20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kem nú e. t. v. fyrst og fremst í ræðustól vegna niðurlagsins á ágætri ræðu hv. síðasta ræðumanns, þar sem ég hef ástæðu til þess að andmæta hv. þm. Steinþóri Gestssyni. Það hvarflar ekki að mér að ímynda mér það einu sinni að hann fari viljandi með rangt mál eða vilji draga fjöður yfir sannindi í þessu máli. Hitt er mér ljóst, og trúi ég þar eigin augum, að haldið hefur verið áfram að úthluta lóðum undir sumarbústaði á ríkisjörðum við Þingvallavatn og girða þar af ákveðin svæði. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, það er álit mitt, að þar sé gengið á almannarétt því að yfir þessar girðingar er þegnunum ekki ætlað að klöngrast til þess að ná rétti sínum til þessa lands.

Till. þessi til þál., sem flutt er hér af þm. Alþfl., er að minni hyggju virðingarverð og af hinu góða. Ég hefði gjarnan viljað að þeir hv. Alþfl.-menn, sem standa að þessari till., hefðu gefið þm. annarra flokka kost á því að verða meðflm. að henni. Ég geri enga kröfu um að þeir gefi hv. þm. Vilmundi Gylfasyni kost á því, en till. er þess eðlis að ég hefði talið eðlilegt að gerð hefði verið tilraun til að ná samstöðu á milli þm. úr hinum ýmsu flokkum, vegna þess að hér er verið að fjalla um almannarétt til landsins og þó innan þess ramma sem lýtur að jarðeignum ríkisins.

Ég hef hugsað um það mikið síðustu 3–4 árin, með hvaða hætti Alþingi geti sótt í hendur annarra aðila fyrir hönd þjóðarinnar almannarétt sem smám saman hefur verið dreginn úr höndum fólksins á löngu árabili, á öldum. Þetta hefur verið að eiga sér stað smám saman allar götur aftur til Jónsbókar. Meginbreytingin verður þó á því tímabili þegar búseturöskunin verður í landinu og fólkið flyst á mölina. Fram að þeim tíma var málum svo háttað, enda sjá menn þess merki í löggjöfinni, að þar var um gagnkvæman rétt að ræða. Fram að þeim tíma voru svo til allir landsmenn ýmist jarðeigendur eða áhangandi jarðeigendum á annan hátt lögum samkv. Þarna var um að ræða gagnkvæman rétt. Síðan þessi búseturöskun átti sér stað og fólkið fluttist á mölina hefur almannarétturinn orðið eftir í höndum þeirra sem jarðnæði áttu eða fóru með jarðnæði hins opinbera, kirkjujarðir og ríkisjarðir, í umboði eigenda. Var svo komið í þann mund sem Jóhannes skáld úr Kötlum fluttist á mölina, að hann gerði grein fyrir því í ágætu kvæði, af því gerði hann það nú, að Fjallkonan ætti ekki eftir ferþumlung lands handa honum.

Hér er um að ræða ákaflega alvarlegt mál, — og við skulum ekki nefna bændastéttina í sambandi við þetta, — ekki síður fyrir þá, sem jarðnæði eiga þinglýst sér til handa, en fyrir jarðnæðisleysingjana á mölinni. Ef ekki næst sátt um þetta mál, sem úfar margir rísa af nú þegar og hefur þeim farið fjölgandi á liðnum árum, — ef ekki næst skynsamleg sátt, ef ekki tekst að setja skynsamlega löggjöf um þessi atriði, þá eiga jarðeigendur, og þ. á m. okkar ágætu bændur, sem ég vil ekki þrengja að á nokkurn hátt, á hættu að neytt verði atkvæðaafls fyrr eða síðar til að hrófla við þessum málum, kannske langt umfram það sem æskilegt er. Því er það, þó að ég hafi látið það dragast úr hömlu, að ég hef nú tekið þá ákvörðun að reyna að stuðla að því samstarfi við þm. annarra flokka að fjallað verði um till. til þál. fremur en lagafrv. á þá lund, að því verði beint til ríkisstj. að láta setja hér löggjöf um almannarétt, fyrst og fremst til landsins og nytja þess.

Ég verð að viðurkenna að þó að ég hafi litið hornauga til lóðaúthlutunar og girðingaframkvæmda á landareignum ríkisins í kringum Þingvallavatn hef ég ekki getað kynnt mér þessi mál nógu vel til að kveða þar mjög sterkt að orði. En svo mikið er víst, að við höfum fullkomna ástæðu til að beina þeirri ósk til réttra yfirvalda, að einmitt á því svæði verði farið af ákaflega mikilli varúð og samviskusemi með almannaréttinn og að ekki séu girtir af reitir sem helgaðir verði einhverjum einstökum þegnum landsins á þann hátt að aðrir megi ekki um þá ganga.

Ég vil svo aðeins í lokin vísa til ágætra greina og viðtala við dr. Pétur Jónasson líffræðing um lífríki Þingvallavatns og nauðsynlegar ráðstafanir til að verja það fyrir mengun, m. a. af sumarbúsetu á bökkum vatnsins og í kringum það.