20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég held að síðasti ræðumaður hafi nú tekið nokkuð djúpt í árinni að segja að enginn viti um eignir ríkisins eða hvað er borgað í leigugjöld fyrir þær. Ég man ekki betur en að t. d. í sambandi við bújarðir sé ákveðið í lögum hvert gjaldið skuli vera, það skuli vera 3% af fasteignamati. Og ég þekki það vel til jarðeignadeildarinnar að ég fullyrði að þar séu hlutirnir a. m. k. nú í góðu lagi og hægt sé að fá upplýsingar um þetta þar.

Það eru viss vandkvæði á því að setja skrá upp í þjóðfélagi þar sem miklar breytingar verða eiginlega frá mánuði til mánaðar. Þá eru þessar tölur alltaf út af fyrir sig að breytast. Það væri mikið verk að setja þetta upp og svara því hvernig þetta breytist og hefur breyst, en að þetta liggi ekki fyrir er algjör misskilningur. Þetta er hægt að vinna og þetta er verið að vinna, eins og raunar kom fram í máli ræðumanns áðan.

Ég skal aftur á móti ekkert segja um hvernig þessi hlunnindi eru metin og hvernig greiðsla er fyrir þau, hvort þar er farið samkv. þessari reglu. Það hef ég ekki kynnt mér. En það hlýtur að vera auðvelt að fá upplýsingar um slíkt. Þær hljóta að liggja á lausu. Og það er fráleitt að halda því fram, að það viti enginn og það liggi ekki fyrir hvað ríkið á af jörðum. Það þarf ekki að halda svona fjarstæðu fram.

En í sambandi við þetta mál, þá var rætt um það mikið þegar jarðalögin voru sett á sínum tíma, hvernig ætti að ráðstafa landinu. Það var skoðun þeirra sem fjölluðu um þessi mál þá, að það væri eðlilegt að reyna að gera það á skipulegan hátt og taka t. d. heil landssvæði í eigu ríkisins undir slík orlofshús, en ekki að brytja niður jarðir í þeim tilgangi. Ég held að ég muni það rétt, þó að nokkur ár séu liðin síðan fjallað var um jarðalögin, að tekið sé fram í þeim að fólkvangar og jarðir, sem eigi að fara undir sumarbústaði eða orlofshús, skuli undanskilin þessum lögum. Hins vegar er það eitt af því, sem jarðanefndirnar eiga að gera, að bremsa það af að jörðum sé skipt í þessu skyni því að sums staðar a. m. k á landinu er það orðið svo, að jarðirnar verða lítils virði til búrekstrar vegna þess að það er búið að taka mikið undan fyrir sumarbústaði. Það þurfa að gilda einhverjar reglur sem farið er eftir í þessu efni.

Ég held að það sé alveg réttmætt að vekja athygli á því, að kannað sé hvaða ríkisjarðir það séu sem séu best fallnar til þessara hluta. Þær eru áreiðanlega æðimargar. Ég man eftir því, að það voru vissar jarðir, sem voru sérstaklega tilgreindar á þessum tíma, sem best væru fallnar til þess arna, lélegar jarðir til búrekstrar, en ágætar aftur í þessu skyni.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta meira. Ég held að það sé engin ástæða til að halda því fram, að það séu einhverjir vondir menn sem standi á móti því að fólk í þéttbýli geti fengið lönd fyrir sumarbústaði. Ég held að hér vanti bara fyrst og fremst frumkvæði um að gera þessa athugun. Ég skil ekki í því, að það finnist ekki jarðir sem ríkið geti látið til þeirra hluta ef eftir því er gengið. En það er ekki nóg að gaspra um það hér. Það þarf að gera eitthvað í málinu.