10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins út af því sem hæstv. sjútvrh. sagði: Ég held að ég hafi getið þess áðan, að ég legði ekki sérstaklega mikið upp úr loforðum hæstv. sjútvrh. í þessu máli og þá ekkert frekar því sem síðast hefur gerst við ákvörðun fiskverðs heldur en áður. Það þarf ekki að taka neitt sérstakt fram um það að þessu sinni.

Um hitt, sem hér hefur komið upp oftar en einu sinni áður, hverju hann í raun og veru lofaði við lausn sjómannadeilunnar á Vestfjörðum á sínum tíma, þá fullyrða menn úr stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga það við mig, og ég hef enga ástæðu til að rengja það, að inn á fund Sjómannafélagsins á þeim tíma, þar sem þetta mál var til umræðu, hafi borist skeyti frá hæstv. sjútvrh. þess efnis, að hann mundi beita sér fyrir því að olíugjaldið yrði afnumið. Ég hef enga ástæðu til að rengja frekar þessa stjórnarmenn í Sjómannafélagi Ísfirðinga en hæstv. sjútvrh., nema siður væri. Hæstv. sjútvrh. hefur talað með þeim hætti í þessu máli, að það er full ástæða til að rengja hann. Kannske fer svo að hið umrædda skeyti verður að leggja á borð. Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að það verði hægt. Þá kemur hið sanna í ljós. En ég vísa því alfarið heim til föðurhúsa hæstv. sjútvrh., að hann hafi ekki gefið loforð um þetta efni varðandi lausn kjaradeilu sjómanna á Vestfjörðum 1980.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson, formaður sjútvn., lýsti því yfir við 2. umr. þessa máls, að olíugjaldið hefði fyrst verið lagt á í sjútvrh.-tíð Kjartans Jóhannssonar. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að olíugjaldið í núverandi formi var fyrst lagt á þá. En áður hafði flokksbróðir hv. þm., sem oftar gekk undir nafninu Stóri pabbi, þá sem sjútvrh., lagt á svokallað olíusjóðsgjald. Það var upphafið að þessu, þó að því hafi verið breytt í sjútvrh.-tíð Kjartans Jóhannssonar. Upphafið að þessum skatti, gjaldheimtu — eða hvað menn vilja kalla það — af sjómönnum á Lúðvík Jósepsson, fyrrv. hæstv. sjútvrh.