02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 22 leyft mér að flytja fsp. til hæstv. félmrh. um kaupmátt tímakaups verkamanna. Fsp. er svo hljóðandi:

„Hver er meðaltalskaupmáttur tímakaups verkarnanna fyrsta, annan og þriðja ársfjórðung 1980 samkv. reglum sem Kjararannsóknarnefnd notar við útreikning sinn miðað við:

a) kaupmáttarstig 100 fyrir „sólstöðusamninga,“ þ.e. annan ársfjórðung 1977,

b) kaupmáttarstig 100 eftir „sólstöðusamninga,“ þ.e. þriðja ársfjórðung 1977?

Hversu mikil er hækkun vísitölu framfærslukostnaðar frá því um „sólstöðusamninga“ (annan ársfjórðung 1977) og til núgildandi vísitölu?“

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur ýmislegt gengið á í íslenskum efnahags- og þjóðmálum frá því á miðju sumri 1977 þegar gerðir voru kjarasamningar. Þá skömmu áður hafði þjóðarbúið orðið fyrir gífurlegum viðskiptakjaraskell. Ég held að ég muni það rétt, að á tveimur árum hafi viðskiptakjör þjóðarinnar versnað um 30%. Engu að síður voru gerðir kjarasamningar á miðju sumri árið 1977 sem höfðu í för með sér mikla hækkun almennra launa í landinu, og á næsta ári voru kosningar þar sem vígorðin „kosningar eru kjarabarátta“ og „samningar í gildi“ voru höfð á oddinum. Ég held að það sé mjög lærdómsríkt fyrir þingheim allan og þjóðina að fá sem gleggstar upplýsingar um hvað hefur gerst frá þessum tíma til dagsins í dag, ekki síst að því er varðar kaupmátt og hver verðrýrnun krónunnar hefur orðið á sama tíma.