09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þar sem ég hef aðstöðu til þess í utanrmn. að fjalla nánar um þessa till. mun ég ekki tala langt mál að þessu sinni af tilefni þessarar till. um öryggismálaráðunaut sem stofnað skuli til hjá utanrrn. Ég vil þó fagna því, að þessi þáltill. hefur fengið góðar undirtektir efnislega, og geri þá ráð fyrir að unnt sé í utanrmn. að komast að samkomulagi um samþykki þáltill., er verði til þess að til slíks embættis verði stofnað.

Ég vil þó í þessari umr. taka fram að mér blöskrar málflutningur hv. 11. þm. Reykv. Þótt bæði hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh. hafi svarað honum tel ég nauðsynlegt að nokkur atriði í málflutningi hans séu tekin til meðferðar.

Það er í fyrsta lagi þegar hv. 11. þm. Reykv. heldur því fram, að það sé tæknibúnaður á Íslandi, en ekki lega landsins, sem skapi hættu á að Ísland dragist inn í átök stórvelda. Ég vil halda því fram, að það sé fyrst og fremst lega Íslands sem skapi þá hættu, að landið geti dregist inn í átök stórvelda, og skipti að því leyti ekki neinu máli um auknar líkur til þess, að Ísland dragist inn í slík átök, hvaða tæknibúnaður er hér á landi. Hitt getur skipt miklu máli, að sá tæknibúnaður sé hér á landi að það aftri stórveldum frá því að hefja styrjaldarátök. Ég er fylgjandi því, að hér sé varnarviðbúnaður, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, að varnarviðbúnaður á Íslandi þjóni þeim tilgangi sem mestu máli skiptir, að koma í veg fyrir að til styrjaldar dragi, að nokkurt stórveldi telji hagsmunum sínum betur borgið með því að hefja átök fremur en að setjast að samningaborði.

Hitt er svo annað mál, að tækniþróunin og tæknibúnaður kafbáta, skipa og flugvéla, sem ferðast hér um í nágrenni landsins, hefur orðið á þann veg að aukið hefur á hernaðarlega þýðingu legu landsins á síðustu árum og áratugum. En í þeim efnum er tæknibúnaðurinn hér á landi ekkert úrslitaatriði, nema að því leyti, að varnarviðbúnaður landsins er mikilvægur þáttur í að halda friði í þessum heimshluta.

Hv. 11. þm. Reykv. vildi halda því fram, að þessi skoðun væri skoðun höfundar ritsins um GIUK-hliðið, að tæknibúnaðurinn, en ekki lega landsins, skapaði hættu á að Ísland drægist inn í átök stórvelda. Ég verð að segja það, að ég held að hv. 11. þm. Reykv. hafi lesið þetta rit eins og sagt er að skrattinn hafi lesið Biblíuna, ef hann dregur þá ályktun sem hann vitnaði í áðan. Það er fjarri öllum sanni, heldur hitt miklu fremur undirstrikað í þessu riti, að lega Íslands er svo hernaðarlega mikilvæg, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þeirri legu fylgja óhjákvæmilegar skyldur stjórnvalda á Íslandi og Íslensku þjóðarinnar að gera viðeigandi ráðstafanir.

Þá nefndi hv. 11. þm. Reykv. að tæknibúnaður hér á landi hefði styrkt tengsl Íslands við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna. Þeir hæstv. utanrrh. og hv. 4. þm. Reykv. hafa nokkuð fjallað um þessa ásökun hv. 11. þm. Reykv. og hrakið hana. Þó er eitt athyglisvert við þennan málflutning hv. 11. þm. Reykv., og það er raunar að hann hefur horfið frá þeirri ásökun sinni, að hér á Íslandi séu kjarnorkuvopn. Hann hefur horfið frá því að vekja upp þá gömlu grýlu sem hann hefur gert ítrekað tilraunir til hér áður og notað í þeim tilgangi margra ára gamlar lummur utan úr heimi, sem íslenskir fjölmiðlar hafa því miður einnig verið of fljótir að grípa til.

Hver skyldi vera tilgangur hv. þm. með slíkum málflutningi? Ég vil tæpast trúa því, að það sé tilgangur hv. þm. að draga athygli mögulegs árásaraðila að Íslandi eða veita honum ástæðu fyrir mögulega árás á landið. Nei, ég fæ mig ekki til að trúa því, að sá sé tilgangur hv. þm. Hins vegar er slíkur málflutningur jafnvel vitnisburður um það, að hann sé a. m. k. á tímabili kaþólskari en páfinn, vegna þess að í einn tíma var það skoðun ráðamanna í Kreml að hér væru ekki kjarnorkuvopn.

Nú þegar hv. þm. hverfur í þá varnarlínu að hætta að tala um kjarnorkuvopn á Íslandi, þá fer hann að tala um tengsl Íslandsvið kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna. Í hverju eru þessi tengsl Íslands við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna fólgin að áliti hv. þm.? Þau eru ekki fólgin í öðru en þeim flugvélum, könnunarflugvélum, radarflugvélum, orrustuþotum, svokölluðu SOSUS-kerfi, sem nýtt er í eftirlitsstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ekkert af þessum tækjum er umfram önnur gædd þeim eiginleikum að nýtast í kjarnorkuhernaði. Það er unnt að nýta þau í kjarnorkuhernaði, en það er einnig unnt að nýta þessi tæki öll án þess að um kjarnorkuvopnahernað sé að ræða. Að því leyti eru þau í engu frábrugðin þeim sem áður voru hér á Keflavíkurflugvelli.

Athyglisvert er að mörg þessara nýju tækja og flugvéla hafa komið til meðan Alþb. hefur verið í ríkisstj. Alþb. ber því ábyrgð á því, að þessi tæki eru hér á landi, en hefur látið sér það lynda vegna þess að það vill verma ráðherrastólana enn um stund. Séu þessi tæki, þessar flugvélar, ástæðan fyrir tengslum Íslands við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna, þá er það ekki síst á ábyrgð Alþb. eins og annarra stjórnmálaflokka sem við völd hafa verið á þessu tímabili.

Það var og uppistaða í málflutningi hv. þm., að við sjálfstæðismenn vildum stóraukin umsvif varnarliðsins hér á landi. Við sjálfstæðismenn viljum leggja hlutlægt mat á varnarviðbúnað hér á landi með tilvísun til íslenskra hagsmuna og með tilvísun til þess höfuðtilgangs er við teljum vera fólginn í varnarviðbúnaðinum sjálfum, og það er að koma í veg fyrir að styrjöld hefjist í okkar heimshluta. Slíkt mat getur verið fólgið í því að krefjast aukins varnarviðbúnaðar. Slíkt mat getur verið fólgið í því að neita, synja varnarliðinu um aukinn varnarviðbúnað. Það fer eftir eðli málsins og horfum hverju sinni, m. a. þarf að leggja sjálfstætt mat á það, hver varnarviðbúnaður eigi að vera hér á Íslandi til að þjóna hagsmunum Íslendinga og þeim tilgangi sem varnarviðbúnaður hefur yfirleitt. Þá er nauðsynlegt að við höfum sérfræðing og raunar fleiri en einn sérfræðing — til þess að ráðleggja íslenskum stjórnvöldum og leggja sjálfstætt mat á viðhorf og hvernig við þeim skuli brugðist hverju sinni.

Það er svo að hernaðarmál og varnarmál hafa verið nokkurs konar feimnismál hér á Íslandi. Vegna þess að við Íslendingar höfum ekki haft her höfum við ekki verið mjög gefnir fyrir að ræða slík mál. En því miður búum við í þeim heimi sem krefst þess, ef við gerum okkur grein fyrir hvað til friðar okkar heyrir. Embætti slíkt sem það er hér er gerð tillaga um er auðvitað ekki einhlítt. Meira og fleira þarf til að koma. Það þarf að skapa slíkum öryggismálaráðunaut starfsskilyrði og það þarf að tengja starf hans við þá sérfræðinga sem starfa að sömu viðfangsefnum meðal bandalagsþjóða okkar. En það þarf einnig að nýta þá starfsþekkingu og reynslu sem Íslendingar í öðrum störfum í þjóðfélaginu búa yfir, eins og t. d. í löggæslu og landhelgisgæslu og hjá þeim sem starfa í tengslum við almannavarnir. Við þurfum að gera okkur þess grein, Íslendingar, að við eigum í samvinnu við aðrar þjóðir innan Atlantshafsbandalagsins að starfa saman að því að koma í veg fyrir styrjöld, eins og tekist hefur þá rúmu þrjá áratugi sem Atlantshafsbandalagið hefur starfað og við vonum að takist um alla framtíð.