08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til viðskrh. um olíustyrki til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar. Það er spurt um í fyrsta lagi: Hverjar ástæður geta verið fyrir því, að ekki sé ráðstafað til olíustyrkja nema um helmingi af þeim 50 millj. kr., sem fjárlög 1981 gera ráð fyrir að sé varið í þessu skyni?

Í öðru lagi er spurt hvort ríkisstj. vilji sjá til þess, að greidd verði viðbót við olíustyrki árið 1981, þannig að ráðstafað verði öllu því fjármagni sem fjárlög gera ráð fyrir til olíustyrkja á þessu ári.

Í fjárlögum fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir að verja 50 millj. kr. í styrk vegna olíunotkunar til húshitunar. Frá 1. jan. 1980 hefur hver olíustyrkur numið 200 kr. á ársfjórðunginn. Meðaltalsfjöldi styrkja á árinu 1981 er áætlaður um 29 þús. Yrði þá kostnaður, miðað við óbreyttan olíustyrk, fyrir árið 1981 um 23 millj. kr. Auk þess er olíustyrkur greiddur til rafveitna og skóla og áætlast þær greiðslur 2–3 millj. kr. á þessu ári. Upphæð olíustyrkja hefur verið óbreytt síðan lög nr. 53/1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, voru sett. Í lögunum segir að heimilt sé að breyta olíustyrknum miðað við breytingu á verði gasolíu og annarra orkugjafa. Ef olíustyrkurinn hefði verið hækkaður í hlutfalli við olíuverð hefði hann átt að vera 360 kr. á ársfjórðungi þegar fyrir síðustu olíuverðshækkun nú að dögunum, miðað við það olíuverð sem var þegar frv. að lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar var samþykkt. Með tilliti til þessara staðreynda lýsir það ekki mikilli umhyggju fyrir því fólki, sem þarf að bera byrðar olíuupphitunar, og er raunar reginhneyksli að ríkisstj. skuli ekki hafa notað heimild laga til þess að hækka olíustyrkinn og nýta allt það fjármagn sem Alþingi hefur ákveðið að varið skuli í þessar þarfir.

Fsp. mín veit að því annars vegar að fá skýringar á þessu framferði ríkisstj. og hins vegar að því að fá úrbætur í þessu efni. Ég legg áherslu á að ríkisstj. sjái til þess, að greidd verði viðbót við olíustyrkinn fyrir árið 1981, þannig að ráðstafað verði öllu því fjármagni sem fjárlög gera ráð fyrir til olíustyrkja fyrir fjórða ársfjórðung og jafnframt uppbót á styrki hinna fyrri ársfjórðunga. Ákvörðun um þetta þarf að taka strax. Það væri góður jólaglaðningur fyrir þá sem búa við olíuupphitun. Reyndar er þetta ekki annað en það sem ríkisstj. ber nú skylda til að gera.

Ef einhver er í vafa um réttmæti þess, sem hér er farið fram á, má vísa til staðreynda. Það er að sjálfsögðu af mörgu að taka, en ég læt mér nægja að benda á að samkv. niðurstöðum könnunar Fjórðungssambands Vestfirðinga er mismunurinn á útgjöldum sambærilegrar fjölskyldu í Reykjavík, sem býr við hitaveitu, og á Ísafirði, sem býr við húshitun með olíu, sem nemur andvirði 13.73 vinnuvikna. Það tekur á Ísafirði 13.73 vinnuvikur að vinna fyrir upphituninni samkv. þessu fram yfir það, sem það tekur Reykvíkinginn, sem býr við hitaveituna. Þessir útreikningar hafa ekki verið vefengdir. Þetta er sambærilegt við það sem allir þurfa að þola sem við olíukyndingu búa, hvar sem þeir eru á landinu.