08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er aðeins í þessu máli um að ræða einn hlutann af því stóra vandamáli, sem er á leiðinni að valda einhverri mestu byggðaröskun í landinu. Þegar menn tala um upphitunarkostnað vegna olíu er ljóst að það eru fleiri þættir sem þarf að taka tillit til. Það er orðinn æðimikill munur á upphitunarkostnaði annars vegar hér á þessu hitaveitusvæði t. d. og á rafmagnsupphitun úti á landi og á fjarvarmaupphitun líka. Þessa þrjá þætti á því að ræða saman, en ekki einskorða sig við olíuupphitun.

Ég heyrði að hæstv. viðskrh. sagði að það mundi ekki vera ágreiningur milli hans og hv. þm. Þorvalds Garðars í þessu máli. En ég vil benda á að það er þegar, hefur verið lengi og er vaxandi ágreiningur milli stjórnvalda, hæstv. viðskrh. og fólksins sem þarf að búa við þessi illu kjör. Hæstv. ríkisstj. hefur nýlega svarað fyrir sig í þessu máli. Ég veit að hv. þm. er það kunnugt, að ein meginkrafan í sambandi við þá samninga, sem voru á döfinni á s. l. hausti af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða, var um jöfnun orkuverðs og kröfu um úrbætur beint til hæstv. ríkisstj. Hér er um að ræða mál sem menn hafa talað um svo árum skiptir, en lítið sem ekkert orðið af framkvæmdum.

Ríkisstj. hefur nú neitað þessu, neitað ekki bara Vestfirðingum, þó að þeir hafi sett fram kröfuna og vildu fá lagfæringu, hún hefur neitað öllu því fólki sem hér á hlut að máli, um leiðréttingu. Ég vænti þess þó, að það verði hægt að knýja hæstv. ríkisstj. til þess að gera hér úrbætur á. Það yrði einhver mesta og raunhæfasta kjarabótin sem launafólk úti um land fengi, ef þarna yrði gerð leiðrétting á. Ég trúi því ekki, þó að þessa stundina verði maður að horfa á svarið á blaði neikvætt, að ekki verði með einhverjum hætti hægt að knýja hæstv. viðskrh. og aðra hæstv, ráðh. í núv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi til að fallast á þessar sjálfsögðu kröfur fólksins sem við þetta býr. Því verður ekki unað lengur að hér fáist ekki leiðrétting. Það verður að ske. Og ég bið hæstv. viðskrh., ef hann í hjarta sínu er sammála okkur í þessu, að beita þá þeim áhrifum sem hann getur innan ríkisstj. til þess að neiið verði afturkallað, því að neiið er komið fram af hálfu hæstv. ríkisstj., en jáið verður að knýja fram.