20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

94. mál, þingsköp Alþingis

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir það, að auðvitað er til bóta að fá fram tillögur og hugmyndir um hversu störfum Alþingis verði best fyrir komið og hvernig staða Alþingis í rauninni sé. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka ekki aðeins til umr. það frv., sem hér liggur fyrir, heldur störf Alþingis yfirleitt, störf nefnda Alþingis, gera nefndir þingsins áhrifaríkari og íhuga hver sé staða löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu í heild.

Ég held að það sé enginn vafi á því, að áhrif Alþingis hafa farið þverrandi á undanförnum árum, og mér sýnist sú þróun vera óheillaþróun og síst til hagsbóta fyrir land og þjóð, ef komast má svo að orði. Vinnubrögð Alþingis, vinnubrögð ríkisstj., vinnubrögð stjórnmálamanna hvers við annan, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, eru með nokkuð sérstökum hætti og ekki batnandi, eftir því sem ég veit best.

Ég get raunar talað líka um ýmsar ríkisstofnanir sem eiga að þjóna til jafns Alþingi og ríkisstj. Reynsla mín hefur verið sú, að mjög skortir á að alþm. njóti almennt þeirrar fyrirgreiðslu sem staða þeirra á að útheimta fyrir þá. Ég held m. ö. o. að það sé ekki aðeins hér í þingsalnum sem nauðsynlegt sé að hugleiða stöðu alþm., heldur líka utan þingsalarins. Hvernig er búið að nefndum þingsins? Hafa þær skilyrði til starfa? Má í því sambandi benda á m. a. að lagasafn er ekki til í því húsi þar sem fundir nefnda Alþingis fara fram. Hér er enginn maður til ráðuneytis um það, hvað séu gildandi lög í sambandi við frv. eða til breytinga á lögum sem fyrir þingið koma. Og annað er eftir því.

Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir það frumkvæði, sem hann hefur átt að því að málefni Alþingis séu rædd og íhuguð, og beini því til þeirrar nefndar, sem tekur þetta frv. til meðferðar, að íhuga ekki aðeins þá þætti, sem hér er fjallað um, heldur ræða málið í víðara samhengi og athuga hvort ekki sé bráðnauðsynlegt að alþm. gefi sér tíma til að íhuga stöðu sjálfra sín, stöðu þjóðþingsins og íhuga hvernig á því standi að ekki hefur í rauninni náðst meiri árangur en raun ber vitni af þeim störfum sem hér eru unnin.