25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef nú hlýtt á mál manna um hríð, og það verður að segja eins og er, að skoðanir eru skiptar. Það kom fram hjá einum aðila að hið rangláta þjóðfélag kapítalista væri orsök að drykkju Íslendinga. Ekki veit ég hvort það er í fræðum Karls Marx, að áfengisdrykkja sé fordæmd eða bönnuð, eða hvort þess er þar getið, að sælan sé svo mikil, náist það ríki, að þar þurfi ekki vín. Hitt veit ég aftur á móti, að Múhameðstrúarmenn hafa lagst gegn drykkju og hefur þó enginn staðið hér upp og mælst til þess að við tækum upp trú þeirra til að losa okkur við þetta vandamál.

Ég held að á meðan svona skýjaborgir koma fram sé lítil von til þess, að við snúum okkur að þessu vandamáli. Það er líka spurning hvort þetta sífellda tal um ofstækismennina leysi þessi mál. Ofstæki bindindismanna er talað um. Það leiðir fyrst og fremst hugann að þeirri spurningu, hvað er að kunna sér hóf. Hvað er að kunna sér hóf? (StJ: Platon svaraði þeirri spurningu.)

Það koma fram hjá frsm., að áfengisvandamálið væri ekki einkamál Alþfl. og þar með var undirstrikað að það ættu fleiri aðilar við þetta vandamál að glíma en Alþfl. Í ljósi þess, að það sé ekki bara auglýsingamennska, heldur einnig alvara sem liggi á bak við þá þáltill. sem hér er sett fram, ákvað ég að taka til máls. Engu að síður geri ég ráð fyrir að sumt af því, sem ég á eftir að segja hér á eftir, sé í algjörri andstöðu við mikinn meiri hluta þingsins.

Þegar menn snúa sér að svona vandamálum er yfirleitt byrjað á að minnast á kennarana. Þeir eiga að auka fræðslu sína, þeir eiga að leysa þessi mál. Þetta gildir líka þegar kynlífið er tekið fyrir. Þá snúa menn sér að kennurunum. Þeir eiga að veita fræðslu um þetta. Hvernig er svo samræmið hjá okkur Íslendingum? Hvenær verður unglingur sjálf sín ráðandi að íslenskum lögum? Er það þegar hann verður 20 ára? Nei, það er nú stórum fyrr. Engu að síður er sá fáránleiki í íslenskum lögum, að menn mega ekki kaupa áfengi fyrr en þeir eru 20 ára.

Ég tel að eitt af því fyrsta, sem ætti að gera ef við snúum okkur að vandamálinu sjálfu, sé að lækka þennan aldur niður í 18 ár t.d. Hvers vegna? Ef það er eitthvað til í skrafi hófdrykkjumannanna um að þeir kunni að drekka hlýtur að vera rétt að láta æskuna læra drykkjuvenjur á vínveitingastöðunum, en ekki á Hallærisplaninu. Það er alveg rökrétt. Og þrátt fyrir allt hef ég það mikla trú á hinum fullorðnu og drykkjuvenjum hófdrykkjumannanna að unglingarnir geti meira lært ef þeir fara á vínveitingahús og drekka þar en ef þeir fara í svokallaða „kanondrykkju“. Það er líka lausn á hluta af hinum félagslegu vandamálum þessarar æsku sem er úthýst úr íslensku skemmtanalífi að stórum hluta. Hvernig í dauðanum dettur okkur í hug að sú æska, sem er að vaxa upp, sé svo ósjálfbjarga, sé svo aum að hún geti ekki náð sér í áfengi? Menn leystu þetta 14 og 15 ára gamlir þegar ég var að alast upp. Það var enginn svo aumur, ef hann ætlaði að ná sér í brennivín, að hann gæti ekki náð í það á þeim aldri. Við komum aftur á móti alveg í veg fyrir að æskan eigi kost á því að vera í flestum dansstöðum borgarinnar vegna þess að þar er selt áfengi.

Við þurfum alveg skilyrðislaust að skoða þetta mál frá grunni. Hvaða fræðslu vill hv. þm. taka fyrir? Hvað á kennarinn að segja? Á hann að segja barninu að það eigi ekki að neyta áfengis? Á hann að segja barninu að það séu miklar líkur á því, að ef það neyti áfengis verði það ofdrykkjunni að bráð? Á hann að segja því að neyta áfengis í hófi? Er það eitthvað af þessu sem hann á að segja eða snýst spurningin fyrst og fremst um hvort kennarinn er reiðubúinn að vera til fyrirmyndar í þessum efnum jafnt innan skólans sem utan, eins og erindisbréfið leggur honum skyldur á herðar?

Ég held að við þurfum að snúa okkur fyrst að hinum mikla áróðri sem er með drykkju og með reykingum í þessu landi, hinum gífurlega sterka áróðri sem er með neyslu þessara fíkniefna. Sterkasta auglýsing sem ég hef sé á ævi minni, svo sálfræðilegt og félagsfræðilegt snilldarverk að mig setti hljóðan, er kvikmyndin „Grease“. Aðalhetjurnar í myndinni reykja ekki né drekka í einkalífi, en báðar standa uppi sem algjörir sigurvegarar í myndinni um leið og þeir hafa tekið upp þessar venjur. Myndin var sýnd við metaðsókn á Íslandi og árangurinn var auðsær fyrst á eftir. Reykingar jukust í hópi þeirra sem ég umgekkst á þessum tíma.

Hvað er það fyrsta sem við sjáum þegar við fáum menninguna frá Norðurlöndum í kvikmyndum til Íslands? Hér um bil hver einasti maður er látinn reykja. En það er búið að klippa allt kynlíf burt. Það er svo miklu, miklu hættulegra en áfengið og tóbakið. Það mundi spilla landi og lýð. Þorum við að snúast gegn þessu? Þorum við að gera okkur grein fyrir því, að meinleysislegar auglýsingar uppi á vegg eru smámunir miðað við svona áróður? Þorum við t.d. að banna það í sjónvarpi að þar sjáist menn reykjandi? Þorum við að ýta myndum til hliðar og heimta að þær séu klipptar ef áfengisneysla í myndunum er á þann veg að hún leiði tvímælalaust til meiri drykkju? Ég segi nei. Við þorum alls ekki að gera þetta. Við erum ofstækismenn ef við tölum um svona lagað.

Það má vel vera að sumir telji að það vinnist stórir sigrar ef við samþykkjum hér að það verði að draga úr heildarneyslu vínanda og það verði að fækka áfengisútsölustöðum. Hvar? Á að leggja þá niður úti á landi? Þeir tala nú um dreifbýlisstyrkinn þar, — eiga reyndar við vökva sem strandferðaskipin sem koma að utan og flytja þeim. Eru menn að leggja til að áfengisútsala verði bönnuð hér í Reykjavík'? Á að setja upp kvótakerfi á drykkjuna? Hvað eru menn að tala um? „Að skilgreina eðlilega uppbyggingu „meðferðarkeðju“ og auka stuðning við áhugamannasamtök,“ stendur hér. Og svo stendur hér líka: „að stórauka skipulagða fræðslu og upplýsta umræðu um áfengismálastefnu“. Það mun náttúrlega vera allt annað skraf en ég er að viðhafa hér sem þar er verið að tala um, allt aðrar umræður. Það eru virðulegar umræður í sjónvarpi með þremur eða fjórum læknum og nokkrum fyrrv. alkóhólistum og kannske að stjórnandinn sé hófdrykkjumaður.

Hins vegar kemur í seinustu greininni fram siðferðileg skilgreining sem ég vil taka undir og undirstrika sem rétta. Verslun ríkisins með áfengi leggur ríkisvaldinu skyldur á herðar. Þetta vil ég taka undir. Mér væri ósárt um þó hver einasta króna, sem kemur inn vegna sölu áfengis, færi í að draga úr þessu böli.

Við heyrum það gjarnan hjá stuðningsmönnum hófdrykkjunnar, að það sé stórkostleg skerðing á persónufrelsinu ef það verði sett á áfengisbann. Það er nú svo með persónufrelsið. Ég minnist þess, að ég las það í skóla í kennslubók í ensku að ágætur maður labbaði eftir götunni og veifaði stafnum sínum kringum sig og sló næsta mann í hausinn. Það vakti reiði þess sem varð fyrir högginu, og hélt hann því fram að ekki mætti gera þetta. Hinn svaraði: Ég er frjáls maður í frjálsu landi og má gera það sem mér sýnist. — En sá, sem varð fyrir högginu, átti svar við þessu og sagði: Þar sem nefið mitt byrjar endar þitt frelsi. — Ég held að þegar menn tala um frelsið í þessu sambandi mættu þeir líka stundum hugleiða hvaða rétt þeir eru að skapa börnum þessa lands. Hvar er þeirra réttur? Hvar er þeirra frelsi, að sitja uppi með þau áfengisvandamál sem þessi þjóð situr uppi með?

Einn af lærðustu félagsfræðingum þessa lands sagði við mig einu sinni þegar við ræddum þessi mál: Það tala allir um að Jón drekki, en það spyr enginn: Hvers vegna drekkur Jón? — Ég held að lausnin sé ekki kommúnismi, en ég trúi því að hægt sé að gera mjög margt róttækt til að auðvelda mannleg samskipti eða draga úr erfiðleikum einstaklinga til mannlegra samskipta. Það er hægt að gera þetta í skólum, það er hægt að gera þetta í frjálsum félagasamtökum og það er hægt að gera þetta með persónulegum ráðleggingum. Ég vænti þess aftur á móti, að Alþ. geri sér grein fyrir því og alþm., að þeir verða hlægilegir og þingið einnig ef þeir ætla að fara að segja æskunni, 17, 18, 19 og 20 ára, að drykkjuvandamál hennar séu vandamál þessa lands. Nei, þá skulum við byrja nær okkur. Það eru drykkjuvenjur hinna fullorðnu sem eru vandamál þessa lands. Það eru drykkjuvenjur opinberra starfsmanna m.a., toppa í þessu þjóðfélagi, sem bera þunga ábyrgð í starfi sínu. Ég held líka að hófdrykkjumenn megi hugleiða það í fullri alvöru, hvort þeir séu af göfuglyndi sínu e.t.v. reiðubúnir til að gefa örlítið eftir af sínu persónulega frelsi til að draga úr þessum bölvaldi.