17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt í þessum umr. á mjög ítarlegar og upplýsandi ræður h já fulltrúum stjórnarandstöðunnar, og þeir hafa rætt málin frá almennu sjónarmiði. En ég stend hér upp til þess að mæla fyrir till. sem ég ber fram á þskj. 224. Það er brtt. og hún fjallar um það, að 15. gr. frv., sem við ræðum hér, falli niður.

Það hefur verið nokkuð vikið hér að eðli lánsfjárlaga og mikilvægi þeirra. Það er eðlilegt, að það þurfi að setja slík lög. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að ríkisstj. fái heimild til lántöku í ýmsum tilfellum, og er ekkert að athuga við það form. En það er óeðlilegt þegar lánsfjárlög eru beinlínis notuð til þess að taka stefnumarkandi ákvarðanir í hinum þýðingarmestu málum sem á að gera með öðrum hætti. Ég segi þetta ekki að tilefnislausu. Ég segi þetta vegna þess að sú brtt., sem ég legg hér fram, veit að máli sem ekki er eðlilegt að sé í frv. sem hér um ræðir, og þá á ég við að 15. gr. er svo stefnumarkandi í húsnæðismálunum almennt að það er í hæsta máta óeðlilegt og óþinglegt að ætla að ráða þeim málum til lykta með ákvæðum í lánsfjárlögum, eins og hér er gert ráð fyrir. Þessi grein er ein af þeim greinum í þessu frv. sem hefjast með orðunum: „Þrátt fyrir ákvæði“ í þessum og þessum lögum skuli tekjur viðkomandi sjóða ekki fara fram úr ákveðnu hámarki. En þó að þessi sama aðferð sé höfð varðandi marga sjóði, sem frv. þetta fjallar um, er langt frá því, að eins sé ástatt um alla þessa sjóði, og þá á ég við að forminu til, að það sé eins ástatt varðandi þær takmarkanir sem frv. gerir ráð fyrir á fjármagni til þessara sjóða. Við verðum að gera greinarmun á því, hvort hér er verið að takmarka tekjur til sjóða, sem hafa markaða tekjustofna samkv. sérstökum lögum, eða hvort hér er verið að setja takmarkanir á framlög til sjóða sem eru greidd beint úr ríkissjóði og lúta ekki sérstökum lögum og eru ekki markaðir tekjustofnar.

Ef við lítum á þessar greinar sumar með hliðsjón af þessu sjáum við að t. d. í 17. gr. frv., sem lýtur að takmörkun á framlagi til Lánasjóðs sveitarfélaga, er ekki verið að skerða markaða tekjustofna til þessa sjóðs. Það er verið að skerða bein framlög úr ríkissjóði. Sama er að segja um 19. gr. frv., sem fjallar um skerðingu á tekjum Bjargráðasjóðs. Bjargráðasjóður hefur ekki markaða tekjustofna. Það er ekki ákvæði að finna um slíkt í lögum um Bjargráðasjóð. Hins vegar er gert ráð fyrir að ákveðið fjármagn sé lagt árlega til Bjargráðasjóðs úr ríkissjóði, og það er sú fjárveiting sem ætlað er að takmarka með ákvæðum 19. gr. þessa frv.

Ég nefni í þessu sambandi 20. gr. frv., sem fjallar um framlög til aðstoðar við þroskaheftra eða til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra. Þar er ekki um að ræða heldur markaðan tekjustofn sem þessi sjóður hefur, heldur er verið að takmarka það fjármagn sem á að ganga beint úr ríkissjóði til þessa sjóðs. Sama má segja um 51. gr., sem varðar Hafnabótasjóð. Og svona mætti benda á fleira.

Aftur á móti er svo ástatt um 22. gr., sem fjallar um framlag ríkissjóðs til Félagsheimilasjóðs, að þar er um að ræða markaðan tekjustofn sem er ætlaður Félagsheimilasjóði. Nú ætla ég ekki að ræða frekar um þessa grein, því að ég vænti þess, að hún verði felld niður, og ég vil lýsa stuðningi við brtt. á þskj. 228, frá ríkisstj., sem útbýtt hefur verið, en þessi brtt. er um að 22. gr. frv. falli niður. Mér þykir aðeins miður að það skuli ekki vera fleiri brtt. frá hæstv. ríkisstj. um að þessar skerðingargreinar falli niður. Að sjálfsögðu hefði verið mestur fengur í því, að brtt. hefði komið frá hæstv. ríkisstj. um að fella niður 15. gr. frv., en við því var reyndar ekki að búast að hún kæmi nú a. m. k., vegna þess að ég hef þegar borið fram brtt. um þetta efni. En ef ástæða er til að fella niður 22. gr. frv., eins og hæstv. ríkisstj. gerir till. um, þá hefði ég haldið að það væri ástæða til að fella niður 15. gr. frv. Og hver veit nema hæstv. ríkisstj. styðji þá brtt., sem ég hef lagt fram í því efni, ef hún vill vera sjálfri sér samkvæm.

Ég vík þá að 15. gr. Ég hef verið að segja, að það væri mikill munur á þeim skerðingarákvæðum, sem frv. gerir ráð fyrir, eftir því hvort um er að ræða markaða tekjustofna eða ekki. Nú er svo með 15. gr. frv., sem varðar Byggingarsjóð ríkisins, að þar er um markaðan tekjustofn að ræða, því að samkv. lögum um launaskatt á að greiða 2% launaskattsins til Byggingarsjóðs ríkisins. En sérstaða 15. gr. er miklu meiri en þessi. Hinar skerðingargreinarnar, eins og t. d. þær sem ég nefndi á nafn áðan, varða flestar mjög takmarkað svið sem hefur ekki almenna þýðingu, þó að ég vilji ekki gera lítið úr þeim sjóðum sem þar er um að ræða, heldur þvert á móti. Þeir eru hver á sinn hátt hinir þýðingarmestu. En þeir varða ekki mál sem er eitt af höfuðmálum þjóðarinnar á hverjum tíma, alls almennings í landinu, eins og húsnæðismálin eru.

Nú þarf ég ekki að fara að ræða hér um það sérstaklega eða færa rök fyrir því, að húsnæðismálin séu einn þýðingarmesti málaflokkur. Ég geri ráð fyrir að við séum öll sammála um það. Ég sé ekki heldur ástæðu til að fara að gefa hér almenna lýsingu á ástandi þessara mála í dag, þó ekki væri nema vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað á undan mér, hafa komið ítarlega inn á þau mál og ég geri ráð fyrir að við ættum öll að geta verið sammála um það, að ástand húsnæðismálanna í dag sé ekki einungis mjög alvarlegt, heldur óþolandi og stefni í fullkomið óefni. Og hvers vegna stefnir það í fullkomið óefni? Höfuðástæðan er sú, að það hefur ekki verið veitt nægilegt fjármagn til íbúðarlána. Og nú er það einmitt svo, að í staðinn fyrir að ráða bót á þessu gengur 15. gr. frv. í þá átt að skerða tekjur Byggingarsjóðs ríkisins meir en nokkru sinni fyrr.

Það verður ekki komist hjá því, þegar vikið er að húsnæðismálunum í þessu sambandi, að líta nokkuð á það, hvað hefur gerst á undanförnum árum og ég vil segja áratugum, hver stefnan hefur verið, að hverju hefur verið reynt að stefna í lánamálum húsbyggjenda. Það kerfi, sem við búum núna við, var sett á stofn árið 1955. Það er hið almenna veðlánakerfi sem við búum enn við. Sú löggjöf, sem þá var sett, var stefnumarkandi í þessum málum, og með þeirri löggjöf hófst nýtt tímabil í húsnæðismálum og byggingarmálum hér á landi. Það er enginn vafi á því, að þessi löggjöf og Byggingarsjóður ríkisins hafa skapað grundvöll fyrir því gífurlega átaki sem Íslendingar hafa gert í húsnæðismálunum frá því að þessi löggjöf var sett. En þó að væri stefnt í rétta átt var þessi löggjöf ekki fullkomin í upphafi og ekki við því að búast. En menn hafa alltaf gert sér grein fyrir hvert þeir vildu stefna í húsnæðismálunum, og það hefur lengst af, þ. e. fram til ársins 1980, stefnt markvisst í rétta átt. Það hefur ekki gætt ágreinings um það í hvaða átt ætti að stefna í þessum málum. T. d. hefur ekki gætt ágreinings hér á Alþingi fyrr en nú, fyrr en með setningu laga um Húsnæðisstofnun ríkisins 1980.

Um hvað er þessi ágreiningur? Hver var grundvallarhugsunin þegar löggjöfin um almenna veðlánakerfið var fyrst sett? Hún var sú, að það ætti að koma upp kerfi sem gæti stutt að því að almenningur í landinu gæti komið sér upp eigin húsnæði á þann veg að það væri mögulegt að standa undir því af almennum launatekjum. Nú hafa á undanförnum árum verið gerðar öðru hvoru breytingar á húsnæðislöggjöfinni, og þessar breytingar hafa fyrst og fremst snúið að því að gera mögulega framkvæmd á þessari stefnu, að almenningur í landinu geti komið sér upp eigin húsnæði af almennum launatekjum. Þetta hefur verið gert með því að auka tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins annars vegar og hins vegar að leitast við að bæta kjörin á lánunum. Það hefur verið markmiðið, að vextir geti verið sem lægstir af þessum lánum, að lánstími geti verið sem lengstur og að lánsupphæðin geti verið sem hæst og mestur hluti af byggingarkostnaði. En höfuðatriðið og það, sem hefur skapað grundvöll fyrir því, að það væri hægt að miða í þessa átt, hefur verið tekjuöflun íbúðalánakerfisins. Þess vegna hefur það verið jafnan meginatriðið, þegar löggjöfin hefur verið endurskoðuð, og hefur verið skotið fótum undir kerfið með því að útvega Byggingarsjóði ríkisins nýja og aukna tekjustofna. Þýðingarmesta aðgerðin í því efni er launaskatturinn.

Það var mikil samstaða um þetta, og launaskatturinn sem tekjustofn fyrir almenna veðlánakerfið kom samkv. samkomulagi, beinu samkomulagi, sem var gert að tilhlutan þáverandi ríkisstj. við lausn vinnudeilu milli aðila vinnumarkaðarins. Það var þá litið svo á, að það væri forsenda fyrir samningum sem þá voru gerðir, að Byggingarsjóði ríkisins yrðu tryggðar stórauknar tekjur með launaskattinum til þess að gera almenningi, verkalýðnum og öðru launafólki í þessu landi, mögulegt að koma sér upp eigin húsnæði af almennum launatekjum.

Ég sagði áðan að það hefði miðað jafnan í rétta átt í húsnæðismálunum við hverja endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar sem fram hefði farið frá því að hún var fyrst sett árið 1955. En frá þessu verður svo það frávik í tíð núv. ríkisstj., að það er ekki einungis að við höfum verið stöðvaðir á framfarabraut í þessu efni, heldur hefur verið rifið niður það sem byggt hefur verið upp. Það gerðist margt alvarlegt við endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar 1980. Ég skal aðeins víkja að því.

Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1980 var tekið upp aukið verkefni fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Það voru margs konar verkefni, sem Byggingarsjóðurinn gegndi ekki áður, sem þá voru tekin upp í húsnæðislöggjöfina. Ég nefni sem dæmi að lögin gera nú ráð fyrir sérstökum lánum til tækninýjunga í byggingariðnaði. Þau gera ráð fyrir láni til orkusparandi breytinga á húsnæði. Þau gera ráð fyrir lánum til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar eldra húsnæðis. Sumar þessar heimildir voru áður, en þær eru miklu víðtækari. Og það má telja upp fleira. Nú geta allir verið sammála um það, að það sé mjög gagnlegt og þarflegt að sinna þessum verkefnum. Sjálfur hef ég lagt áherslu á að þetta þurfi að gera. En að gera þetta með þeim hætti, sem gert var með löggjöfinni frá 1980, er alger óhæfa. Vegna hvers? Það er vegna þess að það voru engar ráðstafanir gerðar til þess að auka tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins til þess að mæta þessum auknu útgjöldum. Og hvað voru þessi útgjöld metin hátt?

Árið 1979 var gert ráð fyrir að aukafjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins vegna aukinna verkefna næmi þá 10 milljörðum kr. En það var ekkert gert til að útvega sjóðnum nýtt fjármagn til að mæta þessum þörfum. En það var ekki nóg með þetta. Það, sem var brýnasta viðfangsefnið við endurskoðun húsnæðislaganna 1980, enn þá brýnna en að taka upp þessi þörfu verkefni sem ég taldi hér upp, var að auka fjármagn Byggingarsjóðs ríkisins til þess að hann gæti sinnt betur þeim verkefnum sem hann hafði áður. Af hverju var það? Það var vegna þess að á undanförnum áratug var sjóðurinn alltaf að verða verr og verr fær um að gegna sínu hlutverki. Í hverju kom þetta fram? Það kom fram í því, að hin almennu lán Byggingarsjóðs ríkisins voru stöðugt að lækka, við vorum á stöðugri vegferð frá því takmarki að sjóðurinn gegndi sem best því hlutverki að gera almenningi í landinu kleift að koma sér upp eigin húsnæði.

Lengi framan af vorum við á réttri leið í þessu efni. Þegar hin almenna löggjöf um húsnæðismálin var sett upphaflega munu lánin hafa numið um 20% af byggingarkostnaði íbúða. En við sóttum fram með þeim árangri, að 1971, í lok viðreisnartímabilsins, eru lánin komin upp í 45% af byggingarkostnaði. En síðan hefur sigið á ógæfuhliðina og nú er svo komið að lánin nema ekki 45%, þau nema ekki 40% og þau nema ekki 30% af byggingarkostnaði og fara stöðugt minnkandi.

Á sama tíma og þetta gerist og ástand húsnæðismálanna er eins og hér hefur verið lýst af mér og öðrum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar í þessum umr. leggur ríkisstj. til að tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins verði takmarkaðir. Í stað þess að spyrna við fótum gegn þessari óhugnanlegu þróun á að halda áfram á sömu braut og svipta Byggingarsjóð ríkisins langþýðingarmesta tekjustofninum. Nú veit ég hvað stjórnarherrarnir segja þegar bent er á þessar staðreyndir. Þá segja þeir alltaf: Við ætlum að beina fjármagni frá lífeyrissjóðunum til Byggingarsjóðs ríkisins í staðinn. Því hefur nokkuð verið lýst hér í umr. áður, hvernig það hefur gengið, og það hefur verið leitast við að gera þetta nú 2–3 undanfarin ár. En á þessum tíma hefur mest sigið á ógæfuhlið. Á þessum tíma hafa möguleikar Byggingarsjóðsins verið minni en nokkru sinni fyrr og alltaf minnkandi. Og það eru engar horfur á því, að þetta mál verði leyst með þessum aðgerðum einum. Auk þess er þess að geta, að ekki er allt fengið með því þó að Byggingarsjóður ríkisins fengi ráðstöfunarfé frá lífeyrissjóðunum þegar litið er á það, að þau lán, sem Byggingarsjóður ríkisins þarf að taka frá lífeyrissjóðunum, eru með 3.25% vöxtum og lánin tekin til 15 ára, en samkv. lögum verður Byggingarsjóðurinn að veita sín lán með 2% vöxtum til 25 ára. Sjá allir, sem vilja sjá, til hvers þetta leiðir. M. ö. o.: þó að þessi fjáröflunarleið sé alls ófullnægjandi með tilliti til þarfa húsbyggjenda er með henni verið að eyðileggja Byggingarsjóð ríkisins, grafa undan fjárhagslegri stöðu hans þannig að hann verður allsendis ófær að gera nokkurt gagn í framtíðinni borið saman við það sem verið hefur.

Þegar þetta allt er haft í huga má heita furðulegt að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að leggja til það sem 15. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir: að svipta Byggingarsjóð ríkisins algerlega launaskattinum. En til þess að bæta gráu ofan á svart fer hæstv. ríkisstj. þá óeðlilegu leið, eins og ég vék að í upphafi orða minna hér, að leggja þetta til í frv. til lánsfjárlaga, gera till. í máli sem er mjög stefnumarkandi fyrir húsnæðismálin í heild. Ef ríkisstj. hefur þá stefnu að veikja Byggingarsjóð ríkisins, eins og fram hefur komið í verki hjá hæstv. ríkisstj., á hún að fara eðlilegar og þinglegar leiðir í því efni. Hver er sú leið eða leiðir? Það er augljóst: að gera tillögu um að þeim lögum, sem nú gilda um launaskatt ríkisins, verði breytt. En ríkisstj. hefur ekki gert þetta. Ég átti orðaskipti á síðasta ári við hæstv. fjmrh. um þetta efni, bæði við 2. og 3. umr. fjárl. fyrir árið 1981. Hæstv. ráðh. viðurkenndi í þeim orðaskiptum að auðvitað ætti að breyta lögum um launaskatt. Ég skildi hæstv. ráðh. þá þannig, að ef þessari stefnu yrði haldið áfram: að svipta Byggingarsjóð ríkisins launaskattinum, þá mundi ríkisstj. gera till. um að breyta lögunum um launaskatt.

Í umr. hér í hv. deild við 1. umr. um þetta frv. vék ég enn að þessu atriði, og það var ekki hægt að skilja hæstv. fjmrh. á annan veg en að hann teldi óeðlilegt að gera þessa breytingu á ráðstöfun launaskattsins með lánsfjárlögum, það væri eðlilegt að gera það með breytingu á lögum um launaskatt. Hann segir þetta hvenær sem minnst er á þessi mál. En hann gerir það ekki. Það verður að ætla að hæstv. fjmrh. meini ekki nokkurn skapaðan hlut með því sem hann er að segja í þessu efni. Það er tvennt til: Að annaðhvort vilji hæstv. ráðh. ekki breyta lögum um launaskatt vegna þess að hann geri ráð fyrir að það geti komið að því, kannske á næsta ári, að lögin verði látin gilda í þessu efni varðandi Byggingarsjóð ríkisins, og því sé ekki rétt að breyta þeim. Ég verð að segja, að þó ég vildi gjarnan trúa þessari skýringu á ég erfitt með að gera það. Hin skýringin er sú, að hæstv. ráðh. veigri sér við og vilji ekki gera formlega breytingu á lögum um launaskatt, sem eru til komin upphaflega í samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Launaskattur var þess vegna í upphafi lagður á til stuðnings við húsbyggjendur, almenning í landinu. Hæstv. ráðh. veigrar sér við að ganga beint til verks og rifta þessu formlega með því að breyta lögunum. Hann kýs þá leið að leggja á launaskattinn — ekki til að efla Byggingarsjóð ríkisins, ekki til að styðja almenning í landinu til að koma sér upp eigin húsnæði, heldur til fjáröflunar fyrir ríkissjóð. Það er þetta sem er að ske. En það er furðulegt, að þó að hæstv. ráðh. hagi sér á þennan veg og skirrist ekki við að afla ríkissjóði tekna á fölskum forsendum og með þeim afleiðingum sem hér hefur verið bent á, þá skuli hann hafa fylgi stjórnarþingmanna til að vinna þetta verk, því að fátt er það sem hv. þm. verða meira varir við af erfiðleikum almennings í landinu heldur en einmitt það, hvílíkar óskapabyrðar og örðugleikar hvíla á þeim sem þurfa að standa í byggingu eigin húsnæðis. En það er rétt að reyna það til þrautar, hvort hv. stjórnarstuðningsmönnum er alls varnað í þessu efni. Þess vegna er þessi till. borin fram. Hún er borin fram í trausti þess, að þrátt fyrir allt megi vænta þess, að það geti orðið stuðningur við að fella niður skerðingu á tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins.