24.02.1982
Efri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

212. mál, landgræðsla

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í tengslum við landgræðslu- og landverndaráætlun sem lögð hefur verið fyrir Alþingi og er nú til athugunar í þingnefnd. Nefnd sú, sem á síðasta ári fjallaði um gerð nýrrar landgræðsluáætlunar, lagði til að lögum um landgræðslu ríkisins, nr. 17/1965, yrði breytt eins og hér eru gerðar tillögur um. Í grg. með landgræðslutillögunni segir:

„Ein meginforsenda fyrir árangri í landgræðslu og gróðurvernd er að búfjárbeit verði innan þeirra marka sem beitarþol og ástand gróðurs leyfir.“

Samkv. lögum um Landgræðslu ríkisins er gróðureftirlit eitt af verkefnum hennar og skal unnið gegn ofnýtingu gróðurs og hvers konar skemmdum á gróðurlendi. Fram að þessu hefur ekki verið unnt að sinna gróðureftirliti né beitarstjórnun sem skyldi á vegum Landgræðslunnar og ekki verið ráðinn sérstakur fulltrúi Landgræðslunnar til að sinna þessu verki eins og gert er ráð fyrir í lögum.

Í þessu frv. er gerð till. um þær breytingar á lögum um Landgræðslu ríkisins, að í fyrsta lagi verði gróðurverndarnefndir í öllum kaupstöðum með sama hætti og þær hafa verið og eru starfandi í öllum sýslum landsins, og í öðru lagi er ákvæði þess efnis, að unnt sé af hálfu landbrn. að grípa til skjótra verndaraðgerða þar sem ástand gróðurs er með þeim hætti að mati gróðureftirlits Landgræðslu ríkisins að slíkra tímabundinna ákvarðana sé þörf. Gert er ráð fyrir að slíkar aðgerðir séu tímabundnar og standi þar til fullnægjandi aðgerðir aðrar hafa tekið við eða ítala komin til framkvæmda. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að víð slíkar ákvarðanir sé haft náið samráð ekki einungis við gróðureftirlit Landgræðslu ríkisins, heldur einnig heimaaðila á þeim svæðum sem hlut eiga að máli hverju sinni. Rétt er að vekja á því athygli, að slíkra aðgerða getur verið þörf hvort sem er í byggð eða á afréttum.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um frv. þetta í löngu máli. Ég tel, að hér sé um þörf ákvæði og nauðsynleg að ræða, og vænti þess, að frv. fái afgreiðslu á því þingi sem nú situr.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.