07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

114. mál, þóknun fyrir innheimtu gjalda

Flm. (Friðrik Sophusson:

) Herra forseti. Ég hef á þskj. 117 ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni leyft mér að leggja fyrir hv. deild frv. til laga um þóknun fyrir lögboðna innheimtu gjalda. Er 1. gr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvarvetna þar sem atvinnurekendum er með lagaboði gert skylt að innheimta opinber gjöld eða aðrar greiðslur hjá starfsfólki sínu eða kaupendum vöru þeirra eða þjónustu skal greiða þeim þóknun fyrir innheimtuna er nemi 3% — þremur af hundraði — af upphæðum innheimtra gjalda. Þóknun greiðist um leið og innheimtufénu er skilað til réttra aðila, enda sé það gert innan þeirra tímamarka sem lögboðið er.“

Það er ljóst að lagaheimildum og lagaboðum um slíka innheimtuskyldu hefur fjölgað gífurlega hin síðari ár og að þessu starfi atvinnurekenda fylgir mikil og vaxandi vinna og ábyrgð. Það er auðvitað íhugunaratriði hvort 3% sé rétt tala eða ekki og mun ég víkja aðeins að því síðar í minni framsögu.

Þess skal getið, að Skúli Guðmundsson alþm. flutti á 88. löggjafarþinginu frv. svipaðs efnis, en það tók til innheimtu opinberra gjalda og þar var nefnd upphæðin 3%. Því frv. var síðan vísað til ríkisst j. 1968 um vorið, en ekkert hefur gerst í málinu síðan.

Í grg. með þessu frv. eru taldir upp nokkrir þeirra skatta sem atvinnurekendum er gert skylt að heimta inn í sínum rekstri. Þar er minnst á tekjuskatt launþega, útsvar launþega, söluskatt, launaskatt, iðnaðargjald, Iðnlánasjóðsgjald, slysatryggingu I og II, atvinnuleysistryggingagjald, lífeyrissjóðsgjald, lífeyristryggingagjald, sjúkrasjóðsgjald og orlofsfé. Auk þess heimta atvinnurekendur inn félagsgjöld til launþegasamtaka og orlofsheimilasjóðsgjald, en þeirra er ekki getið í upptalningunni þar sem þar er um að ræða samningsatriði milli atvinnurekenda og launþega.

Ég sagði áðan að það væri íhugunaratriði hvort nefna ætti 3% eða einhverja aðra tölu. Nýlega var lagt fram á Alþingi frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda á þskj. 75 og í því frv., 46. gr., er gert ráð fyrir að innheimtuaðilar fái 3% af því fé sem heimt er inn, eins og þar greinir. Með leyfi forseta vil ég vitna til 46. gr. þessa frv., en hún er í VII. kafla frv., sem ber nafnið: Skipting á innheimtufé staðgreiðslu. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Ríkisskattstjóri skal þó ætíð halda eftir þrem hundraðshlutum (3%) af því fé sem greitt er öðrum rétthöfum þessara skatta og gjalda en ríkissjóði til að standa undir kostnaði við innheimtu þeirra og álagningu.“

Síðar í sömu grein, í lok 2. mgr., segir svo orðrétt, með leyfi forseta: „Ríkisskattstjóri skal þó ætíð halda eftir þrem hundraðshlutum (3%) af því fé, sem greitt er öðrum rétthöfum þessara skatta og gjalda en ríkissjóði, til að standa undir kostnaði við innheimtu þeirra og álagningu.“

Í 46. gr. frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda er því að finna sterkan rökstuðning fyrir því lagafrv. sem við höfum lagt hér fram og nú er til umr. Í grg. með frv. um staðgreiðslukerfi skatta kemur fram glöggur og greinargóður rökstuðningur fyrir því, að þetta hlutfall sé 3%. Er það rökstutt með beinum tölum, sem fundnar eru m. a. hjá ríkisbókhaldi. Verður því að ætla að það hlutfall, sem nefnt er í frv. okkar hv. þm. Alberts Guðmundssonar, sé ekki fjarri lagi. Það skiptir þó ekki öllu máli því að aðalatriðið er að viðurkenna þá gífurlega miklu vinnu sem lögð er á herðar atvinnurekenda sem gert er með lagaboði að innheimta opinber gjöld.

Einn langstærsti liðurinn í slíkri innheimtu er að sjálfsögðu söluskatturinn, en hann var fyrst leiddur í lög hér á landi árið 1948 með svipuðu sniði og nú gildir. Fyrst um sinn var hann tímabundinn, en árið 1960 eða með lögum nr. 10 frá 1960 var skatturinn hins vegar gerður varanlegur og varð þá skatthlutfallið 3%. Nú er söluskatturinn kominn upp í 23,5% og er það gífurlega mikil hækkun svo sem augljóst er. Hækkanir á söluskatti hafa átt sér stað í áföngum frá 1. apríl 1960, þegar hann var ákveðinn 3%. 1964 varð hann 5,5%, 1965 varð hann 7,5%, 1970 fór hann upp í 11% og 1973 upp í 13%, en þá bættist 2% viðlagagjald við. 1974 varð enn breyting á söluskattslögum. Þá kom olíugjaldið til sögunnar. 1974, síðar á árinu, hækkaði söluskatturinn upp í 17%. 1974 um haustið fór enn fram breyting á söluskatti. 1975 var hann hækkaður um eitt prósentustig í 20%. Árið 1978 var hins vegar felldur niður söluskattur af matvælum, sem auðvitað gerir innheimtuna og útreikninginn enn þá flóknari en ella. Árið 1979 hækkar hann um tvö prósentustig til viðbótar, verður 22%. Og 1980, 14. apríl, hækkar söluskatturinn upp í 23,5%, þegar 1,5% orkujöfnunargjaldi er bætt við.

Eins og fram kemur í þessum tölum hefur hlutfalli söluskatts verið breytt tíu sinnum á síðastliðnum 20 árum og skattbyrðin er tæplega átta sinnum meiri árið 1980 en hún var 1960. Auk þessara breytinga, sem hafa orðið á upphæð söluskatts, hefur skilafresti verið breytt vegna aukinnar verðbólgu og meiri fjárþarfar ríkisins.

Árið 1960 var skilafrestur á söluskatti ársfjórðungslega og gjalddagi var 15. dagur næsta mánaðar, eindagi mánuði síðar. Árið 1970 var þessu breytt. Þá var uppgjör á tveggja mánaða fresti og gjalddagi 15. dagur næsta mánaðar, eindagi mánuði síðar. 1. mars 1973 verður enn breyting á skilafresti. Þá var uppgjör mánaðarlega, gjalddagi 15. dagur næsta mánaðar, eindagi tíu dögum siðar. Þannig hefur uppgjörstímabilið verið stytt úr þremur mánuðum í einn mánuð og tímabil frá gjalddaga til eindaga verið stytt úr 30 dögum í 10 daga.

Ekki hefur eingöngu verið breytt upphæð söluskatts og skilafresti, heldur jafnframt viðurlögum. Árið 1960 voru viðurlögin þau að greiða skyldi 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir eindaga. Árið 1973 var þessari upphæð breytt í 2% af vangreiddri upphæð og allt upp í 10%, en í öðru lagi lagðir á dráttarvextir fyrir byrjaðan mánuð frá og með 16. degi næsta mánaðar eftir eindaga. Árið 1978 hækka vaxtaviðurlög í 4% fyrir hvern byrjaðan dag og af vangreiddri upphæð upp í að 20%. Og í nýju frv., sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, eru enn hert viðurlögin með hækkun sektar og gert er ráð fyrir í því frv. að enn eigi að herða á innheimtunni.

Til að gefa hugmynd um, hvernig söluskattur hefur hækkað sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs, má geta þess, að árið 1961 var söluskatturinn 13,6% af tekjum ríkisins, en 1981 milli 38 og 39%. Á þessum tölum sést hve gífurleg hækkun hefur orðið á söluskattinum miðað við aðra skattheimtu. Til viðbótar hefur það gerst, að undanþágum hefur fjölgað. Auðvitað gerir það allan útreikning og skil miklu erfiðari en ella. Á Alþingi liggur frammi tillaga um að sleppa flutningskostnaði út úr söluskattsstofni, sem talið er vera sanngirnismál fyrir þá sem búa út á landsbyggðinni, en auðvitað hlýtur útreikningur á söluskatti að verða enn flóknari nái sú tillaga fram að ganga.

Allt þetta gerir það að verkum, að útreikningur og innheimta gjalda til ríkisins í formi söluskatts eru miklu erfiðari nú en áður. Það er ljóst að mikil vinna og kostnaðar eru samfara söluskattsuppgjöri. Þessi kostnaður fer að sjálfsögðu vaxandi eftir því sem undanþágum fjölgar, eins og ég sagði áður, og innheimtan verður flóknari. Í eina tíð var því svarað til af opinberum aðllum, að kaupmenn væru ekki of góðir að taka á sig þennan kostnað þar sem þeir fengju lánaðar stórar fúlgur vaxtalaust. Þetta var þegar söluskattur var gerður upp ársfjórðungslega. Nú er söluskattur gerður upp mánaðarlega og hefur í mörgum tilfellum ekki fengist greiddur þegar ber að skila honum til ríkisins, eins og títt er í afborgunarkaupum. Þannig hafa hlutirnir snúist við. Kaupmenn eru farnir að standa skil á söluskatti til ríkisins sem neytendur hafa ekki enn greitt til kaupmanna.

Erfitt er að ákvarða einhvern algildan mælikvarða á vinnu og kostnað samfara innheimtu á söluskatti. Hlýtur það að vera einstaklingsbundið og háð aðstæðum hverju sinni. Hins vegar má með nokkurri vissu ákvarða þá þætti í kostnaði verslunarinnar sem tengdir eru söluskattsinnheimtu þeirra. Það er í fyrsta lagi vinna við álagningu söluskatts, í öðru lagi geymsla söluskattsskyldra vara, húsnæðiskostnaður, ljós, hiti og rafmagn, í þriðja lagi móttaka söluskatts og vinna við að halda honum til haga, í fjórða lagi vinna við bókhald, uppgjör og skil söluskatts, aðstaða og vélar til slíks, og í fimmta lagi sending söluskatts til innheimtuaðila. Þó að segja megi að sumir þessir liðir séu ekki beinlínis tengdir söluskatti má benda á, að ef sú vinna og kostnaður, sem þar um getur, eru ekki fyrir hendi verður innheimta söluskatts ekki heldur möguleg. Því er sanngjarnt að söiuskattur beri sinn hluta af þessum kostnaði.

Ég hef nú, herra forseti, rakið nokkra þætti varðandi söluskatt sérstaklega, en auðvitað gegnir sama máli um aðra skatta og önnur gjöld sem atvinnurekendum er gert með lagaboði að skila til ríkissjóðs. Það er ljóst að allt önnur viðhorf hljóta að gilda um 23,5% söluskatt en um 3% söluskatt, en þrátt fyrir þetta hefur þó lítið breyst í innheimtu- og álagningaraðferðum, er varða söluskatt, á s. l. tveimur áratugum. Ýmsar tillögur hafa komi fram um úrbætur í þessum málum. Auk þeirrar tillögu, sem hér er mælt fyrir, hefur verið bent á að söluskattur ætti að miðast við greiðsludag vöru, en ekki söludag eins og nú er. Bent hefur verið á að nauðsynlegt sé að vörur séu verðmerktar án söluskatts þar sem því verður við komið þannig að almenningur, neytendur sem kaupa vöruna, geti séð hverju sinni hvað varan kostar út úr búð án skatts og síðan að hve miklu leyti fólk er að borga skattinn þegar það gengur í verslanir til að greiða þá vöru sem það vanhagar um. Loks má nefna, og í því sambandi er rétt að minna á stjórnarsáttmála ríkisstj., virðisaukaskattinn, sem lítið hefur farið fyrir í þingsölum að undanförnu og ýmsir eru hræddir um að hæstv. ríkisstj. sé hætt við að fylgja eins og ýmsu öðru í stjórnarsáttmálanum. Ef skilja mátti hæstv. fjmrh. rétt, þegar hann ræddi þetta mál á síðasta þingi, má gera ráð fyrir að hæstv. ríkisst j. láti ekki verða af því að flytja frv. um virðisaukaskatt á yfirstandandi kjörtímabili. Er það í stil við annað sem segir í þeim alræmda sáttmála.

Ég hef, herra forseti, farið nokkrum orðum um efnisinnihald þessa frv., bent á ýmsar leiðir til úrbóta og rökstutt þá leið, sem kemur fram í frv., að greiða innheimtumönnum, þ. e. atvinnurekendum í landinu, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda. Ég vonast til, að þessu máli verði vel tekið hér á hv. Alþingi, og geri að tillögu minni að það verði sent hv. fjh.- og viðskn. til afgreiðslu.