08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

340. mál, harðindi norðanlands

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svör hans og fæ ekki betur sé en þessi mál eigi að vera í góðu horfi nú. Ég vonast til að svo verði áfram og að ráðstafanir verði gerðar til þess að Bjargráðasjóður geti hlaupið undir bagga þegar niðurstöður hafa fengist um það tjón sem orðið hefur fyrir norðan.

Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að það hlýtur að koma til álita nú, vegna þess að kartöflubændur fyrir norðan hafa orðið fyrir tjóni með mjög skömmu millibili, að reynt verði að ganga lengra til móts við þá en ella mundi, en tek undir þau orð hæstv. landbrh. samt sem áður, að ekki er eðlilegt að Bjargráðasjóður bæti tjón af náttúruhamförum að fullu.

Ég geri svo ráð fyrir því, að við munum taka það til athugunar, þm. Norðurlandskjördæmis eystra, hvort ekki sé rétt að lán Bjargráðasjóðs verði undanskilin við útreikning tekjufærslu á skattframtali. Við höfum aðeins tekið það mál til umfjöllunar okkar á milli og ég geri ráð fyrir að við munum gera það áfram og athuga hvort ekki náist um það samkomulag okkar á milli.

Ég vil sem sagt þakka þessi svör og vonast til að málið haldi áfram í réttum farvegi.