15.12.1981
Efri deild: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

66. mál, iðnráðgjafar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um iðnráðgjafa. Það mál er komið frá hv. Nd. hingað og voru gerðar á því mjög óverulegar breytingar frá því að það var fram lagt, en þar komu fram tvær smávegis brtt. frá iðnn. Nd. við frv. eins og það var lagt fram. Liggja þær fyrir á þskj. frá iðnn. Nd.

Frv. þetta felur í sér ráðstafanir sem miða að því að efla ráðgjafarþjónustu í iðnaði landsmanna. Það tekur sérstaklega mið af þörfum landsbyggðarinnar í þessu efni um leið og það skírskotar til frumkvæðis samtaka sveitarfélaga, iðnþróunarfélaga og annarra áhugaaðila um uppbyggingu iðnaðar, ekki síst á landsbyggðinni. Heimildarákvæði frv. um stuðning ríkisins við ráðningu iðnráðgjafa taka þó einnig til höfuðborgarsvæðisins og þannig jafnt til allra landshluta eða kjördæma. Ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, má skoða sem einn þátt í þeirri stefnu ríkisstj. að bæta aðstöðu til iðnrekstrar í landinu.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að samtök sveitarfélaga eða iðnþróunarfélög, sem ákveða að ráða til sín iðnráðgjafa, geti notið til þess fjárstuðnings úr ríkissjóði. Heimild sú, sem frv. felur í sér um framlag ríkisins í þessu skyni, miðast við launakostnað við störf eins manns á starfssvæði hlutaðeigandi samtaka, þ. e. samtaka sveitarfélaga eða iðnþróunarfélags, þó þannig að umdæmi hvers iðnráðgjafa verði aldrei minna en eitt kjördæmi.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að iðnþróunarfélög, sem stofnuð yrðu, geti verið ráðningaraðilar iðnráðgjafa. Í 2. gr. frv. er kveðið á um þau skilyrði sem slík félög þyrftu að uppfylla í þessu sambandi.

Iðnráðgjöfunum er ætlað að starfa að fjölmörgum verkefnum, einkum á sviði ráðgjafar, upplýsingamiðlunar, tengsla af ýmsu tagi og fræðslu. Þeim er m. ö. o. ætlað að hafa mjög náin tengsl við tæknistofnanir. Til að tryggja þau tengsl í reynd er í 4. gr. frv. gert ráð fyrir að Iðntæknistofnun Íslands verði falið að hafa forustu um samræmingu á störfum þessara ráðgjafa.

Við undirbúning þessa frv. hefur verið leitast við að hafa sem víðtækast samráð við þá aðila sem málið einkum snertir. Þannig hefur efni frv. verið kynnt landshlutasamtökum sveitarfélaga á mótunarstigi á liðnu sumri og álit aðila, sem hafa tjáð sig um meginefni þess sem í frv. felst, hafa undantekningarlaust verið jákvæð það mér er kunnugt um.

Ég tel að sú umr., sem nú fer fram um eflingu iðnaðar í einstökum landshlutum og á landinu almennt, og undirbúningur sá, sem hafinn er að stofnun iðnþróunarfélaga, gefi ástæðu til bjartsýni að því er varðar jarðveg fyrir störf iðnráðgjafanna. Sama máli gegnir um það frumkvæði sem sveitarfélög í einstökum landshlutum hafa haft um myndun iðnþróunarsjóða.

Herra forseti. Ég vænti þess, að frv. þetta fái góðar viðtökur hér í hv. þingdeild eins og í Nd., og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. iðnn.