3. þm. Suðurl. um að það hefði verið æskilegt að við hefðum öll getað ályktað sameiginlega. Ég býst við að það sé hárrétt, að áhugi á drykkjusýki sé ekki einkamál Alþfl. En ég held að það þyrfti kannske að álykta hér að fram færi félagsleg rannsókn á því, hvort eitthvert samhengi sé á milli aðstöðu manna í lífinu og lífskjörum öllum og drykkjuskapar. Ég held að það sé tiltölulega yfirborðslegt að álykta eins og hér er gert. Við vitum skelfing lítið um þetta. Hins vegar er ég alveg sammála því, að vandinn er fyrir hendi, en hann ber að rannsaka áður en við förum að gera eitthvað til að koma í veg fyrir hann. Við skulum líka horfast í augu við staðreyndir eins og að í fjárlagafrv., sem við samþykkjum áreiðanlega innan tíðar, gerir íslenska ríkið ráð fyrir að græða 36.5 milljarða á innflutningi áfengis, fyrir utan það sem þeir innflytjendur græða sem hv. flm. till. minntist á áðan. Við vitum jafnframt að það kostar um 20 þús. kr. á dag að hafa afengissjúkling á stofnun. Þetta eru staðreyndir sem við skulum aðeins hugsa um.

Hér segir: „að auka stuðning við áhugamannasamtök.“ Ég er alveg sammála því. Ég er m.a.s. meðlimur í Samtökum áhugamanna um áfengisvandamálið. Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir — engar fullyrðingar skal ég hafa í frammi — um hvort það er rétt að afhenda áhugamannasamtökum sjúkrastofnanir. Við getum spurt okkur sjálf: Ef áfengissýki er sjúkdómur, sem ég veit ekki, einhvers konar sjúkdómur er drykkjuskapur eða drykkjusýki, hvers vegna er þá ekki sá sjúkdómur meðhöndlaður á almennum sjúkrastofnunum undir handleiðslu sérfræðinga eins og aðrir okkar sjúkdómar? Allt þetta finnst mér þurfa að hugsa um. Við erum að reyna að byggja upp samhangandi heilsugæslukerfi í landinu, og ég vil ekki hoppa inn á þrýstihópa af öllu tagi án þess að reyna að hafa einhverja yfirsýn yfir málið í heild.

Ég skal ekki lengja umr. hér, mér er ljóst að það þurfa margir að komast að. Ég held að ræða þurfi þessi mál af fordómaleysi og frá sem flestum sjónarhólum. Ég held að það sé ákaflega hættulegt að tala um þessa hluti eins og hér hefur verið gert, fyrst og fremst frá því sjónarmiði að þar sem áfengi sé hljóti það að vera misnotað. Menn hafa t.d. ekki minnst hér á kannske af því að enginn þrýstihópur hefur myndast, allt það fólk sem gengur hér á lyfjum af öllu tagi. Það hefur einhvern veginn ekki komið upp á yfirborðið. Það hafa engin samtök verið stofnuð. Það var minnst hér á drykkfelldar húsmæður. Ég hygg að þær séu fleiri sem misnota lyf.

Við skulum horfast í augu við að við búum í þjóðfélagi þar sem verulegur vandi stafar af ofneyslu lyfja og áfengis. Ég held að þetta sé sameiginlegur vandi flestra kapítalískra ríkja. Við skulum nefnilega minnast á það, að félagi Karl Marx sagði einu sinni, meðal margs annars viturlegs sem hann sagði: Því aðeins hefur manneskjan takmark og tilgang að hún sé hluti af menningarlegri heild. Ég efast satt að segja stórlega um að við séum það í raun og veru, og ég held að það sé hættulegt og þess vegna held ég að okkur líði mörgum ekki nógu vel. Ég held að við ættum að ræða þessi mál í dálítið víðara samhengi. Ég tel að opinber stefna í þeim málum, er varða líðan þjóðarinnar, hljóti að vera betra þjóðfélag, réttlátara þjóðskipulag. Ég hygg að það væri besta ráðið við áfengisvanda, lyfjavanda, hvers konar manneskjulegum vandræðum, en ekki að banna áfengi, eins og félagi hv, 2. þm. Austurl. sagði áðan. Ég held að það leysi engan vanda.