09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

132. mál, framkvæmd eignarnáms

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram, að frv. um sama efni var til umr. hér í hv. deild á liðnum vetri. Ég tók þátt í þeirri umr. og gerði þá grein fyrir mínum skoðunum varðandi þetta mál svo að þær eru í megindráttum kunnar hv. 1. flm. sem og öðrum í þessari hv. deild. Vil ég leyfa mér að vísa til þess sem ég sagði í þeim umr.

Ástæðan fyrir því að ég stend hér upp nú í þessu svo að segja sama máli er ekki sú, að ég ætli að bæta þar betur um, heldur hitt, að eftir því sem mér sýnist gengur þetta frv. lengra í þá átt að þrengja rétt einstaklingsins heldur en frv. sem lagt var fram og rætt á liðnum vetri.

Ég hygg að menn séu allir sammála um að það sé mjög sérstæð athöfn í raun og veru þegar eign er numin af einstaklingi. Hún er af honum tekin hvort sem einstaklingnum líkar það betur eða verr. Við skulum hafa það í huga, að það er ekki sök einstaklings að samfélagið þurfi í einhverjum tilfellum á viðkomandi eign að halda. Þá mætti kannske spyrja: Er sanngjarnt að einstaklingur, sem er e. t. v. neyddur til þess að láta af hendi eign sína, verði að þola það bótalaust í sjálfu sér fyrir utan það hámarksverð, sem aðrir ákveða honum fyrir eignina í ljósi þess verklags sem lagt er til í því frv. sem hér er til umr.? Mín skoðun er sú, að það sé ekki sanngjörn meðferð. Raunar er það þannig, að 1. liður 2. gr. frv. lýsir megintilgangi frv., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Eignarnámsbætur fyrir land eða fasteignaréttindi tengd landi skal ákveða á grundvelli þeirrar notkunar, sem landið er í þegar umsókn um eignarnám er lögð fyrir viðkomandi rn. eða annan samþykktaraðila.“

Það mætti í sjálfu sér taka dæmi og spyrja í þessu sambandi. Nú hygg ég að flestir líti svo á, að þéttbýli hljóti alltaf að gera landið verðmætara í sjálfu sér, land nálægt þéttbýli. En ef við skoðum þetta nánar þar sem vísað er til fyrri notkunar, hinnar eiginlegu notkunar sem landið hefur verið í. Nú er það staðreynd, að búskapur leggst mjög gjarnan af í nálægð þéttbýlis. Það leiðir þá af sjálfu sér, að það er ekkert framkvæmt á viðkomandi jörð, kannske svo árum skiptir, það er ekki ræktað á jörðinni né heldur byggt þar neitt sem tilheyrir búskap, jörðin er sem sagt að engu leyti nytjuð. Nú kemur til kastanna samkv. frv. að meta þessa jörð. Ég geri ráð fyrir að miðað við það dæmi, sem ég hef nú tilfært, verði fasteignamat jarðarinnar mjög lágt. Það er væntanlega haft til hliðsjónar í þessu sambandi, eins og gert er ráð fyrir í frv., og söluverð ákvarðað í ljósi fyrri nota og í ljósi þeirra nota sem almennt eru um land eins og talað er um hér: „á viðkomandi svæði“. Mat reynist lágt á nefndum forsendum. Að þessu leyti — og ég ítreka það — getur svo farið að viðkomandi aðili beinlínis gjaldi þéttbýlisins.

Í 2. lið 2. gr. stendur: „Við ákvörðun eignarnámsbóta skal ekki taka tillit til möguleika á hækkun landverðs í framtíðinni.“ Þá vil ég spyrja: Getur ekki hagað svo til, er ekki hugsanlegt að það hagi svo til að einhverjar aðstæður, sem eru ekki í neinum tengslum við viðkomandi eignarnema, ekki í neinum tengslum við opinbera aðila heldur, gefi fyrirheit um verulega hækkun landverðs? Í slíku tilviki teldi ég óhæfu að ekki yrði tekið tillit til hækkunar.

Í 4. lið 2. gr. er getið um „fasteignaréttindi tengd landi á viðkomandi svæði, miðað við venjulega notkun þeirra.“ Mig langaði til þess að fá frekari skýringar á og e. t. v. tilfærð dæmi um það sem nefnt er „viðkomandi svæði“, vegna þess að þá leiði ég hugann að því, hvort hv. flm. hefur í huga bæjarmörk eða heila landshluta — eða hvað á hann við? Þetta getur skipt verulegu máli vegna þess að landareignir geta verið innan bæjarmarka þar sem verulegur eða mestur hluti landsins og verð á landi er metið í ljósi lóðaverðs. Þetta þarf því að skilgreina betur.

Í 6. lið stendur, með leyfi forseta: „Því aðeins er tekið tillit til verðmætisaukningar þegar sú notkun, sem verðmætisaukningin á rætur að rekja til, er í samræmi við samþykkt skipulag á því svæði sem tekið er eignarnámi.“ Mig langaði jafnframt að fá tilfært dæmi í þessu tilviki. Ég átta mig ekki alveg á, hvað hér er átt við, og gaman að fá það skýrt örlítið nánar.

Þá kem ég að 9. lið og raunar rúsínunni í pylsuendanum og ástæðunni fyrir því e. t. v. að ég stóð hér upp við þessa umr. Ég lít svo á að þessi liður sé af því tagi, að hann þrengi allverulega rétt einstaklingsins. Þar stendur:

„Verðhækkun á þeim hluta fasteignar, sem eignarnámið nær ekki til en leiðir af eignarnáminu, skal koma til frádráttar frá eignarnámsbótum.“

Þá vil ég spyrja: Hver á að meta þá verðhækkun ef einhver er? Er hér átt við nýtt mat í ljósi breyttra aðstæðna — eða við hvað er átt?

Ég sagði það í upphafi, að ég hefði í sjálfu sér ekki þurft að lýsa á ný viðhorfum mínum til þessa frv. eða þess máls sem hér er til umr. Ég taldi það þó skyldu mína vegna þess að ég tel, eins og ég gat um, að frv. þetta sé heldur þrengra og gangi lengra í þær áttir sem mér eru ekki alveg að skapi. En ég vil taka það fram, eins og ég gerði við umr. á liðnum vetri, að það þarf að setja skorður við óhóflegum gróða einstaklinga. Það eru dæmi þess, að einstaklingum hlotnast gífurlegar fjárhæðir, miklu, miklu hærri fjárhæðir en nokkur leið er raunar að ljá máls á, án þess að sá aðili, sem telst eiga viðkomandi fasteign, hafi hreyft svo mikið sem hönd eða fót til þess að auka verðmæti eignarinnar. En þarna vil ég fara einhvern milliveg. Ég sætti mig ekki við það, að eignir, hvort sem þær eru land eða eitthvað annað, séu teknar úr höndum einstaklinga. Sá gerningur er þess eðlis, að ég sætti mig ekki við annað en einstaklingurinn fái einhverja umbun fyrir.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar. Ég geri ráð fyrir því að hv. 1. flm. svari einhverju af því sem ég spurði um.