28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

354. mál, efnahagsmál

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Málflutningur stjórnarandstæðinga hér að framan var furðulega neikvæður. Þeir tala um efnahagsráðstafanir ríkisstj. sem gagnslausan blekkingaleik, moðsuðu eða jafnvel drullukökur og í besta falli sem algerar bráðabirgðaráðstafanir. Margir munu minnast þess, að ráðstafanir ríkisstj. fyrir rúmu ári hlutu svipaðar viðtökur. Þær voru taldar gagnslausar, ríkisstj. hjakkaði í sama verðbólgufarinu og uppgjöf hennar hlyti að vera á næsta leiti. Samt fór það svo, að þær ráðstafanir náðu tilgangi sínum. Verðbólgan hækkaði ekki um 70–80%, eins og spáð var, heldur um rúm 40%, eins og að var stefnt. Þrátt fyrir erfiðleika hjá sumum greinum atvinnuvega var atvinna næg og hagur þjóðarbúsins tiltölulega góður. Oft hefur minni árangur orðið af aðgerðum stjórnvalda.

Því skal ekki haldið fram, að þessar aðgerðir nú leysi vandamál efnahagslífsins til frambúðar, enda hefur sú ekki orðið raunin með fyrri efnahagsráðstafanir á síðari áratugum. Þær eru þó nauðsynlegur áfangi, eins og nú standa sakir, í baráttunni við að draga úr verðbólgu, treysta stöðu atvinnulífsins og tryggja hagsmuni fólksins í landinu. Á hinn bóginn er ljóst að okkur er nauðsyn að taka fastar á þegar lengra líður á árið. Sumir þættir þessara efnahagsráðstafana eiga að verka með svipuðum hætti og það sem gert var á síðasta ári. Þá var verðbótavísitala skert um 7 stig en ví sumpart skilað með því að afnema skerðingaráhrif ~lafslaga á verðbótaþátt launa. Nú gilda skerðingarákvæði Ólafslaga að nýju og lækka verðbótavísitöluna að líkum samtals um 4 stig 1. mars og 1. júní, en til viðbótar verður lækkun á framfærsluvísitölu um 3 plús 3 stig á sömu dagsetningum vegna aukinna niðurgreiðslna og tollalækkana. Þessar aðgerðir ættu því ekki í raun að hafa minni áhrif á fyrri hluta ársins en 7% skerðingin í fyrra, en taka verður tillit til þess, að ytri aðstæður þjóðarbúsins eru nú mun erfiðari en þá var.

Að undanförnu hafa aðilar að ríkisstj. nokkuð rætt hugmyndir eða tillögur um einstaka þætti efnahagsmála í blöðum og kynnt þær sem sínar tillögur. Þetta höfum við sjálfstæðismenn ekki gert. Við teljum ekki farsæla leið til samkomulags um viðkvæm málefni að setja þau á svið í fjölmiðlum. Stundum er líka erfitt fyrir hvern einstakan að eigna sér tiltekna hluti þegar þrír aðilar leggja hönd að sama verki. Þetta þýðir auðvitað ekki að við sjálfstæðismenn höfum ekki lagt fram okkar hugmyndir og okkar tillögur innan ríkisstj. Þar höfum við lagt áherslu á margvísleg atriði. Við höfum lagt áherslu á að treysta stöðu atvinnuveganna. Við teljum mikils virði að með þessum aðgerðum er dregið úr opinberum álögum á atvinnureksturinn með lækkun launaskatts og stimpilgjalda. Þær úrbætur verða væntanlega varanlegar og fyrstu skrefin af fleiri á sömu braut. Við höfum lagt áherslu á að gengi atvinnuveganna sé þegar til lengdar lætur forsendan fyrir fullri atvinnu og kaupmáttur verði því aðeins tryggður að fólkið í landinu hafi nóg að starfa. Við höfum lagt áherslu á hjöðnun verðbólgunnar í áföngum, enda stefnir ríkisstj. að því, að verðbólgan verði komin niður undir 30% í lok ársins, og í yfirlýsingu hennar felst skuldbinding allra stjórnaraðilanna um að svo verði haldið á málum að þetta takist. Við höfum lagt áherslu á að með hjaðnandi verðbólgu verði gefið aukið svigrúm og frelsi í meðferð verðlagsmála og við höfum lagt áherslu á að núverandi vísitölukerfi verði lagt til hliðar, helst á miðju ári, og tekin upp ný viðmiðun sem ekki hafi í för með sér jafnafdrifaríkan víxlgang verðlags og launa. Það gæti þó ekki síður tryggt hagsmuni láglaunafólksins.

Auðvitað erum við sjálfstæðismenn ekki einir um að leggja áherslu á þessi atriði og auðvitað hafa allir aðilar að ríkisstj. lagt hönd að hverjum þætti þessara mála, en mér þykir að gefnu tilefni ástæða til að draga þessi höfuðatriði fram sérstaklega þó af nógu öðru sé að taka. — Ég vænti að með þessum orðum hafi ég svarað fyrirspurn Friðriks Sophussonar.

Allar efnahagsráðstafanir eiga það sammerkt, að þær eru ekki eintómur gleðiboðskapur. Það er enginn vandi ef hann sést hvergi og ef hann þarf hvergi að koma niður. Þrátt fyrir þetta er það skylda ríkisstj. að leitast við að taka svo á málum að hún nái að framfylgja stefnu sinni. Þetta hefur ýmsum ríkisstj. tekist misjafnlega á liðnum áratugum. Núverandi ríkisstj. verður eins og aðrar dæmd af verkum sínum. Hún á vissulega mikið undir því líka.

Ef svo kynni að fara að markmið ríkisstj., sem kynnt hafa verið hér í kvöld, yrðu brotin niður með vopnabraki á innlendum vettvangi eru það hagsmunir þjóðarinnar sem væru fyrir borð bornir. Því er mikið í húfi að sem flestir vinni með þessum markmiðum, en ekki gegn þeim, ella taki þeir ábyrgð sem eiga. — Góða nótt.