24.02.1982
Efri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú lokið að mæla fyrir frv. því sem hér er á dagskrá um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum, eins og það heitir. Hann var eitthvað að tala um áfanga í þessu sambandi áðan. Það var víst eitthvað annað sem hann taldi að væri 1. áfangi í efnahagsaðgerðum ríkisstj. en þetta. (Fjmrh.: Þetta er 3. áfangi.) Þetta er 3. áfangi, segir hæstv. ráðh. Kannske hæstv. ráðh. átti sig eitthvað á þessum áföngum, en það eru áreiðanlega fáir sem gera það. Hvers vegna er það, spyrja menn? Áfanga að hverju? Hvers vegna átta menn sig ekki á þessu? Það er vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur enga heildarstefnu í efnahagsmálunum. Það er sá vandi sem við höfum að glíma við. Það er engin heildarstefna í efnahagsmálunum. Þess vegna erum við í dag að ræða frv. sem hér er á dagskrá. Þess vegna er það kannske ekki alveg ljóst númer hvað hinn svokallaði áfangi er sem við erum nú að ræða.

Til að hafa heildarstefnu í efnahagsmálunum þarf auðvitað margt til að koma. Þegar við tölum um heildarstefnu í efnahagsmálunum oft og tíðum eigum við við stefnu um eitthvert raunhæft viðnám gegn verðbólgu í landinu. En það er augljóst að slík stefna er ekki fólgin í kákaðgerðum eins og hæstv. ríkisstj. hefur þráfaldlega á ferli sínum verið með og lagt fyrir Alþingi. Það þarf að vera um að ræða miklu alvarlegri viðbrögð til viðnáms gegn verðbólgu en eru fólgin í slíkum aðgerðum. Það þarf að verða viss kerfisbreyting í efnahagsmálum og ríkisfjármálunum. Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir því eða ætlast til þess, að ríkisstjórn, hver sem hún er, geri allt, sem gera þarf í þessu efni, á skömmum tíma. En höfum í huga að núv. hæstv. ríkisstj. hefur nú þegar setið hálft kjörtímabilið og mætti þess vegna ætlast til að einhver viðbrögð væru í þá átt að hægt væri að nefna það lið í heildarstefnu.

Í raun og veru er það svo, að hvort sem við litum á langtímaráðstafanir eða skammtímaráðstafanir, og um hvort tveggja hlýtur að vera að ræða, finnum við ekkert bitastætt í þeirri merkingu að það sé liður í raunhæfri heildarstefnu. Það er ekki nema eðlilegt að ríkisstj. geri ýmsar skammtímaráðstafanir. En það verður að gera þá kröfu að þær skammtímaráðstafanir geti, þegar til frambúðar er lítið, verið liður í víðtækari ráðstöfunum, svokölluðum langtímaráðstöfunum, sem fela í sér breytingar í efnahagsmálunum sem geta stuðlað að því að fjarlægja orsakir verðbólgunnar.

Ég ætla ekki á þessum tíma að fara að halda ræðu sem mundi fela í sér almenna úttekt á frammistöðu núv. hæstv. ríkisstj. í verðbólgumálunum. Þegar talað er um áfanga megum við ekki gleyma því sem til stóð og ætlað var að gera samkv. stjórnarsáttmálanum sjálfum. Við skulum þá telja líka til áfanga efnahagsráðstafanirnar sem gerðar voru á gamlársdag 1980. Svo koma þær efnahagsráðstafanir sem boðaðar voru í skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálunum sem gefin var út í síðasta mánuði. Kann að vera að hæstv. fjmrh. kunni númerið á þessum aðgerðum og áfangana, en mér er ómögulegt að gera það. Í þessum áföngum eða í þessum svokölluðu aðgerðum felst það sem menn kalla niðurtalningaraðferðina. A.m.k. gera sumir það. Flestir tala þó um slíkt í flimtingum nú orðið.

Hér er um að ræða frv. sem snertir tekjuöflun ríkissjóðs og beinlínis ríkisfjármálin. Það er ekki síst á vettvangi ríkisfjármálanna sem er að finna höfuðorsök verðbólgunnar í landinu. Hefði því mátt vænta þess, að hæstv. fjmrh. kæmi með eitthvað sem frekar væri bitastætt í ríkisfjármálunum en frv. það sem hér er fjallað um.

Nú er það vitað að ein af meginástæðum fyrir því ófremdarástandi, sem er í ríkisfjármálum, er skattheimta ríkissjóðs. Það er oft talað um að það sé nauðsynlegt að minnka skattbyrðina. Meira að segja hæstv. núv. fjmrh. talar um slíkt, a.m.k. stundum. En hæstv. ráðh. gerir ekkert til að gera slíkt tal raunhæft. Hann gerir ekkert til að skapa grundvöll fyrir breytingum til batnaðar í þessu efni. Það, sem nauðsynlegt er að gera í því efni, er að flytja verkefni frá ríkinu til borgaranna sjálfra, til sveitarfélaga í landinu. Þetta er það sem varðar verkaskiptingu. Hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert til að koma á betri skipan í þessum efnum en nú er, bókstaflega ekkert, reynir það ekki.

Hæstv. fjmrh. hefur viljað halda því fram, að hann stæði sig harla vel i ríkisfjármálunum, og dregið einkum fram því til stuðnings fullyrðingar um að í hans stjórnartíð hafi ríkisútgjöldum ekki hækkað í hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Hæstv. ráðh. er venjulega, þegar hann ræðir um ríkisfjármálin, með tölur í þessu sambandi. En í öllu þessu er fólgin herfileg blekking vegna þess að það segir ekki alla söguna hve ríkisútgjöldin í heild eru hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það, sem skiptir máli, er hvað mikið í ríkisútgjöldunum fer til rekstrar og hvað til fjárfestingar. Á síðustu árum hefur hlutur fjárfestingarinnar í ríkisútgjöldunum hrapað niður þannig að fjárlög ríkisins eru á hraðri leið í þá átt að vera fyrst og fremst áætlun um rekstrarútgjöld.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta til hlítar, en ég minni á þetta vegna þess að þetta frv. fjallar um ríkisfjármál. Það hefði verið nær fyrir hæstv. fjmrh. að koma með eitthvað í ríkisfjármálunum sem væri raunhæfara en frv. það sem hér er um að ræða. Ég get drepið aðeins á örfá atriði til skýringar á því, hvernig ástandið er nú í efnahagsmálum okkar og ríkisfjármálunum sérstaklega.

Það, sem er mesta áhyggjuefni okkar Íslendinga varðandi efnahagsmálin, er að þjóðarframleiðslan á mann fer nú stöðugt minnkandi. Það, sem á að skapa grundvöll að okkar efnahagslegu framsókn, verður stöðugt veikara. Í öðru lagi er auðvitað mikið áhyggjuefni að stjórnvöld skuli mæta þessu með stöðugt aukinni skuldasöfnun í margs konar myndum. Í þriðja lagi leyfi ég mér að nefna eitt atriði í viðbót sem ég tel að sé eitt af mestu áhyggjuefnum okkar, og það er gjaldmiðilsbreytingin. Maður heyrir ekki hæstv. ráðh. guma mikið af því í dag, en á síðustu mánuðum og vikum áður en til þessara aðgerða kom var talað um að gjaldmiðilsbreytinguna sem tímamótaviðburð í viðnámi gegn verðbólgunni. Í sjálfu sér var það ekkert óeðlilegt, vegna þess að gjaldmiðilsbreytingin var slík aðgerð að hana hefði mátt nota í þessu skyni með því að láta hana vera samferða heildarstefnumótun í efnahagsmálunum til viðnáms gegn verðbólgu, til þess m.a. að öllum landsmönnum mætti verða ljóst að nú væri stjórnvöldum alvara með aðgerðum til viðnáms gegn verðbólgu. En svo góð sem gjaldmiðilsbreytingin gat orðið undir þessum kringumstæðum, að henni fylgdi heildarstefna í efnahagsmálunum, þá gat hún haft þveröfug áhrif ef ekki var gætt þess að móta heildarstefnu. Ríkisstj. var margsinnis vöruð við þessu og í orði lét hún svo sem þetta væri alveg rétt, hún ætlaði að gera þetta. En hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert í þessu efni með þeim skelfilegu afleiðingum, að einmitt það, sem gat þó orðið til stuðnings í baráttunni gegn verðbólgunni og til að styrkja efnahagslífið i landinu, verður nú til að auka vantrú manna á gjaldmiðli okkar og verkar sem olía á verðbólgubálið.

Þetta, sem ég hef vikið að í fáum orðum, er bakgrunnurinn að því, sem nú er að gerast, og að því frv., sem hér liggur fyrir og er til umr.

Þetta frv. er dæmigerð aðgerð hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum. Hún er kákaðgerð frá hvaða sjónarmiði sem á er lítið. Aðalatriðið með þessu frv. er að leggja nýjar álögur á almenning í landinu. Samkv. grg. frv. eru nýjar álögur á almenning í landinu áætlaðar 62 millj. til að styðja við atvinnulíf landsmanna, en veita á til þess 50 millj. úr ríkissjóði. Með þessum aðgerðum átti samkv, frv. að auka tekjur ríkissjóðs um 12 millj., en nú er þar eftir breytingarnar á frv. í Nd., eins og hæstv. fjmrh. lýsti í ræðu sinni áðan, ekki nema 2 millj. kr. tekjuauki.

En er þá engin ástæða til að styðja að atvinnulífi landsmanna í dag? Er það það sem ég á við? Nei, það er ekki það sem ég á við. Auðvitað er það eitt þýðingarmesta viðfangsefnið að tryggja að atvinnulíf landsmanna geti gengið og það stefni ekki meira en nú er í algert öngþveiti í ýmsum atvinnugreinum með þeim afleiðingum sem það hlýtur að hafa og þarf ekki að fjölyrða um hér.

En aðgerðir sem þessar ráða engum úrslitum um þá þróun sem við höfum horft upp á á undanförnum misserum. Það verða að koma til miklu gagngerðari aðgerðir en að lækka að hluta launaskattinn á fyrirtækjum og lækka að hluta stimpilgjald. Hér er um miklu veigameira mál að ræða. Hvað snýr að almenningi? Ég sagði að það væri verið að leggja byrðar á almenning. Nú þarf ekki að vera óeðlilegt að lagðar séu byrðar á almenning, ef þær byrðar eru réttlátlega á lagðar og ef það er einhver möguleiki á að þær byrðar, sem almenningur tekur á sig, skili einhverjum árangri þegar fram í sækir, þ.e. að aðgerðirnar séu liður í einhverri heildarstefnu. En því er ekki fyrir að fara í þessum svokallaða áfanga ríkisstj. sem felst í þessu frv. Frv. er enginn áfangi í neinum raunhæfum aðgerðum til að veita verðbólgunni viðnám, og það er einmitt í ljósi þessa sem þetta frv. þarf að meðhöndla og freista þess, ef verða má, að gera á því einhverjar frekari breytingar til batnaðar en þó voru í sumum tilfellum gerðar í meðförum Nd. Á ég þá sérstaklega við þær breytingar sem voru gerðar varðandi niðurfærslu á launaskattinum. — Annars er launaskatturinn og sá kafli þessa frv. efni sem væri ástæða til að ræða ítarlega um, en ég ætla að neita mér um að gera það nú, ekki nema þá að gefnu tilefni, og halda mér við þessa umr. einungis við frv. í meginefnum og stöðu þess í þeim svokölluðu aðgerðum — sem ég vil kalla frekar aðgerðaleysi ríkisstj. í verðbólgumálunum.