08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. — Ég vil byrja á því að þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að hreyfa hér merku og þörfu máli og vil aðeins bæta hér við og leggja áherslu á mikilvægi þess, að tekið verði upp þetta sem við köllum gæðaeftirlit á innfluttum iðnaðarvörum til landsins.

Hæstv. iðnrh. gat þess, að þetta mál væri í athugun hvað varðar innflutning á húsgögnum, en ég legg kannske enn þyngri áherslu á að þetta gæðaeftirlit verði tekið upp við innflutning á tilbúnum húsum. Ég held að það sé jafnvel enn brýnna að það sé gert og ég kem hér fyrst og fremst upp til að leggja áherslu á við hæstv. iðnrh. að það mál verði tekið mjög vel til athugunar jafnframt því að gæðaeftirlit verði tekið upp á innflutt húsgögn.