27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og hinir fyrri ræðumenn vil ég þakka flm. þessarar till. fyrir frumkvæðið.

Hér er um að ræða mál sem varðar hagsmuni okkar og öryggi ákaflega mikið. Enda þótt þessi till., sem hv. þm. Benedikt Gröndal mælti fyrir, lúti einungis að landhelgi okkar, 12 sjómílna svæðinu, sem að vísu er eðlilegt eins og málið er í pottinn búið og eins og tilefni þessa máls er, sem hv. frsm. greindi hér frá, beinir þetta þingmál, sem ég óska að nái fram að ganga, hugum okkar að landgrunnssvæðinu okkar, 200 sjómílna lögsögunni, og þeirri hættu sem af því stafar að risaveldunum helst nú uppi í krafti afls síns að stunda þarna, jafnvel nú á friðartímum, þess háttar herskipaleik með kjarnorkukafbátum sínum, kjarnorkuknúnum skipum, sem vissulega gæti stefnt lífsafkomu þessarar þjóðar í bráðan voða. Á því hefur ekki verið gerð nein lærð úttekt hvað af því mundi leiða eða kynni að leiða að þarna sykkju — ja, í slysi — kjarnorkuknúin herskip og færu þarna niður kjarnorkuvopn. Fullyrðingar, sem við höfðum áður heyrt frá hernaðarsérfræðingum um að engin hætta stafaði af kjarnorkusprengju, sem félli til jarðar og ekki spryngi, eða geislavirkum efnum hennar, eða færi í sjó, hafa reynst haldlausar þegar til kastanna kom. Að þessum málum þurfum við að huga, með hvaða hætti við getum bægt þessari hættu frá okkur.

Ég vil, af nákvæmlega sömu ástæðu og hv. þm. Eyjólfur Konráð, sneiða hjá því að ræða dvöl varnarliðsins á Íslandi í þessu samhengi. Ég hygg að það sé mjög aðkallandi að þm. úr öllum flokkum snúist við þessu sérstaka vandamáli, sem er yfirgangur flotaveldanna öflugu á þessu svæði í Norðaustur-Atlantshafi, sem okkur varðar mestu, og sú hætta sem okkur stafar af þessum herskipaleik þeirra hér á norðurslóð. Ég kemst eigi að síður ekki hjá því að gera þá játningu, að upprunalega þegar ég hugsaði um friðlýsingarhugmyndina bjó í huga mér sá möguleiki, og býr raunar enn, að við gætum með þeim hætti að friðlýsa Norðaustur-Atlantshafið með samstarfi, sameiginlegu átaki með Norðurlandaþjóðunum, losnað við herstöðina frá Íslandi, einmitt með þeim hætti ef við gætum komið á slíkri friðlýsingu með ábyrgð Sameinuðu þjóðanna og vilja granna okkar. Hér er um að ræða í tengslum við þessa þáltill., sem hér er um fjallað, annan arminn af þessu máli, sem snertir okkur ákaflega mikið, ekki aðeins vegna hersetunnar hérna, heldur auk hennar.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð ýjaði í þá átt, að þetta væri eitt af þeim málum sem við ættum að ræða við granna okkar, sem hafa nú tök á þessari efnahagslögsögu okkar. Ég er honum alveg sammála um það og vil þá ekki sleppa Bretum út úr þessu. Einnig þeir eiga náttúrlega geysilegra hagsmuna að gæta í verndun lífríkis í Norðaustur-Atlantshafi. Og grunur minn er sá, að þeir menn, sem mest binda huga sinn á Bretlandseyjum við öflun fæðu fyrir þær eyþjóðir, kunni einnig að hafa áhyggjur af þessu máli.

Ég vænti þess, að þannig verði fjallað um þessa þáltill. í nefnd, að ljóst verði hvort við þurfum að fara út í lagasetningu eða hvort setning reglugerðar nægir að sinni. En einnig óska ég þess, að í beinum tengslum við þá þörfu og þakkarverðu þáltill., sem hér er borin fram, verði rætt um með hvaða hætti við getum tekið upp viðræður við granna okkar hérna í þessum kima Norður-Atlantshafsins um samstöðu í þessu máli, með hvaða hætti við getum reist skorður við því, að haldið verði áfram svo sem verið hefur að etjast á nú á friðartímum herskipum með hættuleg geislavirk efni innanborðs á þessu viðkvæma hafsvæði, og hvernig við getum tekið þetta mál þá út úr dellunni um hernaðarstöðuna á þessu svæði.

Ég verð að segja eins og er, að mér virðist, eftir því sem ég hef litið á kortið, að þessi dálítið óreglulegi þríhyrningur, sem er opið svæði enn þá frá Jan Mayen fyrst suður og síðan austur á bóginn þarna í miðju Norðaustur-Atlantshafinu, ætti að nægja Rússum og Bandaríkjamönnum til þess að reyna herskip hvorir annarra. Það er meira að segja ekki þokkalegt að hugsa til þess, að þeim skuli eigi að síður haldast það uppi á þessu svæði. Einnig hefur mér komið til hugar að þessi friðlýsing yrði með þeim hætti, að mönnum yrði meinað — þeim sem það vilja — að senda svona skip um þetta svæði og þau eigi þar leið um út á frjálsan sjó. Það er ekki það sem til umræðu hefur verið. Ef mig minnir rétt hljóðaði samþykkt um friðlýsingu Indlandshafsins, sem þeir Ceylonarbúar beittu sér einna helst fyrir, upp á það hvað herskip varðaði, að þau ættu sem fyrr greiða leið um þetta hafsvæði, en mættu ekki hafa þar dvöl og ekki stunda þar neins konar æfingar með vopnabúnað. Raunar hljóðaði hún upp á það líka, að þar yrðu engar herstöðvar. Við vitum af reynslunni að það hefur ekki tekist að tryggja að ekkert slíkt ætti sér stað í Indlandshafinu, en þarna liggur þó fyrir eindregin samþykkt þjóðanna um að svo skuli ekki vera. Það má vel vera að okkur mundi ekki takast það, Íslendingum, þó við hefðum til þess samflot með Norðmönnum, Færeyingum, Bretum og Grænlendingum, að koma í veg fyrir að þeir héldu þessum herskipaleik sínum á norðurslóðum með svo hættuleg tæki áfram á laun, en sameiginleg opinber viljayfirlýsing þessara aðila mundi þó nægja til þess að það yrði lýðum ljóst, að slíkt væri í okkar vanþökk, og gæti þá orðið e.t.v. fyrsta skrefið í áttina til þess að fá einbeittar og alvarlegar umræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna meðal þjóðanna um leiðir til að bægja frá slíkri hættu. Þegar til kastanna kemur má segja mér að það verði álit velflestra góðra manna í þessum löndum, að þessar heræfingar og þetta vopnaskak í Norðaustur-Atlantshafinu geti tæpast talist hagsmunamál alþýðu manna í þessum löndum og að menn geti fallist á það og sagt einarðlega við Bandaríkjamenn og Rússa í senn um þetta framferði: Góðu, farið þið með herskipin ykkar eitthvað annað. Stefnið ekki okkar hagsmunum í hættu með þessari leikfimi ykkar.

Og aðeins í lokin: Ég ítreka þakklæti mitt til flm. þessarar tillögu og óska þess, að það mál, sem með henni hefur verið vakið, megi leiða til þess, að við ræðum þessi stóru hagsmunamál okkar í góðri sátt hérna og án þess að festa þau á hinum fornu snögum sem gjarnan hafa viljað hindra eðlilegar umræður um mál eins og þetta hér á þingi.