10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

156. mál, tollskrá

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 196 flytjum við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o. fl., ég ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni og Guðmundi G. Þórarinssyni. Þetta er í þriðja skiptið sem þetta frv. er flutt, annað skipti af þessum flm., en upphaflega var frv. flutt af mér ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Ingvari Gíslasyni og Kjartani Ólafssyni.

Tilgangur þessa frv. er að fella endanlega niður greiðslu aðflutningsgjalda, sem eru tollur, söluskattur, vörugjald og jöfnunargjald, af aðföngum — en aðföng eru hráefni, hjálparefni, rekstrarvörur, umbúðir, vélar, tæki, þar með talin flutningatæki til flutninga innan verksmiðjulóða, hlutar til véla og tækja, áhöld hvers konar og varahlutir — þeirra iðnfyrirtækja sem stunda framleiðslu til útflutnings eða eiga í beinni samkeppni við vörur og þjónustu, sem heimilt er að flytja til landsins, eða óbeinni samkeppni, þegar heimill er innflutningur sem komið getur í stað innlendrar vöru eða þjónustu samkv. almennu mati notenda viðkomandi vöru.

Í 3. gr. laganna um tollskrá er fjallað um undanþágu og lækkunarheimildir. Við gerum þá till. að 12. liður þeirrar greinar breytist lítils háttar og verði fluttur í 2. gr. sem ber yfirskriftina: „Tollfrjáls innflutningur“, og verði þar 13. tölul.

Upplýsinga um þetta mál var aflað hjá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna og eins og ég sagði áður hefur þetta mál verið til umræðu og meðferðar í þinginu áður.

Það skal tekið fram, að fyrst þegar þetta mál var flutt á hv. Alþingi tók hæstv. iðnrh. til máls og benti réttilega á að samstarfsnefnd um iðnþróun, sem hæstv. iðnrh. skipaði haustið 1978, hefði gert sams konar till. í sínum gögnum. Og í þáltill. ríkisstj. um iðnaðarstefnu hefur þessi stefnulýsing verið í þau fjögur skipti sem sú till. hefur verið flutt á Alþingi, en ekki hlotið afgreiðslu. Er það 13. tölul. á þskj. 162, till. til þál. um iðnaðarstefnu sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir fyrir nokkrum dögum í Sþ., en þar segir, með leyfi forseta: „Felld verði niður aðflutningsgjöld á aðföngum þess iðnaðar sem á í samkeppni við erlenda aðila.“

Á 100. löggjafarþinginu, þegar málið var fyrst rætt á Alþingi, var það sent til hv. fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis. Þá var formaður hennar Lúðvík Jósepsson. Gefið var út nál. sem hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. og fékk til fundar við sig ráðuneytisstjórann í fjmrn. og veitti hann ýmsar upplýsingar.

Tilgangur frv. er að fella endanlega niður greiðslu aðflutningsgjalda af aðföngum þeirra iðnfyrirtækja, sem stunda framleiðslu til útflutnings eða eiga í beinni samkeppni við vörur og þjónustu, sem heimilt er að flytja til landsins, eða óbeinni samkeppni, þegar heimill er innflutningur, sem komið getur í stað innlendrar vöru eða þjónustu, eins og segir í grg. með frv.

Nefndin er sammála um að markmiði þessu þurfi að ná.“ — Ég endurtek þetta: Nefndin er sammála um að markmiði þessu þurfi að ná. — „Efni frv. er nánast samhljóða niðurstöðu samstarfsnefndar um iðnaðarmál, en sú nefnd hefur starfað á vegum iðnrn.

Flm. frv. eru þm. úr öllum þingflokkum. Því sýnist víðtæk samstaða vera um efni frv.

Þar sem nefndinni er ljóst, að ýmsir framkvæmdaörðugleikar muni verða við framkvæmd slíks ákvæðis í lögum, eins og frumvarpsgreinin er orðuð, leggur nefndin til, að frv. verði vísað til ríkisstj., sem sjái um að frv. verði samið um þetta efni og flutt á næsta þingi, þar sem með því verði best tryggð örugg framkvæmd málsins.“

Hér lýkur tilvitnun í nál. sem er undirritað af öllum nm. í hv. fjh.- og viðskn. á 100. löggjafarþinginu, en formaður þeirrar nefndar var, eins og ég sagði áðan, Lúðvík Jósepsson þáv. alþm.

Það er rétt að það komi fram, að aldrei birtist frv. frá hæstv. ríkisstj. Hins vegar fór fram endurskoðun á auglýsingu nr. 284 frá 1978 um niðurfellingu og endurgreiðslu tolls og/eða sölugjalds af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar sem gerð var um áramótin 1980–1981. Samt sem áður komust málin ekki í það horf sem talist getur eðlilegt. Vísa ég þar til umsagnar Félags ísl. iðnrekenda, en ekki síður til skýrslu sem samin var af samstarfsnefnd um iðnþróun og ég vitnaði áður til, en hún var fskj. með þáltill. um iðnaðarstefnu. Á bls. 64 í þeirri skýrslu kemur rækilega fram að sú nefnd er sammála efni þessa frv. Má því gera ráð fyrir víðtæku samkomulagi á hv. Alþingi um að efni frv. nái fram að ganga.

Það vekur athygli og frá því er skýrt á bls. 3 í grg. með þessu frv., að þegar lögð hafa verið fram stjfrv. um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, steinullarverksmiðju og stálbræðslu er í öllum þessum frv. gert ráð fyrir að fyrirtækin fái niðurfelld aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum. Síðan er sagt að hæstv. fjmrh. setji reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Þegar ríkið á í hlut er ekki hikað við að setja í lög slíka yfirlýsingu. Að vísu er þar um heimildargrein að ræða, en mér er kunnugt um að þegar til kastanna hefur komið við þau fyrirtæki sem ríkið á í — eða á að öllu — hefur reynst örðugt að semja við fjmrn. um þessi efni. En með því frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir fortakslausu ákvæði.

Þess skal og getið, að fáist þetta frv. samþykkt verður að telja, að með því sé stigið stórt skref í átt til jöfnunar svokallaðra starfsskilyrða atvinnuveganna, en þau mál eru mjög á dagskrá um þessar mundir.

Á bls. 3 í grg. eru dæmi um núverandi skipan, annars vegar aðflutningsgjöld af flutningatækjum og hins vegar af öðrum vörum sem iðnaðurinn íslenski notar. Hér er aðeins um örfá dæmi að ræða til að sýna hve misjafnlega þessar vörur eru tollaðar og hve mishá aðflutningsgjöldin eru.

Á bls. 4 er fjallað um þátt þessa frv. í tæknivæðingu og þá um leið lækkun vöruverðs af iðnaðarvörum. Loks er lítill kafli þar sem reynt er, að vísu með mjög óljósum hætti, að meta tekjutap ríkissjóðs, sem nánast er óhugsandi eins og mál eru nú.

Þá eru fskj. birt með frv. Það eru bréf sem fóru á milli Félags ísl. iðnrekenda og fjmrn. vegna tveggja mála sem komu upp. Var annars vegar um að ræða Kassagerð Reykjavíkur og hins vegar Pólinn á Ísafirði. Þessi bréf sýna fyllilega hver er afstaða fjmrn. til niðurfellingar á aðflutningsgjöldum og hvernig tollskrárlögunum er beitt.

Herra forseti. Hér er um endurflutt mál að ræða og þess vegna óþarfi að hafa mörg fleiri orð um frv. Mér er kunnugt um það, að um þessar mundir fer fram heildarendurskoðun á tollskrárlögunum á vegum fjmrn., og að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir að þessum málum verði gerð skil við þá heildarendurskoðun. En þar sem mjög víðtæk samstaða virðist vera um þetta mál á hv. Alþingi taldi ég ástæðu til þess, að málið yrði flutt og fengi meðferð í nefnd þannig að hægt væri að koma áhrifum Alþingis til skila til fjmrn. þegar þessi endurskoðun á sér stað.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.