11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að láta í ljós þakklæti mitt til 1. flm. þessarar till., hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar. Að minni hyggju er hugsunin að baki þessari till. býsna góð og traust. Hér er ægilegt vandamál, sem varðar líf og dauða þessarar þjóðar, reifað á nýjan hátt og með þeim hætti, að það er ætlun mín að okkur beri að veita till. brautargengi, okkur beri að stuðla að því, að ríkisstjórn Íslands taki málið þessum tökum eða svipuðum og ráðgert er í till. og boði til ráðstefnu, fyrst og fremst þeirra þjóða sem eiga álíka hagsmuna að gæta í sambandi við lífríki Norður-Atlantshafsins og líf þjóða sinna hér á Norðausturslóðinni, til að ræða um leiðir til að stemma stigu við þeim ógnarleik sem leikinn er á þessum slóðum.

Af því að hv. þm. Árni Gunnarsson vék því til 1. flm. till., að hann ætti að kynna sér með hvaða hætti unnið var að því að friðlýsa Indlandshafið á sínum tíma, þá var það nú ekki á þann hátt, að Amerasinghe reifaði málið fyrst á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Fyrst var málið rætt ítarlega og gerðar samþykktir um það á þingi Sri Lanka, sem þá hér Ceylon. Síðan var boðað til ráðstefnu, einmitt boðað til ráðstefnu, að forgöngu Bandaranaike, frúar sem þá var forsrh. á Ceylon, með fulltrúum ríkisstjórna þeirra þjóða sem sjálfstæðar voru orðnar við Indlandshaf, og af hálfu þessara þjóða var málið síðan borið fram á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. En það er rétt hjá Árna Gunnarssyni, að aðdragandi málsins var mjög langur og þurfti býsna mikla vinnu til að fá það atfylgi, sem fyrst og fremst kom frá ríkjum þriðja heimsins, sem til þess nægði að fá þessa samþykkt gerða. Ákvörðunin um friðlýsingu Indlandshafsins var tekin án þess að tilgreindur væri neinn sérstakur aðili sem hafa skyldi eftirlit með framkvæmd hennar, þ. e. friðlýsingu Indlandshafsins. (Gripið fram í: Virða stórveldin þá friðlýsingu?) Í mjög mörgum tilfellum kemur það fram í þeim ræðum, sem þá voru haldnar í umræðum á Allsherjarþinginu, að menn töldu að það hefði geysimikla pólitíska og siðferðilega þýðingu að lýst væri yfir að heræfingar á þessu svæði og herstöðvar væru óleyfilegar. Hvað stórveldin virða, hv. þm., og hvað smáþjóðirnar, sem líf sitt eiga undir því að gerð verði ærleg tilraun til að stemma stigu við þessu vopnaskaki, það er tvennt. En það eitt er víst, að þær smáþjóðir, sem hafa ekki einu sinni dug í sér til að láta í ljós andmæli sín gegn atferli sem stefnir lífi þeirra og velferð í voða, þær smáþjóðir, sem hafa ekki döngun í sér til þess og pólitískir forustumenn þeirra andmæla því að einu sinni séu höfð uppi mótmæli, — þær þjóðir eru kannske ekki mjög vel til þess fallnar að verða langlífar á hnettinum.

Nú er mér það alveg ljóst, ég trúi því fyllilega sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan, að honum er alhugað að leitað verði ráða til að stemma stigu við þessari hættu. Það dreg ég ekki í efa og hirði ekki að tilgreina ástæðurnar sem ég byggi þá skoðun mína á. En við megum ekki drepa þessu máli á dreif með því að fara að mylja það með okkur á þessu stigi málsins sem á að koma til kasta ríkisstj., sem máli þessu yrði vísað til, og síðan til þeirra aðila, sem eiga að undirbúa ráðstefnu af þessu tagi, með hvaða hætti við komum á eftirliti, með hvaða hætti við stöndum að framkvæmd í einstökum smáatriðum. Til þeirra kasta kemur síðar. Og enn þá síður megum við á þessu stigi málsins drepa málinu svo mjög á dreif sem hv. 7. landsk. virtist vilja gera í ræðu sinni, að setja það að skilyrði fyrir ályktun, sem varðar ekki afvopnun heldur hemil á vígbúnaðinn á ákveðnu svæði á jarðkringlunni, að áður verði búið að tryggja mannréttindi í heiminum. Allra síst eigum við að setja einhver skilyrði í sambandi við þetta mál um tilhögun stjórnmála í Austur-Evrópu eða Mið-Ameríku. Það hygg ég að hv. þm. — og enn mæli ég af töluverðri þekkingu á skapferli hans — sé mér sammála um að ef við látum okkur ekki sjálfa skipta máli það sem er að gerast á þessari slóð núna, hið næsta landinu okkar, muni ekki aðrir gera það. Og ég er alveg prívat og persónulega handviss um að hann lætur sig þetta ákaflega miklu skipta. Ég held að fyrsta skrefið, sem við gætum stigið í þessa átt, væri að samþykkja þáltill., sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson mælti hér fyrir, að vísa því til ríkisstj. að taka við undirbúningi þessa máls. Með þeim hætti lætur Alþingi í ljós þá skoðun sína, að hér sé um alvörumál að ræða sem rétt sé að taka á og síðan eigi hv. alþm. að ganga á eftir því að ríkisstj. skili skýrslu um þetta mál hið allra fyrsta, um það, með hvaða hætti hún treysti sér til að fremja þá hugsun sem gerð er grein fyrir í þáltill.