09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. forsrh. mun ég hafa framsögu fyrir þessu máli. Það frv., sem hér liggur fyrir, 42. mál, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu hinn 26. ágúst 1981 0. fl., er frv. til staðfestingar á brbl. sem voru gefin út 28. ágúst s. l.

Til þess að greiða fyrir erfiðri ákvörðun um fiskverð, sem gilti frá 1. jan. á þessu ári til 31. maí, samþykkti ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstöfun til þess að gera frystideild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins kleift að standa við greiðsluskuldbindingar vegna viðmiðunarverðs 5% yfir markaðsverði. Í þessari samþykkt fólst þó ekki skuldbinding af hálfu ríkissjóðs um að leggja fram óafturkræft framlag í þessum tilgangi.

Ríkisstj. ákvað einnig að beita sér fyrir ráðstöfunum til þess að gera frystideild Verðjöfnunarsjóðs kleift að standa við greiðsluskuldbindingar vegna sumar- og haustvertíðar. Til þess að gera Verðjöfnunarsjóði unnt að standa við skuldbindingar sínar voru sett brbl. í tengslum við gengisbreytingu krónunnar 26. ágúst. Í þeim lögum var kveðið svo á að gengismun, 2.286%, skuli draga frá gjaldeyrisskilum vegna framleiðslu sjávarafurða fyrir 1. sept. 1981, sem afgreidd eru á nýju gengi krónunnar. Þessi gengismunur rann svo óskiptur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.

Þá var Verðjöfnunarsjóði veitt heimild til lántöku til þess að standa við skuldbindingar sínar, en fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs var veitt samkv. lögunum heimild til að veita slíka ábyrgð fyrir lánum að hámarki 70% af innistæðu sjóðsins. Hinn 15. október ákvað ríkisstj. með vísun til brbl. að innheimta ekki gengismun á framleiðslu frystra fiskafurða nema af hörpudiski og humar. Jafnframt ákvað ríkisstj. að endurgreiða framleiðendum framangreindra fiskafurða það fé sem þá þegar hafði verið innheimt samkv. 1. gr. brbl.

Það efni, sem ég hef flutt, felst í fjórum greinum frv. 1. gr. fjallar um gengismuninn, að þeim gengismun, sem varð til við gengisbreytinguna, verði varið til þess að bæta stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Í 2. gr. eru svo ákvæði um það að ef Seðlabankinn ákvæði að endurgreiða gengisuppfærslu á endurkeyptum afurða- og rekstrarlánum vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu hinn 26. ágúst 1981, þá skuli 29 millj. kr. þeirrar endurgreiðslu, sem kemur á afurðir sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins tekur til, renna til freðfiskdeildar sjóðsins, en afgangurinn skiptast hlutfallslega á aðrar hlutaðeigandi deildir sjóðsins. 3. gr. fjallar síðan um ríkisábyrgðina, sem ég gerði grein fyrir áður, og 4. gr. um að ríkisstj. sé heimilt að setja með reglugerð eða á annan hátt nánari fyrirmæli um framkvæmd þessara laga.

Á síðustu árum hafa ríkisstjórnir nokkrum. sinnum gripið til hliðstæðra ráðstafana til að rétta hag Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr og hv. fjh.- og viðskn., en eins og hv. alþm. er kunnugt kemur þetta frv. hér inn í deildina frá Ed.