11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

96. mál, tímabundið vörugjald

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka þau sjónarmið sem komu hér fram hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni um það, að vinnubrögð hér í þinginu eru fyrir neðan allar hellur. Ég hefði haft fulla ástæðu til að bera fram sömu ósk og hann bar fram varðandi það, að sá ráðh., sem hefur með þetta mál að gera, verði viðstaddur þær umr. sem um það fara fram. En úr því að hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur fallið frá þeirri kröfu sinni mun ég ekki gera það að máli né setja þá kröfu fram.

En það er ekki einungis að því er þetta varðar, utanfarir ráðh. og að ráðh. gefi sér ekki tíma til að vera viðstaddir umr. um þau mál sem varða þeirra málaflokka, hvað þá að mæla fyrir þeim, eins og nú er gert, heldur hefur það sannast mjög áþreifanlega síðan þessi ríkisstj. tók til starfa, að það háttalag t. d. að kjósa ráðh. í nefndir hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem við var að búast, nefnilega að ráðh. sinna ekki nefndarstörfum sínum. Ég man t. d. eftir því, að í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar voru á s. l. þingi haldnir um 60 fundir og sá ráðh., sem sæti átti í þeirri nefnd, mætti, ef ég man rétt eftir talningu, á fjórum eða fimm fundum af þessum 60.

Ég gagnrýndi það mjög þegar þetta háttalag var upp tekið og taldi ekki eðlileg vinnubrögð að ráðh. létu kjósa sig í nefndir, þeir mundu ekki geta sinnt verkefnum sínum í nefndarstörfum og mundu ekki sinna þeim. Þá voru gefnar hátíðlegar yfirlýsingar um það, að auðvitað mundu þessir ráðh. gera það og mæta á fundum. En ég tel rétt, úr því að verið er að tala hér um vinnubrögð í þinginu og þann seinagang sem kemur fram af hálfu ráðh. gagnvart þinginu, að þetta komi líka fram, sem ég gerði hér sérstaklega að umræðuefni á sínum tíma, að þessir ráðherrar mæta ekki á nefndarfundum. Hæstv. forsrh. sem hefur verið kjörinn til að mæta í þessari nefnd, fjh.- og viðskn. þessarar deildar, hefur mætt þar á innan við 10% funda.