20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að það þarf að gera eitthvað í málinu. Til þess er þessi till. flutt, að eitthvað sé í málinu gert. Með samþykkt hennar yrði þegar í stað hafist handa. Ég þakka honum fyrir þann skilning sem kom fram í máli hans á því.

Aðeins örfá orð. Það er rétt hjá hv. þm., eins og ég raunar tók fram í ræðu minni, að nú er verið á vegum jarðadeildar landbrn. að taka saman þær upplýsingar sem m. a. hefur verið þörf á að alþm. hefðu með höndum. Til þess að auðvelda mönnum að sjá hversu erfitt hefur oft verið að fá þessar upplýsingar vil ég gjarnan segja litla sögu.

Fyrir fjórum árum átti ég sæti í Þingvallanefnd. Þingvellir eru eina landspildan á þessu landi sem er undir beinni stjórn Alþingis Íslendinga. Eru þrír þm. kjörnir af Sþ. til þess að fara með stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum sem lýtur sérstökum lögum. Í Þingvallanefnd, sem ég sat í, var formaður enginn minni maður en þáv. forseti Sþ., Gils Guðmundsson. Ásamt mér átti sæti í nefndinni með hæstv. forseta Sþ. formaður stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi, Geir Hallgrímsson. Við vorum þrír í þessari nefnd. Allir vita að í gildi eru sérstök lög um Þingvelli og þjóðgarðssvæðið sem m. a. banna byggingu sumarbústaða við Þingvallavatn innan þjóðgarðsins. Innan þjóðgarðsins á Þingvöllum eru tvær ríkisjarðir. Okkur í Þingvallanefnd bárust fréttir af því, að búið væri að gefa út byggingarbréf fyrir þessar jarðir. Samkv. lögunum um þjóðgarð á Þingvöllum bar að leita umsagnar Þingvallanefndar áður en leigusamningur væri gerður eða endurnýjaður um þessar jarðir. Það var ekki gert. Það tók okkur á þriðja misseri að fá að sjá þau nýju byggingarbréf sem út höfðu verið gefin. Voru mörg bréf skrifuð með beiðni þar um og margar ferðir farnar upp í landbrn. til að forvitnast um það, og ekki aðeins af okkur, heldur af þáv. þjóðgarðsverði, Eiríki J. Eiríkssyni. Þegar við loksins höfðum fengið byggingarbréfin í hendurnar hafði bygging, að mig minnir, tveggja sumarbústaða verið hafin í óleyfi Þingvallanefndar.

Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um hversu erfitt getur reynst að fá upplýsingar, jafnvel fyrir forseta Sþ. og sérstaka nefnd sem af þessu þingi hefur verið kjörin til þess að fara með stjórn á helgasta landsvæði okkar Íslendinga, sjálfum Þingvöllum.