28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

354. mál, efnahagsmál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég mun ekki eyða orðum á fádæma málefnasnauðan málflutning Friðriks Sophussonar áðan. Sumt orðbragð þessa unga manns hæfir betur götustrák en varaformanni Sjálfstfl. Ég skal hins vegar svara þeirri spurningu sem hann beindi til mín um hagkvæmari fjárfestingu. Hún er satt að segja á hverju leiti. M. a. hefur sjútvrn. í nokkur ár stuðlað að því, að fiskvinnslan kannaði betur en gert hefur verið að bæta nýtingu sem er víða mjög ábótavant. Við veittum t. d. á síðasta ári nokkra styrki til þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem það vildu gera. Þarna er mjög mikið að vinna og þannig gæti ég nefnt fjölmörg dæmi í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem stórlega mundu auka verðmæti þess afla sem á land berst.

Ég vil þakka Kjartani Jóhannssyni fyrir lýsingu hans á stefnu Alþfl. í efnahagsmálum. Hins vegar væri ákaflega fróðlegt að láta reikna hana út í Þjóðhagsstofnun. Ég vildi t. d. gjarnan fá að athuga hvaða áhrif enn hærri vextir, enn meiri fjármagnskostnaður mundi hafa á íslenskt atvinnulíf. Ég vil jafnframt benda Kjartani Jóhannssyni á það, að þegar hann talaði um að ráðherrarnir rifust, þá fór hann áravillt. Fyrir 2–3 árum var það nokkuð títt í þeirri ríkisstj. sem hann sat í, og átti hann mjög virkan þátt í deilum sem urðu þeirri ríkisstj. að fjörtjóni.

Ég vil fremur snúa mér að þeirri efnahagsáætlun, sem ríkisstj. hefur lagt fram, og gera grein fyrir sjónarmiðum okkar framsóknarmanna í því sambandi.

Þessi efnahagsáætlun er upphaf annars áfanga í niðurtalningu verðbólgunnar. Fyrsti áfangi hófst í byrjun síðasta árs og einkenndist öðru fremur af því, að dregið var úr verðbótum um 7% 1. mars, að sjálfsögðu með samsvarandi skerðingu á verði búvöru og á fiskverði. Jafnframt var beitt hörðu aðhaldi á öllum sviðum sem áhrif hafa á verðbólguna. Markmiðið var að ná verðbólgunni niður í um 40% á árinu 1981. Þetta tókst. Að mati Þjóðhagsstofnunar var verðbólgan á síðasta ári 42%. Það er ekki síður mikilvægt, að ríkisstj. tókst einnig að standa við þau önnur markmið sem hún setti sér. Góð atvinna var allt árið og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst á árinu þrátt fyrir ofangreinda skerðingu verðbóta, enda voru skattar lækkaðir í því skyni að bæta lækkun verðbótavísitölunnar.

Ýmislegt má læra af efnahagsaðgerðum s. l. árs. Þá var tekið eitt stórt skref, eins og fyrr segir, í upphafi ársins, en því ekki fylgt eftir með frekari aðgerðum síðar á árinu. Þetta varð til þess, að verðbólguhraðinn jókst að nýju með grunnkaupshækkun og ytri aðstæðum í lok ársins. Einnig er vafalaust að nokkuð hart var gengið að útflutningsatvinnuvegunum með aðhaldssamri gengisstefnu. Þá sýna tölur, svo að ekki verður um deilt, að fjármagnskostnaður hefur hækkað meira en flestallt annað. Slík atriði er nauðsynlegt að leiðrétta.

Um þessi áramót eru aðstæður um sumt svipaðar og þær voru um áramótin 1980–1981, en um annað nokkuð ólíkar. Fyrir ári var því spáð, að verðbólgan á árinu 1981 yrði um 70–80% ef ekkert væri að gert. Nú er talið að hún yrði 55% án aðgerða. Verðbólguhraðinn er því minni nú en hann var þá. Ytri aðstæður eru hins vegar erfiðari nú en þær voru fyrir ári. Kreppan, sem verið hafði í vestrænum löndum, virðist enn ætla að haldast um sinn og hefur nú teygt arma sína hingað til lands. Enn sem komið er kemur þetta fyrst og fremst fram í erfiðleikum í sölu á áli, járnblendi, kísilgúr og fleiri iðnaðarvörum. Fiskmarkaðir virðast enn viðunandi, en hættumerki eru þó sýnileg, t. d. í Bandaríkjunum, þar sem Kanadamenn eru orðnir stærri innflytjendur en við, enda er verð á þorskflökum frá Kanada um 35% lægra en okkar. Nýlega hefur alríkisstjórnin í Kanada ákveðið að veita sjávarútvegi á austurströnd landsins gífurlega nýja fjárhagsaðstoð til þess að gera honum kleift að viðhalda lágu verði á Bandaríkjamarkaði. Mun þessi aðstoð nema um 15% af verði á þeim markaði fyrir kanadískar afurðir. Þannig er hin frjálsa samkeppni í reynd.

Því verður ekki neitað, að hækkun dollarans fyrri hluta síðasta árs var að ýmsu leyti kærkomin. Slíks er ekki að vænta nú. Því er fremur spáð að dollarinn muni lækka í verði. Við þessar erfiðu aðstæður telur ríkisstj. ekki raunhæft að setja markmiðið neðar en við 35% verðbólgu á þessu ári, enda leggur ríkisstj. áherslu á viðunandi stöðu atvinnuveganna, næga atvinnu og að vernda kaupmátt ráðstöfunartekna eins og frekast er kostur.

Sá áfangi í viðureigninni við verðbólguna, sem nú er kynntur, hefst fyrst og fremst með niðurgreiðslu og lækkun vöruverðs fyrri hluta ársins. Þetta er ekki óeðlilegt þegar þess er gætt, að niðurgreiðslur eru nú hlutfallslega minni en oft áður. Þegar Friðrik Sophusson hneykslast á því, að landbúnaðarafurðir skuli greiddar niður af því að þær vega svo mikið í vísitölunni, gleymir hann að geta þess, að þetta verkar einnig öfugt. Þegar landbúnaðarafurðir hækka verka þær enn meira en annað til hækkunar á verðbótum og ekki í réttu hlutfalli við neyslu þeirra. Þetta verkar á báða vegu. Hins vegar er ljóst að þessar aðgerðir nægja ekki til þess, að verðbólgan verði um 35% á árinu. Því er jafnframt lagður grundvöllur að ýmsum aðgerðum sem áhrif munu hafa til áframhaldandi hjöðnunar verðbólgu. Af því vil ég einkum nefna tvennt.

Ákveðið er að stofna til viðræðna um endurskoðun á vísitölukerfinu. Með efnahagslögunum frá 1979 var stigið lítið en mikilvægt skref í þessa átt. Þá var ákveðið að reikna breytingu á viðskiptakjörum inn í vísitöluna þannig að 30% af breytingunni kæmu til lækkunar eða hækkunar á verðbótum, eftir því hvort viðskiptakjörin rýrna eða batna. Ég hef engan heyrt halda því fram að þetta sé óréttlátt. Hvernig geta laun hækkað hér á landi þegar kaffi hækkar í Brasilíu eða olía í Arabalöndum eins og oft hefur verið að spurt? Að mati okkar framsóknarmanna er óhjákvæmilegt að taka meira tillit til viðskiptakjara en nú er gert.

Við teljum einnig að í vísitölugrundvellinum séu ýmsir þættir sem þar eiga ekki heima. Ég nefni sérstaklega innlenda orku. Á því sviði þarf mjög mikið að vinna. Það er fyrst og fremst með skynsamlegri nýtingu innlendrar orku sem við Íslendingar munum á næstu árum auka okkar þjóðartekjur. Til þess eru miklar framkvæmdir nauðsynlegar sem ekki gefa strax arð. Útilokað er að fjármagna framkvæmdir á sviði orkumála með erlendum lánum einum. Skuldasöfnun erlendis er þegar orðin of mikil og er að verða stórhættuleg þjóðinni. Að hluta verður þjóðin að greiða fyrir þær framkvæmdir strax, m. a. með nokkurri hækkun orkuverðs. Það hefur hins vegar mikil áhrif á vísitölu og veldur þá meiri verðbólgu. Því hafa menn illu heilli horfið að því ráði að fjármagna slíkar framkvæmdir í stöðugt vaxandi mæli með erlendum lántökum.

Byggðalínurnar eru gott dæmi. Fáar framkvæmdir eru mikilvægari til þess að þjóðin fái öll notið þeirrar orku sem hún öll á. Byggðalínurnar eru nánast að öllu leyti reistar með erlendum lánum. Meira að segja eru tekin ný erlend lán til þess að greiða vexti og afborganir af eldri lánum. Ekki er talið fært að afla tekna með hækkun raforkuverðs, það eykur verðbólguna. Slíkur leikaraskapur getur ekki gengið lengur, við höfum ekki efni á því.

Sú staðreynd, að orkuverð vegur þungt í vísitölunni, stendur í vegi fyrir áframhaldandi jöfnun orkuverðs um landið. Að vísu hefur allmikið áunnist með olíustyrk, hitaveitum og byggðalínum, en langt er þó frá því að fullum eða viðunandi jöfnuði sé náð. Árið 1979 tókst að fá samkomulag um að nokkur tekjuöflun til jöfnunar á upphitunarkostnaði yrði utan vísitölu í tvö ár. Að sjálfsögðu á tekjuöflun í því skyni að jafna lífskjörin aldrei að vera í vísitölu og valda aukinni verðbólgu. E. t. v. segir einhver: Það skerðir lífskjörin að taka orkuverðið úr vísitölunni. Það er mikill misskilningur. Ekkert skerðir lífskjörin meira en verðbólgan, nema ef vera skyldi erlend lántaka sem þjóðin fær ekki staðið undir til lengdar. Þessari endurskoðun vísitölukerfisins þarf að ljúka áður en nýir kjarasamningar eru gerðir í vor, þannig að menn viti á hverju byggt er.

Við framsóknarmenn leggjum jafnframt mikla áherslu á trausta atvinnuvegi. Þeir eru ætíð í mikilli hættu í mikilli verðbólgu. Ef verðlag hækkar ekki erlendis eins og kostnaður hér innanlands, sem það getir aldrei á meðan verðbólga er langtum meiri hér en í viðskiptalöndum okkar, þola atvinnuvegirnir ekki hækkun launa og verðlags án gengislækkunar. Það eykur hins vegar verðbólguna og eyðir öllu því sem menn telja sig hafa unnið með hækkun verðbóta, hækkun búvöruverðs eða fiskverðs. Því er nauðsynlegt að draga úr gengislækkunum. Það verður helst gert með því að draga úr kostnaði útflutningsatvinnuveganna.

Eins og fram kemur í tilkynningu ríkisstj. er ákveðið að lækka stimpilgjöld úr 1% í 0,3% og launaskatt á iðnaði og fiskvinnslu úr 3.5% í 2.5%. Einnig er í athugun að samræma aðstöðugjöld og starfsskilyrði atvinnuveganna almennt. Slíkt verður að sjálfsögðu að gera með því að lækka gjöld þar sem þau eru hærri, t. d. aðstöðugjald á iðnaði til jafns við fiskvinnslu, enda vægast sagt vafasamt að íþyngja útflutningsatvinnuvegum og samkeppnisiðnaði á sama tíma og aðrar þjóðir styrkja stórlega sömu framleiðslugreinar, t. d. Norðmenn og Kanadamenn sjávarútveg sinn, eins og ég hef fyrr nefnt.

Þá er lögð áhersla á lækkun fjármagnskostnaðar, m. .a vaxta, sem þátt í lækkun verðbólgu. Í þessu skyni hefur ríkisstj. lagt á það áherslu við bankana, að dráttarvextir verði lækkaðir úr 54% í 48% á ársgrundvelli. Á þessari braut verður að halda áfram, m. a. með lækkun tolla á hvers konar fjárfestingar- og hagræðingarvörum atvinnuveganna. Hvert atriði út af fyrir sig er e. t. v. ekki stórt, en það munar um það í verðbólguslagnum.

Fiskverð hefur mjög verið til umræðu um þessi áramót eins og reyndar venja er á þeim árstíma. Þó má segja að harka hafi verið meiri nú en oft áður. Það er einkum af tveimur ástæðum. Kjarasamningar sjómanna hafa lengi verið lausir. Sjómenn lögðu á það mikla áherslu að ganga frá kjarasamningum nú og boðuðu verkfall þegar um jólin til þess að undirstrika þá kröfu. Samningar milli sjómanna og útgerðarmanna blönduðust því mjög inn í fiskverðsákvörðun. Í öðru lagi verður sú krafa sjómanna ákveðnari með ári hverju, að þeir fái sömu tekjuhækkun með ákvörðun um fiskverð og flestir aðrir landsmenn fá með verðbótum. Það er ekki ætlun mín að ræða hér almennt um fiskverðsákvörðun, heldur aðeins um síðara atriðið sem er nátengt verðbólguslagnum.

Eins og allir vita fá launþegar og tímakaupsmenn allir verðbætur í samræmi við verðbótavísitölu ársfjórðungslega. Bændur semja ársfjórðungslega um hækkun sinna tekna til samræmis við tekjur iðnaðarmanna og verkamanna. Verð á landbúnaðarafurðum er síðan hækkað til þess að tryggja bændum eins og frekast er unnt þessa tekjuaukningu. Segja má einnig að verðhækkanir á vöru og þjónustu séu ákveðnar af Verðlagsráði með tilliti til hækkunar á vísitölu, og nú eru inn- og útlán í bönkum orðin verðtryggð að mestu leyti. Það er ekki fyrr en að sjómönnum og útgerðarmönnum kemur að þetta vísitölukerfi endar. A. m. k. virðast sumir, jafnvel hörðustu stuðningsmenn þessa vafasama kerfis, telja að þá eigi allt annað við og jafnvel, að því er virðist, að unnt sé að draga mjög úr verðbólgu með lágu fiskverði. Það dæmi gengur ekki upp.

Í fyrsta lagi er rekstrargrundvöllur vinnslunnar yfirleitt brostinn í okkar miklu verðbólgu áður en til fiskverðsákvörðunar kemur. Fulltrúar vinnslunnar eru því í engri stöðu til þess að semja um fiskverð fyrr en aðgerðir ríkisvaldsins til þess að lagfæra rekstrargrundvöllinn hafa verið ákveðnar.

Í öðru lagi má segja svipað um útgerðina sem verður fyrir stöðugum skakkaföllum í verðbólgunni og hefur í fátt annað að sækja til að rétta hlut sinn en hækkun fiskverðs.

Í þriðja lagi verður því ekki haldið fram með nokkurri sanngirni, að sjómenn eigi einir eftir að sitja við allt annað borð að þessu leyti en aðrir landsmenn. Stundum heyrist að tekjur sjómanna séu þegar of miklar. Ég er ósammála þessu. Sjómenn eru mikið fjarri sínum heimilum, vinnutími þeirra er óreglulegur og vinnuskilyrði oft erfið. Þeir eiga að hafa góðar tekjur. Að vísu eru tekjur sjómanna mjög misjafnar. En svo er einnig hjá öðrum stéttum. Sá mismunur verður aldrei leiðréttur með fiskverði. Það felst í samningum um skiptakjör.

Undanfarin ár hefur verið talið réttlætanlegt að draga úr fiskverðsákvæðum með tilliti til vaxandi afla. Slík aflaaukning er ekki fram undan. Því verður krafa sjómanna um fiskverðshækkun, sem samsvarar hækkun verðbóta, ákveðnari. Ekki verður hjá því komist að taka tillit til þeirrar kröfu, t. d. við ákvörðun um bolfiskverð, sem er sá megingrundvöllur sem aðrar ákvarðanir Verðlagsráðs sjávarútvegsins byggjast á. Eins og fram kemur í tilkynningu ríkisstj. er ákveðið að taka verðmyndunarkerfi í sjávarútvegi til endurskoðunar. Með því er ekki ætlun mín að vísitölubinda fiskverð. Það er útilokað, enda um fjölmargar og mismunandi ákvarðanir að ræða í því sambandi. Hins vegar vil ég taka fram að ég tel ekki lengur hjá því komist að sjómenn fái tryggingu fyrir tekjuhækkun sem er til samræmis við það sem launþegar hafa. Það sama á einnig við um útgerðina.

Ákvörðun um fiskverð á grundvelli verðbótavísitölu er ekkert annað en viðurkenning á hringrás verðbólguskrúfunnar. Gengislækkun eða aðrar ráðstafanir vegna atvinnuveganna fylgja síðan eins og nótt fylgir degi. Staðreyndirnar ættu þá að verða öllum ljósar og opna augu manna fyrir því, að kominn er tími til að gera róttækar lagfæringar á því vísitölukerfi sem við búum við. Slíkt verður hins vegar að ganga jafnt yfir alla: launþega, bændur og sjómenn.

Eins og fram hefur komið er útlitið með loðnustofninn mjög alvarlegt. Það kemur mjög á óvart. Íslenskir og norskir vísindamenn lögðu til s. l. vor að leyfðar yrðu veiðar á samtals 700 þús. lestum af loðnu. Eftir þessu var farið. Gert var ráð fyrir að við Íslendingar veiddum rúmlega 600 þús. lestir. Við höfum nú veitt tæplega 500 þús. Heildarveiði að meðtalinni veiði við Jan Mayen og Grænland er sömuleiðis vel undir 700 þús. lestum. Ekki er hægt að fullyrða að þetta merki að loðnustofninn verði mjög lítill jafnvel í nokkur ár. Þess eru mörg dæmi, að lítill hrygningarstofn hefur getið af sér stóran árgang. Hins vegar tel ég ekki rétt að gera ráð fyrir slíku. Ekki er óhætt að taka þá áhættu. Því er ekki um annað að ræða en að draga mjög úr loðnuveiðum í ár og þar til séð er að stofninn er að ná sér að nýju. Við munum jafnframt leggja á það ríka áherslu, að veiðar við Jan Mayen og Grænland verði mjög takmarkaðar á meðan svo er ástatt.

Sá mikli samdráttur, sem er fyrirsjáanlegur á loðnuveiðum, hefur umtalsverð áhrif á þjóðartekjur okkar Íslendinga. Það hljóta allir landsmenn að bera. Afleiðingarnar eru þó mestar fyrir útgerðarmenn og sjómenn á þeim 52 skipum sem loðnuveiðar hafa stundað. Óhjákvæmilegt er að leita allra ráða til þess að bæta a. m. k. að hluta tekjumissinn. Það mun verða gert. Viðræður eru þegar hafnar. M. a. er ljóst að þessi floti hlýtur í auknum mæli að fá heimild til þorskveiða. Að vísu er engin ástæða til þess að óttast um þorskstofninn eins og stendur, en þar er þröngt setinn bekkurinn og minna verður til skiptanna. Af þessari ástæðu er áréttað í tilkynningu ríkisstj. að hert verður á reglum til þess að sporna gegn stækkun fiskiskipaflotans. Að vísu hefur slíkum reglum verið fylgt í tíð þessarar ríkisstj. með þeirri undantekningu, að samþykktur var innflutningur á fimm skipum til ákveðinna staða af atvinnuástæðum. Að öðru leyti hefur verið við það miðað, að í flotann bættust ekki skip umfram það sem tekið er úr notkun. Að vísu verða menn að gæta þess, að rúmlestatalan er ekki algildur mælikvarði í þessu sambandi. Meiri stærð felst oft t. d. ekki síst í bættu íbúðarrými áhafnar. Ég vara einnig eindregið við þeirri kröfu öfgamanna, að aðeins verði leyft að endurnýja fiskiskipaflotann um hluta af því sem úr notkun er tekið, eins og fram hefur komið og kom áðan í ræðu Kjartans Jóhannssonar. Það mundi aðeins verða til þess að lítið sem ekkert yrði tekið úr notkun. Menn mundu þá halda áfram að sækja sjóinn á úreltum skipum og kannske segja: Flýtur á meðan ekki sekkur. Ég mun ekki taka þátt í því að neyða íslenska sjómenn til þess að sækja fram á ystu landgrunnsbrún á úreltum og jafnvel hættulegum smábátum.

Þegar uppbygging togaraflotans hófst í byrjun síðasta áratugar heyrðust furðumargar úrtöluraddir, sem lögðust hart gegn slíkri fásinnu, eins og þeir sögðu. Hvar halda menn að íslenska þjóðin stæði í dag efnahagslega og hvernig væri atvinnuástandið víðast um landið ef í það stórvirki hefði ekki verið ráðist samfara uppbyggingu frystihúsanna? Það er jafnframt athugandi, sem ég heyrði útgerðarmenn á Suðurnesjum segja á fundi nýlega: Ef endurnýjun bátaflotans er stöðvuð leggst bátaútgerð niður eftir 10 ár. — Í þessu tilliti verður því að rata hinn gullna meðalveg og stuðla að skynsamlegri endurnýjun flotans án þess að sóknarþungi aukist. Við það markmið verður staðið.

Um sjávarútveg að öðru leyti er fátt annað en gott að segja. Fiskstofnar, aðrir en loðnan og karfinn, eru sterkir og vaxandi. Saltfisks- og skreiðarverkun er álitleg. Og ég vona að tekist hafi að skapa frystingunni rekstrargrundvöll. Verkefnin fram undan eru fyrst og fremst að auka þau verðmæti sem úr sjónum fást, ekki síst með auknum gæðum. Á það verður að leggja höfuðáherslu. Þá mun íslenska þjóðin um langan aldur byggja framtíð sína á öflugum og sterkum sjávarútvegi, enda verði þess gætt að fiskiskipaflotinn sé ætíð hinn fullkomnasti.

Fyrir nokkru sá ég í erlendu blaði ítarlega grein um verðbólgu í vestrænum löndum. Við Íslendingar vorum afgreiddir með rúmlega einni málsgrein, sem var nokkurn veginn þannig: Ísland er sér á báti. Þar er verðbólgan 30–40%. Engu að síður virðast atvinnuvegirnir standa vel, þjóðartekjur eru vaxandi og velmegun mikil. Þegar þeir eru orðnir ósamkeppnisfærir á erlendum mörkuðum vegna óðaverðbólgunnar heima fyrir fella þeir bara gengið og byrja upp á nýtt. — Þetta er að vísu nokkuð rétt, en blaðamaðurinn átti enga skýringu á þessu fyrirbæri. Hann þekkti ekki þær tvær meginástæður sem gert hafa okkur kleift að halda atvinnulífinu gangandi. Á fáum árum hefur sjávarafli um það bil tvöfaldast. Það ásamt mikilli vinnu og aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu hefur stóraukið þjóðartekjurnar þrátt fyrir gagnstæð áhrif verðbólgunnar. Í öðru lagi hefur á undanförnum árum gífurlega mikið fjármagn með lágum vöxtum verið flutt frá sparifjáreigendum og almenningi í fjárfestingu í atvinnulífinu og íbúðarhúsum.

Nú er þetta gjörbreytt. Sjávarafli mun ekki aukast á næstu árum og verðmæti úr sjávarafla mun því vaxa langtum hægar en verið hefur. Ódýrt fjármagn í framkvæmdir og rekstur er ekki heldur fáanlegt lengur. Af þessum einföldu ástæðum er verðbólgan orðin langtum alvarlegri vágestur í íslensku efnahagslífi nú en hún jafnvel var áður. Áframhaldandi óðaverðbólga mun fyrr eða síðar leiða til stöðvunar atvinnuveganna, vaxandi erlendrar skuldasöfnunar, atvinnuleysis og jafnvel hruns hins íslenska efnahagslífs.

Mér er ljóst að allt þetta verðbólgutal er leiðigjarnt orðið. Ég er jafnframt sannfærður um að flestir eða allir Íslendingar þekkja staðreyndirnar og eru sammála ofangreindri niðurstöðu. Það, sem hefur skort, er samstaða um nauðsynlegar aðgerðir, viljann.

Góðir Íslendingar. Mikið hefur breyst hér á landi frá síðustu aldamótum þegar þjóðskáldin hvöttu landann til dáða. Einar Benediktsson segir m. a. í Íslandsljóði sínu: „Fleytan er of smá, sá grái er utar. Hve skal lengi dorga, drengir, dáðlaus upp við sand?“ Nú eigum við sem betur fer fullkomnari skip og betri sjómenn en líklega nokkur önnur fiskveiðiþjóð. Nú er sá grái sóttur hvar sem hann er. Nú búum við ekki lengur við þá eymd sem þjóðin reif sig upp úr. En viðfangsefnin eru engu minni: að varðveita það sem áunnist hefur. Því á enn við það sem Einar segir í þessu sama ljóði: „Reistu í verki viljans merki. Vilji er allt sem þarf.“ — Góða nótt.