18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

1. mál, fjárlög 1982

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Halldóri Blöndal og Ólafi Þ. Þórðarsyni um heiðurslaun listamanna samkv. ákvörðun Alþingis. Í þessari brtt. kemur fram að í heiðurslaunaflokki er fjölgað um þrjá listamenn; þá Ólaf Jóhann Sigurðsson, Stefán Íslandi og Svavar Guðnason. Samkvæmt tölulegum niðurstöðum hækkar framlagið til heiðurslaunaflokksins um liðlega 100 þús. kr., sem ekki er há fjárhæð miðað við þær upphæðir sem um hefur verið rætt hér á þingi undanfarna daga.

Mér er fullljóst að það er alltaf viðkvæmnismál þegar meta skal hverjir skuli skipa heiðurslaunaflokk listamanna. Þeir eru margir sem ugglaust gætu borið fram tillögur um menn sem sæti gætu átt í þessum hópi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að með fámennri þjóð séu þeir ekki ýkjamargir listamennirnir sem flokka má í þennan heiðurslaunaflokk. Ég hef t. d. þau þing sem ég hef setið fundið sárt til þess, að einn af okkar ágætustu listamönnum í söngvarastétt, Stefán Íslandi, skuli ekki hafa fyllt þennan flokk. Það finnst mér þinginu til háborinnar skammar. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur flutt ítrekað till. um að hann kæmi í þennan flokk. Hér hafa verið nefndir þrír menn og að öðrum listamönnum ólöstuðum tel ég að þeir séu þessum hópi til sóma. Ég sagði: að öðrum ólöstuðum. Það er þess vegna till. okkar flm., að við heiðurslaunahópinn bætist þrír menn.

Ég get ekki trúað því, að það sé sáluhjálparatriði hins háa Alþingis hvort í þessum hópi eru 12 eða 15 menn. Hér er um svo lága fjárhæð að ræða að um hana munar sáralítið, þetta eru 10 millj. gkr., en þessir fjármunir geta og munu vafalítið koma öllum þessum mönnum að umtalsverðum notum, auk þess sem heiðurinn er þeirra.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að alþm. sjái nú sóma sinn í því að bæta þessum þremur mönnum í heiðurslaunaflokkinn. Mér er ómögulegt að sjá að það geti breytt nokkru hvort þessir menn eru 12 eða 15. Ég vil þess vegna leggja hart að hv. alþm., þegar að því kemur að greiða atkv. um brtt. við 3. umr. fjárlaga, að þeir styðji þetta mál. Þetta mál skiptir þingið sáralitlu og nánast engu peningalega, en þá skiptir það miklu og það skiptir líka þjóðina talsverðu að geta fjölgað í þessum flokki. Það er þinginu til sóma. Það væri hins vegar þinginu til vansæmdar að fella þessa brtt.