17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Varðandi það nál. sem tveir nm., sem skipa minni hl. iðnn. í þessu tilfelli, hafa lagt fram, þá er það rétt sem þeir segja, að í hvert skipti, sem þetta gjald hefur verið framlengt, hafa komið fram yfirlýsingar um að leysa eigi fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins — og nú í seinni tíð Orkubús Vestfjarða — á annan hátt. En lítið hefur orðið úr framkvæmdum. Engar breytingar hafa verið gerðar.

Við 1. umr. kom fram fsp. til iðnrh. um hvað liði tillögum um verðjöfnun á orku, eins og er gert ráð fyrir og samið var um í stjórnarsáttmálanum, en þar segir orðrétt: „Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“ Vitaskuld er lögð á það áhersla af þeim aðilum, sem stóðu að þessari ríkisstj., að jafna orkuverðið um allt land, sem er sanngirnismál, og þá auðvitað ekki síst hinn almenna heimilistaxta og sömuleiðis orkuverð til atvinnurekstrarins.

Þrátt fyrir það að ekkert af þessu hefur verið lagt fram mun ég greiða atkv. með þessu frv., eins og ég hef jafnan áður gert, en ég ítreka þessa spurningu til iðnrh.: Hvenær má búast við framlagningu frumvarps frá ríkisstj. um verðjöfnun á orku, eins og hún ákvað í sínum málefnasamningi?

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta atriði. Ég skil vel sjónarmið minni hl. iðnn., en hér er mönnum stillt upp við vegg á síðustu stundu, því að þetta frumvarp verður að hljóta afgreiðslu fyrir þann tíma sem Alþingi fer í jólafrí.