08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hún var athyglisverð ræða hæstv. landbrh. Ég veit ekki hvort menn tóku eftir því, hvað ráðh. var í raun og veru að segja. Í fyrsta lagi vildi hann helst fresta þessum umr. þangað til hæstv. forsrh. þóknaðist að vera hér á fundi. Hann sagði einnig að það hefði engin ákvörðun verið tekin um hvenær þm. færu í jólaleyfi, það hefði engin ákvörðun verið tekin um það hvenær þm. kæmu úr jólaleyfi, það hefði ekkert verið rætt við þingflokkana um þessi mál. Engar efnahagsaðgerðir hafa verið tilkynntar af efnahagsmálanefnd. Það hafa engar yfirlýsingar komið frá ríkisstj. nú, en ríkisstj. ætlar þó að fylgjast með framvindu mála, það sagði þó hæstv. ráðh., og tilkynna þjóðinni ákvarðanir sínar þegar henni hentar, eftir því sem manni skildist helst. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort þetta þýði að þær ákvarðanir, sem hæstv. ríkisstj. kann að koma sér saman um, verði lagðar fyrir þingið áður en jólaleyfi verður gefið eða ekki. Það er grundvallaratriði að fá svör við því. Mér fannst ræða hæstv. ráðh. bera vott um þann hroka sem mjög hefur einkennt athafnir núv. hæstv. ráðh. Þinginu kemur það eitt við sem þeim ráðherrunum þykir hæfa.

Eins og hér hefur komið fram hefur í dag, 8. des., ekkert verið talað við stjórnarandstöðuna um þinghaldið fram að jólum. Það eina, sem við vitum, er tilkynning hæstv. forseta Nd. um að að því sé stefnt, að jólaleyfi verði gefið 18. þ. m. Annað höfum við ekki heyrt. Af fram komnum þskj., má að vísu ráða að það verði harla lítið að gera í þinginu fram að jólum. Við getum ekki séð að nokkurt mál sé svo mikilvægt, sem fram er komið, að það þurfi að ná fram að ganga fyrir jól. Það er þá helst sinfónían og grásleppan. Ég man ekki eftir öðrum. Það er að vísu hvort tveggja hin merkustu mál, en ég held að þau skipti þó ekki sköpum í sambandi við þau vandamál sem fram undan eru. En séu einhver mál ókomin fram, sem ríkisstj. telur sig þurfa að fá afgreidd fyrir jól, er tíminn orðinn of naumur og alveg sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að við stjórnarandstöðuna hefur ekkert verið rætt — nákvæmlega ekki neitt.

Það verður ekki heldur séð að það sé yfirleitt nokkuð í undirbúningi af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er allt látið reka á reiðanum. Kannske stafar þetta aðgerðaleysi, eins og það blasir við okkur þm., af því að enginn samstaða er innan ríkisstj. um úrræði. Kannske er það líka svo, að ekkert sé að og þess vegna engin þörf á aðgerðum yfirleitt. Það mætti ætla að það væri skoðun ríkisstj. Það má benda í því sambandi á stefnuræðu hæstv. forsrh. Það er þó ekki nema einn og hálfur mánuður síðan hún var flutt. Hún er vissulega vitnisburður um að það sé skoðun hæstv. ríkisstj., að það sé allt í himnalagi. Það væri freistandi að taka upp nokkur atriði úr þessari ræðu, en ég ætla þó að stilla mig um það. En í stuttu máli sagt: Ég hef nýlega lesið þessa ræðu yfir mér til upprifjunar, og komst ég að þeirri niðurstöðu, sem ég komst að þegar ég las hana fyrst og heyrði hana flutta, að það væri allt í himnalagi í þessu þjóðfélagi. Það er freistandi að spyrja hvort það sé líka skoðun efnahagsnefndarmanna. Ég sé að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gengur hér í salinn. Er það skoðun hans að það sé allt í lagi og engra aðgerða sé þörf í efnahagsmálum? Er hann sammála því sem virðist vera skoðun hæstv. ríkisstj.?

En þó hæstv. forsrh. hafi borið sig mannalega þegar hann flutti stefnuræðu sína verður að ætla að einhverjir ráðh. geri sér grein fyrir að nokkur vandi sé fram undan. Þess vegna er spurt hér í dag hvað sé ætlunin að gera. Hvað er í bígerð? Þess vegna er því líka lýst yfir af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, að við séum reiðubúnir að sitja áfram á þingi, við séum reiðubúnir að sitja á milli jóla og nýárs og við séum reiðubúnir að sitja hér á þingi strax í byrjun janúar, enda er alveg ljóst að fyrir jól verður ríkisstj. ekki tilbúin með neinar tillögur. Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður.

Ég nefndi áðan að kannske væri engin samstaða í ríkissjóð. um nein úrræði. Svo má náttúrlega nefna það líka, að ráðherrarnir virðast ekki mega vera að því að stjórna þessu landi. Það hefur verið gerð nokkuð glögg grein hér fyrir fjarvistum ekki bara ráðh., heldur sumra annarra sem virðast þó vera ríkisstj. nokkuð mikilvægir, eins og t. d. formanns fjh.- og viðskn. Ed. Það er nú svo komið að tveir af nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. Ed. eru erlendis, bæði formaðurinn og hæstv. forsrh. Það kann kannske einhver að segja að bættur sé skaðinn, en ég held þó að ríkisstj. veiti ekki af að hafa þessa herra heima.

Við mótmælum hins vegar alveg sérstaklega að hæstv. ríkisstj. taki sér vald, sem hún raunverulega ekki hefur, meðan þingfundum er frestað um skamman tíma, eins og er í jólahléum. Við mótmælum vaxandi tilhneigingu ríkisstj. til að seilast inn á valdsvið löggjafans. Þetta er virðingarleysi við löggjafarvaldið. Þetta er hættulegt þingræðinu. Það er til skammar fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að láta stilla sér hvað eftir annað upp að vegg og samþykkja eftir á orðinn hlut. Það er óþolandi fyrir Alþingi að heyra skrifstofumenn úti í bæ vera að ræða við fréttamenn um ráðstafanir sem hugsanlega eigi að gera, — um ráðstafanir sem ræða á á Alþingi og hvergi annars staðar. (Gripið fram í: Og ekki við kaupfélagsstjóra.) Og ekki við kaupfélagsstjóra heldur, nei. Jafnvel ekki við kaupfélagsstjóra þó mikilvægir séu, a. m. k. í augum formanns Framsfl. — Alþingi hefur ekki framselt þetta vald sitt og ætlar sé ekki að gera það. Það er allt annað þó að nefndir starfi á vegum ríkisstj. Ég er ekki að finna að því. En þær eiga ekki að vera talandi um það úti í bæ sem á að ræða á hv. Alþingi.

Þótt það sé kannske til of mikils mælst að hæstv. ráðherrar fari að skýra frá því hér í dag, hverjar ráðagerðir séu í vændum, væri fróðlegt að heyra hver væri skoðun ríkisstj. á horfum í þjóðmálum almennt. Það er skoðun mín að það sé fullkomið tilefni til að Alþingi sitji að störfum ef ákvarðanir þarf að taka um aðgerðir nú, hvort sem það er fyrir áramót, um áramót eða strax á eftir.

Forsrh. sagði fyrir 11/2 mánuði að þjóðarframleiðsla mundi vaxa um 1% á næsta ári. Er það skoðun hæstv. ríkisstj. nú? Ég held að allt bendi til minnkandi þjóðarframleiðslu. Það eru gerbreytt viðhorf, m. a. vegna þess að fiskimið okkar virðast vera gernýtt, þorskafli eykst ekki. Þetta vita allir. Og það vita allir að markaðir okkar erlendis eru að þrengjast. Við þessu mátti búast og þetta var séð fyrir löngu, þótt hæstv. ríkisstj. styngi höfðinu í sandinn og virtist ekki sjá nokkurn skapaðan hlut. Þegar ástandið er svona er haldið áfram að fjölga fiskiskipum eftir einhverjum geðþóttaákvörðunum ráðh.

Á þessum sama tíma er svo talað um auknar virkjanir. Náttúrlega eigum við að kosta sjálfir þessar auknu virkjanir af fé orkufyrirtækjanna. Um leið er þeim haldið í algeru fjársvelti. Þau verða að ganga á eigið fé og taka jafnvel erlend lán til þess að greiða rekstrarútgjöld.

Viðskiptakjör okkar versna að flestra dómi einfaldlega vegna þess að staða dollarans mun versna. Það er samróma allt manna. Þjóðartekjur hækkuðu í ár fyrst og fremst vegna hækkunar dollarans, en það stendur ekki lengur. Meðalhækkun verðlagsvísitölu er 50% hærri árið 1981 en 1980. Það voru tímabundnar ástæður sem lágu að baki lækkuninni um tíma, eins og t. d. 7% kjaraskerðingin, sem þessi hæstv. ríkisstj. getur hælt sér af, og svo hækkun dollarans. Aukning peningamagns, 60–70% á árinu, er líka mælikvarði á það sem er að gerast. Versnandi afkoma atvinnulífsins hefur algerlega snúið við hagstæðri peningaþróun sem varð um tíma meðan innlán voru vaxandi.

Fjármál ríkisins eru sögð í lagi og af því gumar hæstv. fjmrh. alveg sérstaklega. En hvað er það sem hér liggur að baki? Ýmsum þáttum er haldið utan við ríkissjóð. Erlendar lántökur eru auknar og gilda um þessar erlendu lántökur geðþóttaákvarðanir ráðh. Greiðslum er frestað eins og hér kom fram í umr. fyrr í dag um það sem fer í ríkissjóð, en á að fara til niðurgreiðslu á olíukyndingarkostnaði. Svona mætti lengi telja.

Hvernig fer um ákvörðun fiskverðs nú um áramót? Hafa ráðherrarnir ekkert heyrt hvað sjómenn hyggjast fyrir? Skilja þeir ekki neitt hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi? Gera ráðh. sér grein fyrir hver gengisfellingarþörfin var orðin, áður en gengið var til nýgerðra kjarasamninga, eða hver hún er orðin núna og hvaða áhrif þetta allt hefur á verðbólguþróunina? Hafa framsóknarmenn ekki enn áttað sig á því, að hin svokallaða niðurtalningarstefna þeirra hefur beðið algert skipbrot? Hafa þeir ekki áttað sig á því? Ætla þeir áfram að stinga höfðinu í sandinn og þurfum við áfram að lesa leiðara Þórarins Tímaritstjóra um blessun niðurtalningarinnar?

Það eru fjölmargar fleiri spurningar sem nú þarf að fá svör við og þau svör á að gefa hér á hv. Alþingi. Hér á umr. að fara fram, en ekki í spjalli milli einhverra efnahagsnefndarmanna ríkisstj. og fréttamanna.