08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það voru þau ummæli hæstv. viðskrh., að ekki mætti lækka orkuverðið fyrir Vestfirðinga, sem olli því að ég kvaddi mér aftur hljóðs. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að stærstu verkalýðsfélögin eru flest á svæðum þar sem hitaveita er komin meira og minna, og af þeim sökum er sú krafa ekki eins vakandi hjá þeim. Á hinn bóginn er enginn vafi á því, að þessi krafa Vestfirðinganna bergmálar í brjóstum ýmissa annarra verkamanna og sjómanna víðs vegar úti um landið, ekki síst á Austfjörðum. Ég held því að það sé alveg óhætt að taka þessa kröfu alvarlega. Einu sinni var því ekki spáð, að ættjörðin frelsaðist á Álftanesi. Það má vera að húshitunarmálin bjargist á Vestfjörðum og væri ekkert nema gott um það að segja og mundi gleðja innilega hv. 4. þm. Vestf.

Hitt vil ég svo aðeins segja, að auðvitað er óþolandi að efna til skattheimtu undir yfirskini orkujöfnunar og eyða peningunum í annað. Það er algerlega óþolandi fyrir skattborgarana, fyrir launþegana og mest óþolandi fyrir þá sem fyrir mestu ranglæti verða. Ef Alþingi og ríkisstj. vilja efna til skattheimtu undir yfirskini orkujöfnunar, þá á að nota peningana til hennar, ekki annars. Ef ríkisstj. og Alþingi vill efna til skattheimtu í Framkvæmdasjóð aldraðra, þá á að láta þá peninga renna í byggingar fyrir aldraða um leið og þeir koma inn. Það er alveg óþarfi að geyma þá og láta þá eyðileggjast í fjárhirslum ríkisins. Þannig er hægt að halda lengi áfram.

Kjarni málsins er sá, að núv. ríkisstj. fær ekki frið fyrr en þetta mál kemst á hreint. Verkalýðshreyfingin úti á landi mun ekki una því, að þetta misrétti haldi áfram. Krafan verður öflugri og sterkari með hverju misserinu sem líður, vegna þess að það eru orðnir svo margir hér á landi, sem búa við lægri orkukostnað, og vegna þess, að vísitalan miðast við Reykjavík, hitaveituna í Reykjavík, en hæstv. forsrh. — sem mest hrósaði sér af því að hafa búið hana til, ég held að hann dreymi það stundum á nóttunni — leggur sig mest fram um það núna að banna henni skynsamlegar hækkanir svo að hún getur ekki unnið með eðlilegum hætti.