16.12.1981
Efri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

66. mál, iðnráðgjafar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta. Eins og hv. frsm. nefndarinnar hefur greint frá skrifa allir nefndarmenn undir nál. og mæla með samþykkt frv.

Ég verð að segja, að ég tel, eins og reyndar kom fram í máli hv. frsm., að frv. hafi tekið breytingum til bóta í Nd. og þar hafi verið mætt a. m. k. að nokkru leyti athugasemdum sem fram hafa komið í umsögnum frá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna. En ég verð að segja það, að mér hefði fundist ástæða til að breyta fleiru í þessu frv. Ég hef þó ekki gert till. um slíkt og það er vegna þess að eins og kom fram í máli hv. frsm. er þess vænst, að frv. þetta verði samþykkt sem lög áður en kemur til 3. umr. um fjárlagafrv. fyrir næsta ár, vegna þess að í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði laun iðnráðgjafa, sem frv. gerir ráð fyrir, og slíkri fjárveitingu þarf að koma fyrir í fjárlögum fyrir næsta ár. Þess vegna hef ég nælt með þessu frv. eins og aðrir. Það er og hafið yfir allan vafa, að frv. fjallar um mál sem er merkilegt í sjálfu sér og þarflegt. Mönnum kemur saman um að atvinnuuppbygging í hinum ýmsu byggðum úti á landi sé ekki síst komin undir því, að hægt sé að efla þann iðnað, sem fyrir hendi er, og byggja upp nýjan iðnað.

Það hefur komið fram í umsögnum um þetta frv., að samtök sveitarfélaganna, landshlutasamtökin, eru eindregið þeirrar skoðunar, að það beri að samþykkja þetta frv., og einnig Samband ísl. sveitarfélaga. Með tilvísun til þessa hef ég lagt til fyrir mitt leyti að frv. verði samþykkt, og við sjálfstæðismenn væntum að það fái greiða afgreiðslu.