27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get víst ekki verið þekkt fyrir — sem stjórnarmaður í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja — annað en koma og taka undir þann hallelújakór sem hér hefur verið fluttur, einkum og sér í lagi þar sem ég hef í fyrsta skipti kynnst sveigjanlegum vinnutíma eftir að ég gerðist alþm. Hér ríkir sveigjanlegasti vinnutími sem mér er kunnugt um í þjóðfélaginu, þar sem vikur geta liðið milli þess sem maður sér þá þm. sem hér eiga að sitja. En ég skal ekki vera neikvæð. Ég skal taka undir þessa till. Auðvitað. Þetta er ein af þeim óteljandi þáttill. hér á Alþ. sem er ómögulegt að vera á móti.

Hins vegar hlýt ég að leyfa mér að koma þeim sjónarmiðum að, hvað þetta í raun og veru þýðir. Í þeirri stofnun, sem ég vann lengst af í, var prófaðu í svokallaður sveigjanlegur vinnutími, sem er nú ekki sveigjanlegri en svo, eins og hér er talað um í grg., að stúlkur máttu ráða því og reyndar starfsmenn — það vildi nú til að það var aðallega kvenfólk sem ég vann með — hvort þær kæmu klukkan 8 eða 9 á morgnana og hvort þær færu kl. 4 eða S á daginn. Og hvað gerðist? Jú, það gerðist nákvæmlega það, að þeir, sem kusu að koma kl. 8, unnu einum tíma lengur eftirvinnu.

Málið er nefnilega það, að það eru svo lág laun á Íslandi að næstum allir vinna meira en 8 stunda vinnudag, og þá sé ég ekki hvað það þýðir, að Alþingi Íslendinga sé að álykta að hann skuli vera sveigjanlegur, þessi þrældómur. Málið er það, að vinnudagur er allt of langur vegna þess að launin eru allt of lág. Síðan hafa ábyrgir stjórnmálamenn komið auga á að þetta væri kannske ekki alveg eins og það ætti að vera. Blessuð litlu börnin okkar eru hætt að kunna að tala þegar gera má ráð fyrir að þau eigi að kunna það. Þau eru illa nærð í skólum landsins vegna þess að þau eru ein heima allan daginn, af því að við höfum ekki búið þeim dagheimili og dagvistarheimili. Svo getum við deilt um hvort þau séu nauðsynleg eða ekki. Þá finna þessir sömu stjórnmálamenn upp að nú sé best að fara að huga að einhverju sem heitir fjölskyldupólitík. Þetta er ekki lítið alvörumál.

Mér þætti gaman að heyra einhvern segja mér hvað er fjölskyldupólitík. Ég hef hingað til verið það barn að halda að störf stjórnmálamanna snerust um þrifnað manna og þrif í þessu landi, og það hélt ég að væri fjölskyldupólitík. Þetta er eins og hvert annað tískuorð sem ég vil helst ekki heyra hér í þingsölum. Það er langt fyrir neðan virðingu okkar að vera að klóra í bakkann með einhverju svona „fíneríi“.

Ég hef ekki unnið mikið við framleiðslustörf, þó nokkuð þegar ég var stelpa í Hafnarfirði, og ég er ekki alveg tilbúin að sjá fyrir mér hvernig við sveigjum vinnutíma, þegar þarf að bjarga framleiðslu. Mér þætti gaman að heyra hv. 1. þm. Vestf. skýra út fyrir mér, hvernig það kæmi út, eða aðra þá þm. sem þeim málum eru kunnugir hér, hv. þm. Guðmund Karlsson o.fl. Ég vildi ræða við stúlkurnar, ég segi stúlkurnar vísvitandi vegna þess að lágtekjufólkið meðal opinberra starfsmanna er yfirleitt allt saman kvenfólk sem að stórum hluta á börn, — ég vildi ræða við þær eða láta flm. þessarar till. ræða við þær um hvað það skipti þær miklu máli hvort vinnutími þeirra verði sveigjanlegur, sem yfirleitt er 10–11 tímar. Ég hefði gaman af að ræða við verslunarfólk, afgreiðslufólk í verslunum og heyra hvað það segir við sveigjanlegum vinnutíma.

Þetta er svo yfirborðslegt og svo vanhugsað miðað við þær aðstæður sem við búum við, að það er með hangandi hendi að maður samþykkir svona tillögu. Auðvitað er ekkert hægt að gera annað. Ég er ekki á móti sveigjanlegum vinnutíma, síður en svo. En skoðun mín er sú, að launþegar þessa lands eigi ekki að vinna lengur en svo, að þeir geti samt sinnt börnunum sínum einhvern tíma sólarhringsins. Ástandið núna er þannig, að þeir geta það ekki, og þess vegna er ástand barna eins og það er og þess vegna er búið að finna upp eitthvað sem heitir fjölskyldupólitík.

Ef ég ætti að fara hér út í æðri pólitíska umræðu skal ég segja ykkur hvað er fjölskyldupólitík. Það er sósíalismi. En um það skulum við ræða seinna.