02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta svör hans við athugasemd minni og þó sérstaklega síðustu orð hans, að hann ætlar að knýja á um svör. Hitt fannst mér nokkuð vafasamt, þegar hann talaði um að fsp. rúmist ekki innan ákvæða 32. gr. Ég held að það hafi enginn ágreiningur verið hér í þingi um það, þó að það dragist fram yfir þá daga, sem taldir eru í 32. gr., að svara fsp. Ég hef aldrei heyrt um það. Ég er hræddur um það, ef þessi fsp. hefði verið borin upp hér í Sþ. og forseti ekki viljað samþykkja hana nema bera hana undir atkv, þingsins, að þá hefði verið erfitt fyrir þingið að neita þessari fsp. Þessar upplýsingar eiga að liggja á lausu, þær eiga að liggja frammi. Þingið og almenningur á kröfu á að fá þessar upplýsingar. Sömuleiðis hefur þetta verið gert áður hér á Alþingi, fyrir aðeins nokkrum árum. Þá þótti þetta sjálfsagt og var unnið á nokkrum tíma, en það hafðist þó.

Ég segi nú bara það, að þeim hefur þá fjölgað alveg óskaplega, utanlandsreisum manna á vegum hins opinbera, ef það á að taka meira en ársfjórðung að vinna þetta.

Hæstv. forseti segist ekki munu leggja til að ráða sértaka menn til að svara hér fyrir Alþingi. Ég er ekki að fara fram á það. En hvað segir Alþingi gagnvart atvinnurekstrinum í landinu? Það eru ákvæði um að launamiðum beri að skila fyrir ákveðinn dag, það eru ákvæði um að skila skattaframtölum á ákveðnum degi og það eru ákvæði um að skila söluskattsframtölum. Ef þetta er ekki gert er beitt refsiákvæðum, sektum í stórum stíl. Þá spyr ekki Alþingi að því, hvort þetta fólk þurfi að ráða einhverja aukamenn eða hvort fólkið, sem starfar í þessum fyrirtækjum, verði að vinna þetta í eftirvinnu og það kosti fyrirtækin aukavinnu. Þarna eru sett skýr og ákveðin ákvæði, og það sama á að gilda um Alþingi og aðra í þessu þjóðfélagi að mínum dómi.