02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hafa kannske einhverjir alþm. fengið þetta bréf frá stjórn Rithöfundasambands Íslands, en mér hefur ekki borist það í hendur, mér var ókunnugt um þetta þegar ég flutti ræðu mína áðan.

En ég vil segja fyrst út af ræðu hv. 8. landsk. þm., að mér þótti gæta í máli hennar mikillar þröngsýni sem getur spillt fyrir þessu máli. Ég held að það sé alveg sama hvaða nöfnum er flaggað, hvort maðurinn heitir Guðmundur G. Hagalín, Halldór Laxness eða Kristján Eldjárn sem flaggað er, þá liggur fyrir að innan Rithöfundasambands Íslands eru skiptar skoðanir um þetta mál. Menn geta rétt upp hendur eins og þeir vilja í því efni. Það breytir engu um þá staðreynd, að innan Rithöfundasambandsins ríkir nú mikill klofningur vegna þessa máls. Það kom raunar líka fram í máli þessa hv. þm., sem jafnframt telur sig rithöfund, að hún óttast það mjög og hafði varnaðarorð uppi vegna þess að hún taldi að e.t.v. yrði rekinn fleygur í Rithöfundasambandið þannig að það klofnaði á ný í tvö félög eins og forðum. Ég held þess vegna að sú neikvæða afstaða, sem þessi hv. þm. hafði og eins og lýsir sér í bréfi formanns Rithöfundasambands Ístands, geti ekki gert annað en spilla fyrir þessu máli og valda tjóni.

Ég hef aðeins litið yfir þau nöfn sem þarna standa undir. Þar á meðal eru fleiri en einn sem hafa persónulega talað við mig um þessa till. og lýst áhuga sínum á málinu. Er ég nú farinn að halda að rithöfundar eigi kannske að skrifa nafn sitt örlítið sjaldnar og meina þá meira með undirskriftinni. Ef menn skrifa undir hvað eina sem þeim er rétt, bera ekki virðingu fyrir sínum penna og eru undir hverju því undirskriftaplaggi sem þeir fá að sjá og komast í snertingu við, þá get ég ekki tekið þvílík nöfn alvarlega, satt að segja.

Ágreiningur var uppi á s.l. vetri. Það liggur líka fyrir, að stjórn Launasjóðsins hefur orðið vör við það í sinni úthlutun nú í vetur, að hún er undir gagnrýni. Hún mun þess vegna, eftir því sem ég ætla, fara gætilegar að en á s.l. vetri og hafa víðari sjónarhorn.

Ég heyrði að hv. þm. var eitthvað að grípa fram í. (GHelg: Leiðrétta.) Ég geri ráð fyrir að hann fái hér orðið eins og aðrir. Ég vona það að minnsta kosti. En þessi tillöguflutningur hefur að mínu viti gert gagn, eins og fram mun koma.

Ég vil svo að öðru leyti vísa á bug ummælum þessa hv. þm. um það, að ég sé að reyna að spilla fyrir rithöfundum. Það er algerlega úr lausu lofti gripið. Mér kemur ekkert á óvart þótt í bréfi eða ályktun frá stjórn Rithöfundasambands Íslands sé því mótmætt að þingkjörin nefnd úthluti úr Launasjóðnum. Við skulum láta það liggja á milli hluta. Þá hlið málsins er hægt að athuga. Sumir eru þeirrar skoðunar. Ég hef ekki verið sannfærður um að það sé betri lausn, og það er þess vegna ekki mín skoðun, þó ég sé síður en svo á móti því að sú leið verði könnuð. En ég held að það sé óhjákvæmilegt til þess að hreinsa andrúmsloftið að fram fari athugun á þessu máli, að reglugerð og lög Launasjóðsins fái endurskoðun í ljósi reynslunnar. Ég get ekki skilið að það skaði einn né neinn, og ég fullyrði að það mun auðvelda baráttu rithöfunda og skálda fyrir bættum starfsskilyrðum í framtíðinni ef hægt verður að eyða þeirri tortryggni sem upp hefur komið. Þessi tortryggni hefur komið upp, harðar ásakanir hafa komið fram í blöðum í sambandi við síðustu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda. Það skiptir engu máli hversu margir menn skrifa undir plögg um það, að sú gagnrýni hafi ekki komið fram. Gagnrýnin var mjög hörð og óvægin frá ýmsum af virtustu rithöfundum og skáldum landsins og ýmsum flokksbræðrum þessa hv. þm. Ef menn vilja líta fram hjá þessu og ef menn telja að þessir menn eigi engan rétt, þá hljóta þeir að snúast gegn þessu máli hér. Ef þeir telja að minni hlutinn í Rithöfundasambandi Íslands sé ekki þess verður, að rödd hans megi heyrast, þá hljóta þeir að vera andsnúnir þessari tillögu. Ef menn á hinn bóginn telja að þm. sé nokkur vandi á höndum, að þm. eigi að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem komið hafa fram, þá hljóta þeir að álíta rétt að fyrir næsta Alþingi verði lögð fram endurskoðun á Launasjóðnum og yfirlit um starf hans. Það getur ekki valdið neinu tjóni, engan skaðað, mundi þvert á móti auðvelda þær lagfæringar og leiðréttingar sem rithöfundar höfðu sjálfir í huga þegar þeir samþykktu í sínum samtökum að reglugerð Launasjóðsins yrði endurskoðuð.

Það er nú einu sinni Alþingis að hafa fjárveitingavaldið og umsjón með því, hvernig opinberu fé er varið. Þess vegna getur Alþingi ekki skorast undan því að fylgjast með þessu eins og ýmsu öðru. Og eins og ég sagði áðan: þetta er ekki bara Launasjóður rithöfunda. Við getum líka víkkað þessa till. út. Fé er varið til listamanna með ýmsum öðrum hætti. Við skulum t.d. líta á starfslaun listamanna sem fimmfölduðust á þessum fjárlögum miðað við í fyrra, ef ég man rétt. Því fé er fyrst og fremst varið til myndlistarmanna. Það væri líka fróðlegt að fylgjast með framkvæmd þeirra mála. Ég vil vekja athygli á því, að mikill uppgangur hefur verið hjá tónlistarmönnum. Ég minni enn fremur á það, að ýmis leikhús eiga í fjárhagslegum erfiðleikum og listastarfsemi yfirleitt í landinu. Þess vegna held ég að það væri jafnvel til bóta að víkka þessa till. út og láta hana ná almennt til opinberra framlaga til listastarfsemi. Það getur engan skaðað, engan sakað.

Þröngsýnin, sem kemur fram í bréfi Rithöfundasambandsins, er ótrúleg miðað við það, að rithöfundar ættu að vera víðsýnni menn en þar kemur fram. Og um þá rithöfunda, sem hafa skrifað nafn sitt undir einhver mótmæli, er það fyrst og fremst að segja, að þeir mótmæla einungis því, að þingkjörin nefnd úthluti úr Launasjóðnum. Að öðru leyti eru þeir ekki á móti því, að lög um Launasjóð rithöfunda verði endurskoðuð og reglugerð. Þar er þess vegna ekki um það að ræða að mótmæla þeirri till. sem hér er fram borin, enda er hvergi minnst á það í henni, að stjórn Launasjóðsins eigi að vera þingkjörin, — hvergi á það minnst. Þessi undirskriftasöfnun styður því að engu leyti þau orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, að ekki sé ástæða til þess að endurskoðun fari fram á því opinbera fé sem veitt er til rithöfunda með ýmsum hætti, að því sé gaumur gefinn, hvort ekki megi verja því fé betur og með öðrum hætti. Og rétt í þessum svifum sá ég enn nöfn tveggja rithöfunda á þessu blaði sem báðir hafa sagt við mig að þeir telji að sjö menn eigi að vera í stjórn Launasjóðs rithöfunda, en ekki þrír. Ég sá í þessum svifum tvo til viðbótar, þannig að ég þykist sjá að þetta nái ekki til endurskoðunarinnar sjálfrar, enda vafasamt að hægt sé að færa rök fyrir því, að betur sjái þrír menn en sjö, þegar um það er að ræða að meta og vega hvaða rithöfunda eigi að taka fram yfir, hvaða verk eigi fyrst og fremst að verðlauna hverju sinni til þess að þau verði unnin.