26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við mál þetta. Það er fyrst, að í aths. með lagafrv. kemur fram að breytingar þær, sem hér eru lagðar til, eru fáar og snerta lítið meginkjarna laganna um aðalmenntastofnun kennara og draga á engan hátt úr þörf á heildarendurskoðun laga um Kennaraháskóla Íslands. Aftur á móti eru hér teknar fyrir tvær breytingar. Önnur má segja að sé til samræmingar við þau lög sem Háskóli Íslands starfar eftir, en hin breytingin er til komin vegna breytingar sem gerð var á lögum um embættisgengi kennara og skólastjóra. Sú breyting var gerð á lögunum 1978. Þar hygg ég að Alþ. hafi ekki að fullu athugað hvað það var að gera.

Það er nú svo, að vissulega er nauðsyn að menn lesi kennslufræði og sálar- og uppeldisfræði til að geta sinnt kennslustörfum. Hitt verður aftur á móti einnig að skoða, í hvaða hlutfalli það á að vera á móti almennri menntun. Með þeirri breytingu, sem gerð var, breyttist þetta hlutfall mjög uppeldis- og kennslugreinum í vil, þannig að ég hygg að við Íslendingar gerum nú um tvöfalt meiri kröfur til uppeldis- og kennslugreinanna heldur en eru gerðar í Danmörku og Noregi. Mér er mjög til efs að þetta sé rétt, og undir sumum kringumstæðum tel ég að þetta hafi orðið til þess að sá sem óhæfari var átti rétt á stöðu, og hæfari maðurinn hreinlega varð að víkja frá, sá sem hafði meiri menntun til að kenna það fag sem átti að kenna. Þess vegna vil ég að það komi hér fram, að þó mér sé ljóst að nauðsyn sé að breyta þessum lögum á þann veg sem lagt er til, ef lögin um embættisgengi kennara og skólastjóra eru óbreytt, þá áskil ég mér fullan rétt til að leggja til að þeim lögum verði breytt og látið reyna á það hér í þinginu, hvort við teljum ekki að þarna hafi hlutfalli verið raskað án þess að nægileg rök liggi fyrir því, að réttlætanlegt sé að við setjum mun meiri kröfur fram í þessu efni en gerðar eru t.d. í Noregi og Danmörku.