17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

202. mál, birting laga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú umr., sem fram fór utan dagskrár um birtingu brbl. og það frv. sem hér er lagt fram, er ærið sérstök og tilefnislítil. Ég vil upplýsa það hér, að um leið og ég settist á Alþingi gerðist ég áskrifandi að Stjórnartíðindum, og ég hélt satt að segja að allir þm. væru áskrifendur að Stjórnartíðindum. En það virðist vera að þm. Alþfl. hafi ekki uppgötvað það einfalda kerfi að gerast áskrifendur að Stjórnartíðindum.

Það hefur verið fullyrt í þessum umr., að þm. hafi ekki vitað um þessi brbl. Ég vil upplýsa það, að við, sem erum áskrifendur að Stjórnartíðindum, fengum þessi. brbl. flutt heim til okkar daginn eftir að þau voru sett með traustri þjónustu póstsins í landinu. Þar birtust okkur þau Stjórnartíðindi þar sem brbl. voru birt, og þau voru flutt inn á heimili okkar. Það er því alger vanræksla hjá þeim þm. sjálfum sem hafa ekki uppfyllt þá embættis- og starfsskyldu sína að tryggja sér að þeir fái Stjórnartíðindin. Það getur vel verið að þm. Alþfl. ætlist til þess, að þeir fái Stjórnartíðindi gefins, og þess vegna hafi þeir ekki tímt að gerast áskrifendur að þeim. Og það má vel vera að það sé til athugunar, að Alþingi gefi þeim Stjórnartíðindi. En hver sá þm., sem hefur tryggt það með formlegri áskrift að Stjórnartíðindum; fékk þessi brbl. með skilum. Þannig er algerlega út í hött að halda því fram, að þessum brbl. hafi verið haldið leyndum. Ég fékk þau a.m.k. send eftir því almenna póstþjónustukerfi sem notað er fyrir alla einstaklinga í þessu landi, og sama gildir um hvern og einn sem ar áskrifandi að Stjórnartíðindum.

Í þessu frv. er þess hins vegar krafist, að fréttastofurnar í landinu verði mataðar af stjórnvöldum á því, hvert sé efni brbl. Er þá ekki næsta skrefið að sett verði lög um það fyrir forgöngu Alþfl. að blöð, útvarp og sjónvarp skuli undanbragðalaust birta orðréttar tilkynningar og túlkanir ríkisstj. hverju sinni á þeim brbl. sem hún gefur út? Ég hefði talið að í samræmi við starfsemi óháðra fjölmiðla. svo að ég noti ekki svo fín orð eins og frjálsra fjölmiðla. væru það þvert á móti starfsmennirnir á fréttastofunum sem ættu sjálfir að vinna úr frumgögnunum, Stjórnartíðindunum. fréttir um efni brbl., en ekki láta sér nægja að láta mata sig á fréttatilkynningum túlkandi og skýrandi efni brbl. með þeim áhersluatriðum sem viðkomandi stjórnvöld hverju sinni vilja hafa um það efni. Mér er því til efs að það sé bót í þessum efnum að skylda stjórnvöld til að gefa út fréttatilkynningar til að auðvelda fjölmiðlunum í landinu að láta mata sig. Það vita allir sem fylgjast með starfsemi fjölmiðlanna hér í landinu, að mikill aragrúi frétta, sem hér birtast, bæði í blöðum og lesinn er í útvarp og sjónvarp, er styttar eða orðréttar fréttatilkynningar sem samdar eru af þeim aðilum sem hafa beina hagsmuni af því að fréttirnar birtist á ákveðinn hátt. Þessi fréttatilkynningavenja í íslensku þjóðfélagi er eitt af því sem rennir stoðum undir ósjálfstæði íslenskra fjölmiðla. Mér finnst afar hæpið að festa þá venju í lögum, vægast sagt. Það getur beinlínis stuðlað að því, að fjölmiðlar hér á landi verði enn frekar undirokaðir undir stjórnvöld en þeir eru nú þegar og steinar verði lagðir í þá götu að fjölmiðlarnir geti þróast til sjálfstæðara hlutverks, enda ætti það ekki að vera ofverk fjölmiðils. sem vill rísa undir nafni, að vera áskrifandi að Stjórnartíðindum og meta það sem þar birtist, eins og sérhver almennur borgari þessa lands getur gert.

Hv. þm. Eiður Guðnason getur gengið hér fram á ganginn og hringt í Stjórnartíðindi og gerst áskrifandi að þeim og fengið þau síðan heim til sín sama dag eða daginn eftir að Stjórnartíðindi eru gefin út, með brbl. og öðrum lögum. Það getur sérhver borgari í þessu landi. Það er því algerlega opið og áreiðanlegt kerfi hér í landinu um birtingu laga, bæði brbl. og annarra laga, og það kerfi var notað í þessu tilviki eins og alltaf áður.