02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

360. mál, orkuverð til fjarvarmaveitna

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. eða orkuráðh. fyrir svör hans við fsp. minni, en það kom skýrt og greinilega í ljós, að ríkisstj. hefur enn sem komið er enga stefna markað í þessu máli. Hins vegar fagna ég þeim áhuga sem ráðh. kveðst hafa á því, að þessi mál nái fram að ganga, enda er hér tvímælalaust um einstaklega þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir að ræða. Um það er enginn ágreiningur og það tók ráðh. réttilega fram. Hins vegar er sá vandi, sem við er að etja hér, þess eðlis, að Rafmagnsveitur ríkisins gera þessum tilteknu stöðum nánast tilboð um verð. Í góðri trú hefja forustumenn þessara sveitarfélaga síðan ýmiss konar undirbúning. Síðan kemur í ljós að þetta tilboð Rafmagnsveitna ríkisins um orkuverð stendur ekki vegna þess, eins og ráðh. skýrði hér áðan, að það er ekki talið nægja fyrir kostnaði. Þetta setur þessi sveitarfélög auðvitað í gífurlegan vanda. Hér er um geysilegt hagsmunamál að ræða fyrir alla íbúa þessara staða. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt, að ákvörðun verði tekin hið fyrsta um þetta, hvað ríkisstj. hugsar sér að gera og hvernig á að leysa hitunarmál þessara staða.

Vissulega ber að fagna því, ef loksins verður nú í það ráðist að bora tilraunaholur á norðanverðu Snæfellsnesi til að kanna hvort þar sé um jarðhita að ræða. Það er skoðun Orkustofnunar og kom fram í bréfi orkuráðherra, sem ég vitnaði til áðan, að engin ástæða sé til að bíða með framkvæmdir við fjarvarmaveitur eftir því að borað verði. Ég legg áherslu á það, að hið fyrsta verði tekin ákvörðun þannig að þessum stöðum, þar sem fjarvarmaveitur eru sýnilega mjög hagkvæmar, verði gert kleift að halda sínu striki og halda áfram undirbúningi þessara framkvæmda sem eru, eins og hér hefur komið fram, vissulega þjóðhagslega hagkvæmar. Um það þarf ekki að deila.