04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

345. mál, leiguskip Skipaútgerðar ríkisins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það kemur fyrir að það sem má kalla feimnismál kemur upp við ýmsar aðstæður. Það held ég að hafi gerst áðan í ræðu hv. fyrirspyrjanda. Í sambandi við fsp. um Skipaútgerð ríkisins fór hann að ræða mælingareglur, sem varða hina svokölluðu minni togara, og sagði næstum orðrétt, að þær mælingareglur hefðu verið brotnar með samþykki núv. og fyrrv. dómsmrh. og þær væru að sumu leyti til þess fallnar, að það væri hægt að láta íslenska fiskimenn vinna eins og þræla á þessum skipum, eins og við vitum að verður án vökulaga. Ég held að þarna hafi verið hreyft máli sem gaman væri að fá rætt dálítið frekar en aðeins að það sé nefnt. Þess vegna kem ég hingað upp. Ef það er staðreynd að íslensku minni togararnir eru meira og minna mældir rangt fyrst og fremst með þetta fyrir augum, þá held ég að það hljóti að vera að hv. Alþingi ætti að líta á þetta mál.

Fyrst þetta var nefnt hér taldi ég ástæðu til að koma hér upp og ýta aðeins frekar við því.