26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. menntmn. hefur tekið frv. þetta til meðferðar og leggur til að það verði samþykkt. Frv. er komið frá hv. Nd. og var þar afgreitt ágreiningslaust. Smávegis breyting var gerð á frv. þar og þannig hefur frv. komið í okkar hendur.

Þetta frv. hefur frá upphafi fengið blessun þjóðkirkjunnar. Biskupinn yfir Íslandi skrifaði menntmn. Nd. og mælti sterklega með því, sömuleiðis formaður Prestafélags Íslands.

Þá vil ég láta þess getið, að í dag mun birtast fréttatilkynning frá þjóðkirkjunni þar sem fagnað er undirtektum alþm. undir frv. Í þeirri tilkynningu stendur m.a.:

„Aðalfundur kirkjuráðs stendur nú yfir og stýrir Pétur biskup fundum þess. Vegna fram kominnar tillögu um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkju, sem liggur nú fyrir Alþingi, samþykkti kirkjuráð eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur kirkjuráðs, 23.–26. febr. 1982, fagnar fram komnu frumvarpi til laga um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Þar sem nú stendur yfir allsherjarendurskoðun á kirkjulöggjöfinni væntir ráðið þess, að frv. þetta geti sem fyrst orðið að lögum.“

Þannig hljóðar þessi orðsending frá þjóðkirkjunni sem gefin er út í dag. Hún er að sjálfsögðu til áréttingar þeim vilja menntmn. þessarar hv. deildar að málið fái afgreiðslu og verði samþykkt í því formi sem frv. er nú. Er þess að vænta, að hv. deild verði vel við þessu.