16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. taldi að illa væri farið með tímann að ræða þetta mál. En hvernig þykir honum þá tíma framsóknarráðherra varið sem hafa væflast með þetta mál í þrjú ár bráðum? (Gripið fram í: Illa.) Alveg rétt. Ég þakka fyrir orðið. Hæstv. viðskrh. bar enn fyrir sig nefnd, en hv. fyrirspyrjandi hafði þó tekið fram sem var alveg hárrétt, að eftir að hið háa Alþingi hefði tekið ákvarðanir sínar gerði Alþingi ekki mikið með einhverja nefnd og álit hennar og allra síst framsóknarnefnd, þó að hún sé blönduð krötum — og ekki síður fyrir það. Hann talaði um að þál. væri ótímasett. Auðvitað er þetta orðhengilsháttur og ekkert annað. Tímamörkin, sem hann getur sett sér ef hann ætlar að verða við þessum fyrirmælum Alþingis, eru alveg að renna út. Það er alveg augljóst mál.

Ég sagði ekkert um að ég ætlaði að draga hæstv. ráðh. fyrir landsdóm. Ég sagði að þetta ráð væri til og kannske mundi hv. 5. landsk. þm. verða að bregða á það ráð. Nei, mér flaug það ekki í hug sjálfum. En að ég skyldi hverfa af vettvangi var aðeins vegna þess að mér datt ekki í hug að hæstv. ráðh. hefði þrek til að eiga meira í þessum orðræðum.