07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

129. mál, lokunartími sölubúða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að harma ef málflutningur minn áðan var svo óskýr sem fram kom í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Ég var ekki sérstaklega að hafa áhuga á því, að einstæðir foreldrar í landinu, eins og hann leyfði sér að segja, ynnu einkum lengri vinnutíma en annað fólk til að afla tekna, heldur var ég að tala um annað, svokallaðan sveigjanlegan vinnutíma sem mjög hefur verið ræddur hér einmitt í sambandi við það sem menn vilja nú á dögum kalla fjölskyldupólitík. Við þurfnm ekki að ræða það hér — við vitum það öll — að vinnutími manna á Íslandi er of langur og allur vinnutími fólks er settur og ákveðinn án alls tillits við börn landsins. Er mál til komið að þau kæmu aðeins inn í þá mynd. Með aukinni útivinnu beggja foreldra verður æ meiri þörf á því, að vinnutími fólks verði sveigjanlegur. Ef hv. þm. Halldór Blöndal vildi hugsa málið aðeins nánar er vel hægt að hugsa sér að það gæti verið til þæginda m. a. verslunarfólki að annað foreldrið gæti unnið til e. t. v. 3 eða 4 á daginn og hitt þá kannske frá 4 til 8 o. s. frv. Hér er enginn að tala um að fólk vinni nótt og dag. Ég býst ekki við að gera þurfi ráð fyrir slíku. Það, sem ég átti við, var sveigjanleiki í vinnutíma. Ég hafði heldur engin orð hér um að starfsfólk dagvistarstofnana ætti öðrum erfiðara með að komast í verslanir. Það var ekki það sem ég sagði, heldur hafa athuganir sýnt að börn verslunarfólks eru lengur á dagvistarstofnunum en talið er heppilegt barnanna vegna. Það var þetta sem ég var að segja, hv. þm. Halldór Blöndal.

Menn eru að bera hér saman, og ekki alveg að ófyrirsynju, lokunartíma opinberra stofnana og verslana. Það er alkunna, að fjölmargt vinnandi fólk í landinu á erfitt með að komast í opinberar stofnanir, en það vill nú til að þetta er ekki alveg sambærilegt. Menn eiga vérulega færri erindi til opinberra stofnana en til verslana, þangað sem þeir sækja nauðþurftir sínar daglega, þannig að sá samanburður er ekki með öllu eðlilegur.

Ótti manna um að fólk verði látið vinna á lægri launum á eftirvinnutíma, eftir því sem ég hef skilið af þessum umr., er auðvitað þessu máli alveg óviðkomandi. Það er kjaramál sem ég vænti að stéttarfélögin annist þegar þar að kemur.

Að lokum aðeins um það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um óinnheimtan söluskatt af markaðinum á Lækjartorgi. Ég vil aðeins segja þetta: Ef það eru verstu söluskattssvikin í landinu ættu þau mál að vera í sæmilegu lagi. Ég hygg að þau séu aftur á móti önnur saga, sem ástæða væri til að ræða í annarri umr., en ég held að það sé stórmál sem áhyggjuvert sé.

Þetta þótti mér rétt að leiðrétta nú. En auðvitað fer þetta mál sína leið til nefndar. Ég get tekið undir með hv. þm. um að þetta mál þarf að sjálfsögðu skoðunar og er eðlilegt að senda það til umsagnar allra hagsmunaaðila: neytenda, verslunarfólks og kaupmannasamtaka. Að sjálfsögðu kemur málið síðan hér aftur til endanlegrar ákvörðunar.