08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur með þessari fsp. hreyft mjög mikilvægu máli sem skiptir íslenskan iðnað og framtíð hans mjög miklu. Á mjög fjölmennum fundi, sem haldinn var á vegum Félags ísl. iðnrekenda á föstudaginn var hér í Reykjavík og ýmsir þm. a. m. k. voru boðnir til, var gefið yfirlit yfir stöðu ýmissa helstu iðngreina sem eru stundaðar hér á landi. Þar kom fram að þessar svokölluðu stuðnings- eða styrktaraðgerðir, sem beitt er í ýmsum þeim löndum sem við eigum í samkeppni við, hafa leitt til þess, að iðnaðarvörur erlendis frá eru nú fluttar hér inn niðurgreiddar í meira eða minna mæli, en það er að sjálfsögðu í algerri andstöðu við anda fríverslunarsamningsins. Það er þess vegna mjög mikilvægt að hæstv. viðskrh. taki mjög fast á þessu máli innan EFTA. En ég fékk það á tilfinninguna af þeim svörum sem hann gaf hér, að svo væri ekki gert, þetta væri meira á skrifborðsstiginu. Það þyrfti að taka mun fastar á í þessu máli.

En það er fleira en þessar stuðningsaðgerðir sem hér kemur til athugunar. Það eru ýmiss konar aðrar aðgerðir, óbeinar hömlur á innflutningi frá Íslandi til sumra þessara landa. Mér er t. d. kunnugt um að eitt íslenskt iðnaðarfyrirtæki, sem framleiðir innréttingar, hugðist notfæra sér þennan frjálsa markað og hefja útflutning á sínum varningi til Svíþjóðar. Það fékk þá þau svör í Svíþjóð, að slíkur varningur þyrfti að fara í sérstaka gæðaprófun áður en leyft væri að flytja innréttingarnar til Svíþjóðar. Sýnishorn var sent út í mars s. l., en nú er þetta ár að verða liðið og síðan hefur ekkert heyrst og enn stendur á því að svokölluð gæðaprófunarnefnd í Svíþjóð gefi heimild til að þetta fyrirtæki geti flutt út sinn varning til Svíþjóðar. Hér er að sjálfsögðu beitt óbeinum hömlum sem mér finnst vera mjög andstætt því sem gilda eigi í viðskiptum milli ríkja sem eru aðilar að EFTA.

Það væri út af fyrir sig ástæða til þess að fjölyrða um þetta mál frekar, en tíminn leyfir það ekki hér, t. d. að fjalla svolítið um húsasmíði og innflutning á húsum og mismunandi aðstöðu íslenskra fyrirtækja og innflytjenda að því leyti. En tími minn leyfir það ekki á þessu stigi og ég geymi mér það þangað til síðar.