02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að hafa borið fram þessa fsp. Hún er viss árétting á þáltill. sem er til umfjöllunar í þinginu og flutt er af okkur Pétri Sigurðssyni í sambandi við strandstöð á Gufuskálum.

Ég varð fyrir vonbrigðum með það svar sem hér birtist og sjútvrh. flutti. Ég bjóst við að þessi mál stæðu betur en þar kom fram, og ég harma ef á að fara að leysa þessi mál, þ.e. metrabylgjukerfið í kringum landið, með fjarstýrðum stöðvum. Við skulum bara láta okkur detta í hug hvað hefði skeð ef hefði þurft að nota slíkar stöðvar á Austfjörðum í gær, hvaða möguleikar hefðu verið til þess að leysa vandamál slysavarna eða tilkynningarskyldu í gegnum fjarstýrðar stöðvar þegar allar símalínur voru bilaðar. Ég vil láta það koma fram, að mín skoðun og margra þeirra, sem að slysavarnamálum vinna, og margra sjómanna er sú, að það sé alls ekki verið að leysa þessi vandamál með því að byggja einhvers staðar fjarstýrðar stöðvar. Sú hugmynd Landssímans að leysa þessi mál með því að byggja fjarstýrða stöð t.d. fyrir Breiðafjörð á Kleifaheiði er alls ekki til þess að leysa þau vandamál sem bent er á í þáltill. okkar Péturs Sigurðssonar um strandstöð á Gufuskálum.

Með því að hugsa til þess, sem á sér stað í sambandi við rafmagnstruflanir og annað þess háttar, þó ekki sé rætt um bilanir á þeim stöðvum sem á að fjarstýra, liggur það fyrir að öryggið, sem þær veita, er lítið. Ef á að ætlast til þess, að þessum öryggismálum verði fullnægt, verður að gera það með strandstöðvum sem byggðar eru upp án þess að þær séu fjarstýrðar frá stöðvum langt í burtu í þessu tilfelli frá stöð sem yrði í Reykjavík. Ég tek ekki undir að það sé vérið að leysa það öryggismál, sem er uppsetning metrabylgjunnar umhverfis landið, með því að koma upp fjarstýrðum stöðvum á Hafnarnesi og á Kleifaheiði og Skaga. Ég vænti þess að það verði litið til annarra lausna og þessum málum komið í lag á öðrum grundvelli en þeim, að það verði byggt á fjarstýrðum stöðvum.