02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

54. mál, ávana- og fíkniefni

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 57 er að finna till. til þál. um ávana- og fíkniefni. Auk þess, sem hér stendur, eru flm. hv. alþm. Alexander Stefánsson, Jón Helgason, Níels Á. Lund, Haraldur Ólafsson, Ingólfur Guðnason, Jóhann Einvarðsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Með leyfi forseta vil ég lesa tillgr.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði heildarendurskoðun á því, hvernig leitast er við af hálfu þjóðfélagsins að verjast innflutningi, tilbúningi, útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna, með árangursríkari varnaraðgerðir að markmiði.

Tillögur þar að lútandi liggi fyrir í árslok 1982.“ Það er ekki ýkjalangt síðan — eða við upphaf síðasta áratugar — að ljóst þótti að neysla fíkniefna væri orðin staðreynd hér á landi. Hér hafði knúið dyra sá vágestur sem margar þjóðir höfðu neyðst til að hýsa um árabil, fíkniefnabölið. Enda þótt ýmsum aðferðum væri beitt til þess að reka þann vágest á dyr er það staðreynd, því miður, að neysla ávana- og fíkniefna hefur aukist mjög verulega víða um lönd, ekki síst kannabisneysla, á s. l. 20 árum, en jafnframt neysla hinna sterkari efna. Bandarísk og sænsk yfirvöld hafa birt skýrslu um þróun kannabisneyslu og afleiðingar hennar á líf og heilsu manna sem eru vægt til orða tekið ömurlegar. Getið er um í hinni bandarísku skýrslu að á nokkrum árum hafi fjöldi marijúananeytenda meðal 18 ára og yngri nær tvöfaldast. Í sumum ríkjanna eru um 20–30% skólaunglinga reglulegir neytendur. Fjöldi þeirra, er reynt hafa þessi efni, hefur aukist úr 39% í 69%, en stöðugum neytendum hefur fjölgað úr 6% í 19% á árunum 1971–1979.

Lengst af hafa Bandaríkjamenn og Svíar þótt beita öðrum starfsaðferðum í baráttu gegn fíkniefnabölinu en t. d. Norðmenn og við Íslendingar, þ. e. lagt meiri áherslu á fræðslu um skaðsemi eiturlyfjaneyslunnar en ströng viðurlög gegn meðhöndlun þessara efna. Nú er svo komið að Svíar eru farnir að herða tökin og fíkniefnadómurum hefur verið gert að taka fastar á málum en áður var. Eftir því sem upplýst hefur verið byggist breytt og harðari afstaða Svía ekki síst á þeirri niðurstöðu, að neytendur hinna sterkari efna, svo sem heróíns, fjármagna þá neyslu með kannabissölu.

Eins og ég áður sagði var þessara vandamála farið að gæta hér á landi um eða upp úr 1970 þótt ekki væru þau í stórum stíl. Fljótlega þar á eftir varð til vísir að fíkniefnadeild við embætti lögreglustjórans í Reykjavík og þeir lögreglumenn, sem þar störfuðu, sinntu þessu verkefni svo að segja óskiptir. Í upphafi voru flest málin þá minni háttar ef svo má að orði komast. Einnig störfuðu löggæsluliðar á Suðurnesjum ötullega að þessum málum.

Árið 1972 kom fram tillaga frá samstarfsnefnd um fíkniefnavandamál. Aðalefni tillögunnar var að tryggja með fjármagni og aðstöðu ákveðinn lágmarksfjölda löggæslu- og tollgæslumanna, er sinnt gætu fíkniefnarannsóknum eingöngu, og að skipaður yrði sérstakur umboðsdómari er hefði með höndum rannsókn og fullnaðarafgreiðslu allra fíkniefnamála. Niðurstaðan varð sú, að árið 1973 var með löggjöf stofnað til sérdómstóls er fjalla skyldi um öll fíkniefnamál, bæði á rannsóknar- og afgreiðslustigi. Á þessum tíma var farið að brydda á smygli fíkniefna hingað til lands til dreifingar í hagnaðarskyni. Málin virtust þá þegar komin á alvarlegra stig. Fyrst og fremst var hér um að ræða hass og marijúana sem barst að meginhluta til samkv. upplýsingum yfirvalda frá eða um Kaupmannahöfn. Síðar virtist meginhluti fíkniefnanna berast frá Hollandi og stærstu sendingarnar frá Amsterdam og jafnframt frá Rotterdam. Í mörgum tilfellum er um að ræða flutning á þessum ófögnuði hingað til lands gegn umsaminni þóknun. Samkv. upplýsingum yfirvalda hefur komið í ljós við skoðun mála frá 1980 og reyndar einnig frá 1979, að enn hafi orðið róttæk breyting í sambandi við aðkomuleiðir kannabisefna og aðferðir við innflutning. Þessi tvö ár hefur orðið uppvíst um tugi ferða til og frá Kaupmannahöfn gagngert til kaupa á kannabisefnum. Slíkum varningi er leynt með ýmsum hætti, meira að segja innvortis þegar um hassolíu er að ræða. Söluverð þessa varnings hirði ég ekki að tíunda hér, það er gífurlegt.

Árin 1973–1974 var hérlendis mikil og glæfraleg notkun ofskynjunarlyfsins LSD og jafnvel blandað í áfengi, eins og upplýst hefur verið. Samkv. upplýsingum fíkniefnadómstólsins gerðu rannsóknaraðilar mikinn og mismunandi mun í aðgerðum gagnvart LSD og t. d kannabis, enda hægara að rekja slóð LSD-dreifingar þar eð tegundir af því voru nokkuð margar og ólíkar útlits. Svo virðist sem vinsældir LSD hafi dvínað jafnsnögglega og þær hófust, enda urðu fljótt uppvís nokkur hörmuleg dæmi um að ungt fólk beið varanlegt tjón á geðheilsu sinni vegna neyslu LSD.

Enda þótt neysla ópíums, morfíns og heróíns leiði af sér hrikaleg vandamál víða um lönd í ljósi vaxandi neyslu hefur neysla þessara efna sem betur fer ekki náð fótfestu hér á landi. En stóra spurningin er auðvitað þessi: Hversu lengi getum við hrósað happi að vera laus við þann eyðileggingarmátt sem fylgja mundi neyslu slíkra efna? Við skulum vona að það takist að forða þjóðinni frá slíku.

Frá 1974 til ársloka 1978 var lokið að meðaltali um það bil 160–170 málum við sakadóm vegna ávana- og fíkniefna. Árið 1979 var lokið 200 málum og þar af 19 aðilar dæmdir samkv. 16 ákærum og flestir síðast nefndu til refsivistar auk fésektar. Árið 1980 var lokið 285 málum og þar af 49 aðilar dæmdir samkv. 38 ákærum. Það mun vera svipaður fjöldi mála á nýliðnu ári. Samkv. samantekt lögreglumanna voru lögregluyfirheyrslur í þessum málaflokki 852 árið 1979 yfir 381 aðila. Þar af höfðu 226 komið við sögu áður. Árið 1980 voru lögregluyfirheyrslur 810 samtals yfir 451 aðila og höfðu 266 þar af komið við sögu áður. Líkur eru á að málafjöldi verði svipaður á þessu ári og eru raunar komnar tölur um það og upplýsingar, eins og ég gat um áðan, að svo hafi verið, eða jafnvel um 300 mál. Enda þótt þessar tölur segi e. t. v. lítið benda þær þó til að hér sé um allverulegt umfang að ræða, ef þess er jafnframt gætt, að uppvís brot og afgreidd eru í rauninni mun fleiri í ljósi þess að iðulega er lögð á aðila refsing fyrir mörg brot.

Í fljótu bragði verður ekki annað séð en kappsamlega sé unnið að þessum málum hérlendis. Úr því skal ég alls ekki draga og eiga þeir þakkir skildar sem að því starfi hafa komið með einum eða öðrum hætti. En spurningar hljóta alltaf að vakna þess efnis, hvar við erum á vegi stödd. Málafjöldi svo og magn fíkniefna, sem fundist hefur, gefur til kynna þá miklu hættu sem vofir yfir. Ekki vil ég efast um að aðrar þjóðir, sem glímt hafa við þessi vandamál um árabil, hafi talið sig á hverri tíð beita réttum tökum í þessum efnum. En hver hefur reyndin orðið með hinum sömu þjóðum? Það hefur nefnilega sigið á ógæfuhlið, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Fíkniefnaneysla hefur aukist til mikilla muna og kaup á hinum sterkari efnum fjármögnuð með sölu á kannabis, eins og t. d. í Svíþjóð. Ekki síst í ljósi þessa verðum við að gæta okkar. Þessi vandamál snúa við okkur með síbreytilegum hætti. Þess vegna hljóta baráttuaðferðir jafnan að vera endurmetnar. Við megum alls ekki ofmeta sérstöðu okkar að neinu leyti, svo sem að því er varðar fjarlægðir frá öðrum löndum eða fámenni. Hætturnar hljóta að leynast eigi að síður.

Herra forseti. Margir vilja ætla að árangur í erfiðri baráttu við ávana- og fíkniefnavandamálin sé umtalsverður, og ekki skal úr því dregið hér. Eigi að síður megum við aldrei láta af grandskoðun þessara mála og heildarsýn verður að vera tiltæk á hverri tíð. Við verðum að snúa vörn í sókn.

Síðustu misseri hefur mikið magn ávana- og fíkniefna verið tekið úr umferð sem að einhverju leyti má vafalaust rekja til árangursríks starfs þeirra sem að þessum málum vinna. Þrátt fyrir að mikið magn fíkniefna er tekið úr umferð þykir fullvíst að neytendum ávana- og fíkniefna hérlendis fari fjölgandi. Varla líður sá dagur að ekki sé getið um misferli á þessu sviði, sumpart neyslu, sumpart innflutning eða hvort tveggja.

Það er mjög brýnt að staldra við og gaumgæfa frekar en nokkru sinni hvort barátta okkar í viðureigninni við þennan vágest, fíkniefnin og skaðvænleg áhrif þeirra á íslenskt þjóðfélag, sé á réttum brautum. Við þá endurskoðun og þær ráðagerðir, sem till. fjallar um, skal gæta þess, að málið fái víðtæka umfjöllun aðila frá sem flestum sviðum samfélagsins í ljósi þeirrar reynslu, sem fengin er, og viðhorfa, sem fram kunna að koma.

Ég vil svo mælast til þess, að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til allshn.