09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. talaði mikið um stoðtæki, sem varnarliðið hefði hér á landi, og taldi að þau sönnuðu að við værum tengdir kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna. Stundum er talað um árásarkerfi í því sambandi. Til skamms tíma töluðu Alþb.-menn mikið um eitt af þessum stoðtækjum, Lóran C-stöðina sem er á Sandi á Snæfellsnesi, önnur á Jan Mayen o. fl. Auðvitað eru þetta mjög nákvæm siglingatæki og reyndar þau langsamlega nákvæmustu sem íslensk skip hafa yfir að ráða, öll fiskiskip okkar, að ekki sé talað um varðskipin, því að ekki væri hægt að verja landhelgina án þess að hafa þennan búnað, Lóran C-búnaðinn. Það var hamast á þessu þangað til íslenskir sjómenn voru farnir að skamma Þjóðviljann svo mikið fyrir þetta að hann hætti því.

Þetta átti að sanna að þarna væri um að ræða hluta af þeim tækjabúnaði sem tengdi okkur kjarnorkuvopnabúnaði Bandaríkjanna. Herskipin bandarísku hafa miklu fullkomnari tæki en þetta. Þau nota staðsetningakerfi sem byggist á gervitunglum. Kafbátarnir hafa mjög fullkomin tæki sem leiðbeina þeim neðansjávar þannig að þeir vita alltaf nákvæmlega hvar þeir eru.

Það er mikið talað um SOSUS-kerfið núna. SOSUS-kerfi er ekkert annað en kerfi á sama stigi og radarinn, það er fylgst með neðansjávar á sama hátt og radarinn fylgist með ofansjávar. Þeir þurfa ekki þessi tæki til þess að fylgjast með eigin skipum og ekki heldur til að stýra eigin kafbátum í hugsanlegar árásaraðgerðir. Þeir þurfa þessara tækja með til þess að fylgjast með sovéskum kafbátum eða hugsanlegum óvinakafbátum, eins og hv. 4. þm. Reykv. skýrði. Þeir hugsa sér að nota þessi tæki til að finna þessa kafbáta og granda þeim ef til styrjaldar kæmi, granda kafbátum sem ella gætu skotið kjarnorkuskeytum að skotmörkum á landi og auðvitað er þetta þá fyrst og fremst varnaraðgerð. Rússar eru með svipuð tæki hér við land líka. Við höfum fundið heilmikið af rússneskum hlustunarduflum sem gera svipað gagn og SOSUS-kerfið, en það tengir okkur ekki rússneska kjarnorkuvopnavígbúnaðinum, eða hvað, þó að þeir séu með hlustunartæki hér í kringum okkur.

Aðalatriðið er auðvitað það, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að það er fyrst og fremst lega landsins sem gerir það að skotmarki ef til átaka kemur. Væri hér enginn búnaður mundu stórveldin keppast um að ná hér aðstöðu, ekki bara í byrjun hugsanlegra kjarnorkuátaka, heldur líka ef barist væri með venjulegum vopnum. Ekki mundu átökin um landið verða minni ef það yrði kapphlaup á milli stórveldanna um að ná hér fyrst fótfestu, heldur mundu þau átök verða miklu meiri.

Aðalatriðið er auðvitað það, eins og hér hefur komið fram, að það er ekki varnarbúnaðurinn sem slíkur sem máli skiptir, heldur stuðlar búnaðurinn að því að koma í veg fyrir styrjöld. Það er ekki aðalatriðið hvort við yrðum fyrir árás í fyrstu atrennu eða annarri eða þriðju. Aðalatriðið er að koma í veg fyrir styrjöld. Okkar búnaður stuðlar að því og það er fyrst og fremst það sem gefur honum gildi.