27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

168. mál, dýralæknar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. skuli vera komið hér til umr. Eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni var stefnt að því að ný lög um dýralækna tækju gildi það snemma að hægt væri að taka tillit til þeirra breytinga í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982.

Nefndin, sem að þessu vann, mun hafa tekið lengri tíma til verksins en reiknað var með. Vonast ég til þess, að hægt verði að flýta afgreiðslu málsins eftir því sem kostur er. Hins vegar er nú sýnilegt að frv. verður að senda ýmsum til umsagnar. Hér hafa komið ábendingar í sambandi við Vestfirði, Skagafjörð og Þingeyjarsýslur.

Þegar þetta mál var hér til umr. á síðasta þingi kom fram að skoðanir voru skiptar um það, hvernig þessi skipti ættu að vera. Það kom t. d. fram í sambandi við Hálshrepp og líka í sambandi við Öxarfjarðarhrepp. Hálshreppur hefur t. d. beint símasamband við Akureyri, Öxarfjarðarhreppur hefur beint símásamband við Húsavík. Til Húsavíkur er miklu skemmri leið úr Öxarfjarðarhreppi en til Þórshafnar. Það munar miklu. En það verður líka að vera eftir ósk heimamanna hvernig þessi skipti verða.

Það, sem vakir t. d. fyrir yfirdýralækni — ég hef rætt þessi mál við hann, er að dýralæknarnir séu þannig staðsettir að ferðakostnaður sé sem minnstur. Þar af leiðandi var hann að minnast á að annaðhvort á Breiðumýri eða að Stórutjörnum yrði búseta fyrir þann dýralækni sem þjónaði vestara umdæminu. Hitt er spurning þegar á allt er litið, hvort ekki er samt hagkvæmara — þó að þeir þurfi að fara lengri vegalengdir — að báðir læknarnir séu á Húsavík. En þetta álít ég að heimamenn verði fyrst og fremst að gera út um. Ef annar dýralæknirinn sæti á Stórutjörnum geri ég ráð fyrir að það væri nokkurn veginn einsýnt að Hálshreppur fylgdi því umdæmi. Hins vegar skiptir engu máli hvort hann er á Breiðumýri eða Húsavík og þá tel ég að landfræðilega og alla vega væri eðlilegra að þetta væri óbreytt eins og það er. En þetta vil ég líka að heimamenn hafi eitthvað um að segja. Þegar farið er að athuga þessi mál er það nú svo, að það sýnist sitt hverjum. Ég hef t. d. hitt þá menn úr Hálshreppi sem vilja breytingu, en líka marga sem vilja enga breytingu í þessu efni. Mér er því alls ekki ljóst hvar meiri hlutinn stendur.

Ég vil svo bara segja það, að það er sjálfsagt mál að reyna að flýta þessu eftir því sem kostur er. En ég vil líka benda á að það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að flýta þessu mjög mikið og fá um það umsagnir, því að við höfum reynslu fyrir því, að það eru ekki allir fljótir til svara, því miður. En það mun ekki standa á landbn. að reyna að flýta þessu máli.