02.02.1982
Neðri deild: 37. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

182. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að nú nýverið er rétt að byrja framleiðsla á innlendum hljómplötum, og þó að þær séu kannske einkum ætlaðar til innlendra nota er samt vafalaust einnig um hugsanlegan útflutning að ræða sem gæti átt eftir að aukast.

Það er einnig rétt hjá hv. þm., að það er nokkur tollur á innfluttum hljómplötum. Þegar hafin er innlend framleiðsla af þessu lagi kemur til álita á einhverju stigi hvort þar verði breyting á sem afleiðing af þessari innlendu framleiðslu. Hins vegar er það svo, að auðvitað verður þessi framleiðsla að komast á ákveðið stig, koma undir sig fótum áður en litið er svo á að hún sé hafin af fullum krafti og eigi að mæta fullri samkeppni frá innfluttri framleiðslu. Því getur auðvitað alltaf verið álitamál hvenær á að segja: Hér er um samkeppnisvöru að ræða og af þeirri ástæðu á að fella tollana niður.

Ég tel sjálfsagt að verða við þeirri beiðni hv. þm., að það sé kannað rækilega hvenær eðlilegt er að dregin sé ályktun af þessu breyttu aðstæðum og felldir séu niður tollar af hljómplötum sem afleiðing af samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið. Þetta er hárrétt ábending og sjálfsagt að kanna þetta nánar. En mér sýnist að við hljótum að afgreiða það mál, sem hér er til umr., án þess að blanda þessu máli þar inn í.