11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

85. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þeim Guðmundi G. Þórarinssyni og Kjartani Jóhannssyni að bera fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að gera athugun á hvort hagkvæmt sé að koma á fót fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll.“

Till. þessi hefur verið flutt á síðustu þrem þingum, en hefur ekki orðið útrædd.

Kunnugt er að ýmsar blikur hafa verið á lofti í atvinnumálum Suðurnesja nokkur undanfarin ár. Af þessum sökum hefur Alþingi tvisvar ályktað að gerð verði athugun á atvinnulífi Suðurnesja og áætlun um eflingu þess. Árið 1978 ályktaði Alþingi að fela ríkisstj. að hlutast til um að Framkvæmdastofnun ríkisins kannaði atvinnustöðu svo og félagslega aðstöðu íbúa byggðalaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Í síðari ályktuninni frá 1979 var Framkvæmdastofnun ríkisins falið að láta undirbúa og gera framkvæmda- og fjármögnunaráætlun um alhliða atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.

Atvinna á Suðurnesjum byggist að mestu á sjávarútvegi og starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Vegna slæms ástands fiskstofnanna og vannýttrar afkastagetu fiskiskipa er ekki hægt að gera ráð fyrir fjölgun sjómanna. Frystihús á Suðurnesjum eru tiltölulega mörg og lítil. Afkastageta þeirra nýtist illa vegna sveiflna í fiskveiðum og skorti á búnaði í mörgum tilvikum. Framtíðarþróun fiskvinnslunnar getur því allt eins leitt til aukinnar tæknivæðingar og hagræðingar fremur en meiri vinnuaflsnotkunar. Vegna harðnandi samkeppni í Atlantshafsflugi og samdráttar í starfsemi Flugleiða er ekki fyrirsjáanleg nein aukning í flugrekstri á Keflavíkurflugvelli. Jafnvel gæti sá samdráttur, sem verið hefur í þeirri starfsemi, haldið áfram. Af því, sem að framan segir, er ljóst að mjög lítill vöxtur, ef ekki samdráttur, er fyrirsjáanlegur í undirstöðuatvinnugreinum Suðurnesja.

Mjög stór hópur ungs fólks er nú að vaxa úr grasi á Suðurnesjum. Meðalstærð þessara aldursárganga, sem nú eru að byrja að koma inn á vinnumarkað, er 270–290 manns, en meðalstærð þeirra aldursárganga, sem hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs, er 50–70 manns. Aldrei skila allir sér inn á vinnumarkað, en varlega áætlað þurfa að bjóðast a. m. k. 150 ný störf á ári svo að allir þeir nýliðar, sem koma inn á vinnumarkað, eigi kost á atvinnu heima fyrir.

Í drögum að iðnþróunaráætlun fyrir Suðurnes, sem byggðadeild Framkvæmdastofnunar birti í nóvember 1980, er bent á að uppbygging iðnaðar sé líklega besta leiðin til aukinnar atvinnu og bættra tekna á svæðinu. Á Suðurnesjum eru mjög góðar aðstæður til iðnþróunar hvað framboð á orku og hráefnum snertir, en hins vegar vantar þar mjög tækni- og verkkunnáttu í iðnaði. Af þeim sökum er ólíklegt að iðnaður vaxi í neinum mæli nema til komi sérstakar aðgerðir í iðnþróun. Það er reynslan frá Shannon á Írlandi, að tilkoma fríiðnaðarsvæðisins þar hefur leitt til stóraukinnar tækni- og verkþekkingar í iðnaði á svæðinu, auk annars konar ávinnings. Þess vegna er vel þess virði, að athugað sé hvort einn liður í eflingu iðnaðar á Suðurnesjum gæti hugsanlega orðið stofnun fríiðnaðarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

Þegar þotur urðu algengar í Atlantshafsflugi laust fyrir 1960 féllu millilendingar til eldsneytistöku á Shannon á Írlandi að mestu niður. Hafði það í för með sér mikið atvinnuleysi í nálægum byggðarlögum. Stjórnvöld á Írlandi brugðust við þessum vanda með því að stofna sérstakt iðnþróunarfélag Shannon-flugvaltar. Meginhlutverk þess var að finna leiðir til þess að tryggja vöxt og viðgang flugvallarsvæðisins, örva farþega- og vöruflutninga um völlinn og efla atvinnulíf í byggðarlögum nálægt vellinum. Í þessu skyni kom þróunarfélagið á fót fríiðnaðarsvæði við Shannonflugvöll árið 1959. Strax í upphafi voru eftirfarandi fríðindi boðin fyrirtækjum er vildu koma þangað:

Algert tollfrelsi að því er snerti innflutning á hráefnum, vélum og tækjum til framleiðslunnar. Sama máli gegndi um útflutning fullunninnar vöru. Leiga til 25 ára á verksmiðjubyggingum sem þróunarfélagið reisti. Byggingar þessar voru annaðhvort staðlaðar byggingar eða reistar í samráði við fyrirtækið. Leigan miðaðist við byggingarkostnaðinn. Óafturkræf fjárframlög er svöruðu til helmings af kostnaðarverði véla sem kaupa þurfti fyrir hlutaðeigandi verksmiðju. Sérþjálfun verksmiðjufólks hinum erlendu fyrirtækjum að kostnaðarlausu. Algert skattfrelsi til 1983. Þetta þýddi 25 ára skattfrelsi fyrir þau fyrirtæki sem fyrst hösluðu sér völl í Shannon, en það gerðist árið 1959.

Skattfrelsi er boðið á útflutningshagnaði a. m. k. til 1990 ef starfsemi hefst fyrir 1981. Gildir þetta raunar fyrir öll útflutningsfyrirtæki á Írlandi. Fjármagnsfyrirgreiðsla hefur nú verið aukin og styrkir til rannsókna og vöruþróunar standa til boða. Þá má nefna þjónustu hvers konar við atvinnurekstur, bæði viðskiptalega og tæknilega.

Nú eru á Shannon-fríiðnaðarsvæðinu iðnaðarfyrirtæki, þjónustufyrirtæki og vöruhús sem veita um 4500 manns atvinnu og þekja um 200 þús. m2 í gólfflöt. Samtals eru þetta um 100 fyrirtæki og er mjög lítið um stórfyrirtæki þar. Framleiðslan er einkum á sviði rafeinda- og raftækjasmíði, efnaiðnaðar og verkfæragerðar.

Reynslan af fríiðnaðarsvæðinu í Shannon er mjög góð. Auk þess að hafa veitt þúsundum Íra atvinnu hefur mikil verkþekking verið flutt inn í landið. Þá hafa Írar einnig öðlast af þessari starfsemi mikla reynslu í iðnþróunaraðgerðum. Má nefna að Shannon-þróunarfélagið vinnur nú að uppbyggingu atvinnu á 4800 km2 svæði umhverfis Shannon.

Fjölmargar þjóðir, sem búa við atvinnuleysi, einkum í þróunarlöndunum, hafa fylgt fordæmi Íra og eru nú rekin nokkur hundruð fríiðnaðarsvæði í heiminum. Á öllum þessum stöðum eru mikil fríðindi í boði fyrir þau fyrirtæki sem þangað vilja koma. Mjög ólíklegt er að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir Íslendinga að keppa á almennum grundvelli við önnur fríiðnaðarsvæði í heiminum um að fá til sín erlend fyrirtæki. Á meðan atvinnuástand er jafngott og raun ber vitni á Íslandi getur varla talist hagkvæmt að bjóða erlendum fyrirtækjum sömu kjör og önnur fríiðnaðarsvæði bjóða. Hins vegar virðist full þörf á að kanna hvort einhver erlend fyrirtæki sjái sér hag í að koma hingað á lakari kjörum en annars staðar vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem í boði yrðu, svo sem jarðhiti, ódýrt rafmagn, vinnuafl með tækniþekkingu í sjávarútvegi, að mestu tollfrjáls aðgangur að Evrópumörkuðum og lega mitt á milli Ameríku og Evrópu. Ekki er vafi á að fjölmörg íslensk fyrirtæki mundu sjá sér hag í að reka starfsemi á fríiðnaðarsvæðinu. Varðandi slíkt þyrfti að kanna hvort fríiðnaðarsvæði sé hagkvæmna leið til þess að efla íslenskan útflutningsiðnað eða hvort einhverjar aðrar ráðstafanir væru jafngóðar eða betri.

Með því að setja á stofn fríiðnaðarsvæði er verið að hvetja til stofnunar atvinnurekstrar sem að öðrum kosti væri vart mögulegur — eða hagkvæmur — í landinu. Þeir, sem helst virðast munu hafa áhuga á aðstöðu og rekstri fríiðnaðarsvæðis á Keflavíkurflugvelli, eru aðilar á eftirtöldum vettvangi:

1. Japönsk og bandarísk fyrirtæki gætu séð sér hag í að reka samsetningarverksmiðju hér vegna nálægðar við Evrópumarkað og vegna þess tollfrelsis sem þau nytu gagnvart innflutningi til landa EFTA og Efnahagsbandalagsins.

2. Sérhæfð alþjóðleg fyrirtæki gætu séð sér hag í því að reka vörugeymslu á Keflavíkurflugvelli vegna hagstæðrar legu hans mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku.

3. Ekkert fríiðnaðarsvæði í heiminum, svo að vitað sé, getur boðið upp á jarðhita, en hann má nýta á ýmsa vegu í iðnaði. Einnig gæti reynst hagkvæmt að nýta hann til eldis á verðmætum krabbadýrum, t. d. humar og rækju, fiskum og e. t. v. til kjúklingaeldis í stórum stíl. Tollfrelsi á fóðri mundi e. t. v. hafa mjög hvetjandi áhrif á slíka starfsemi.

4. Einn möguleiki er enn, að kjötvinnslufyrirtæki kaupi dilkakjöt og njóti útflutningsbóta á kjötinu eins og aðrir útflytjendur. Bæði í Færeyjum og á Nýfundnalandi er markaður fyrir unnar kjötvörur sem íslensk kjötvinnslufyrirtæki gætu hugsanlega komist inn á. Ekki er þó víst að fríiðnaðarsvæði þurfi til þess að framkvæma þessa hugmynd.

5. Þá eru ýmsir möguleikar fyrir hendi í rafeindaiðnaði sem er tengdur sjávarútvegi og nýtingu annarra auðlinda á hafi úti. Ef tækniþekking er fyrir hendi má þróa upp ný tæki á þessu sviði vegna þeirrar reynslu og verkþekkingar sem fyrir hendi er í fiskvinnslu og sjómennsku.

Eins og áður er á drepið virðast framtíðarmöguleikar atvinnulífs á Suðurnesjum að mestu bundnir við iðnað. Hins vegar er lítil reynsla og tækniþekking í iðnaði fyrir hendi á svæðinu. Ekki er vafi á því, að stofnun fríiðnaðarsvæðis mundi bæta þar verulega úr auk þess sem fjölbreytni í atvinnuvali mundi aukast. Þá gæti samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisins um stofnun fríiðnaðarsvæðis síðar meir leitt til stofnunar þróunarfélags atvinnulífs á Suðurnesjum öllum.

Hugmyndin um fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli er vel þess virði að á henni verði gerð rækileg könnun, hvers konar atvinnufyrirtæki mundu hafa áhuga á starfrækslu þar, hver væri efnahagslegur ávinningur að stofnsetningu þess og hvaða rekstrar- og eignarform væri heppilegast á svæðinu. Jafnframt ber að vara við of mikilli bjartsýni á niðurstöðu slíkrar könnunar, því samkeppni á milli fríiðnaðarsvæða í heiminum er mjög hörð og oft og tíðum boðin fjármagnsaðstoð sem er langt umfram það sem kemur til greina að bjóða hér á landi.

Ég legg til að að lokinni umr. verði till. þessari vísað til hv. atvmn.