26.02.1982
Efri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

214. mál, framhaldsskólar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar ég heyrði að rætt væri um frestun vildi ég aðeins í því tilefni segja nokkur orð um þingsköp, en leyfist mér að ræða efnislega um málið? (Forseti: Já, að sjálfsögðu.) Ég vil þá taka fram að ég hef ekkert á móti því, að málinu sé frestað, og skil vel óskir um það. En mér er mikið í mun að geta sagt nokkur orð í þessu máli að hæstv. ráðh. viðstöddum í tilefni af því sem hann sagði áðan. Ég hugsa mér samt ekki að upphefja almennar umr. um þetta mál frekar en orðið er.

Ég held að það sé ljóst, að við erum sammála, ég og hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. þm., sem hér hefur talað, um að sú löggjöf, sem þarf að setja um framhaldsskóla, eigi að vera rammalöggjöf. Við erum sammála um þetta. En við erum að sumu leyti ekki sammála um hvernig sú rammalöggjöf eigi að vera. Mér virðist að ég leggi meiri áherslu á það en hæstv. ráðh. að við þurfum að gæta þess, að rammalöggjöfin sé á þann veg að einstakir framhaldsskólar geti haft sem mest sjálfræði til þess að þróast sem menntastofnanir, miðað við aðstæður, þar sem menntastofnun er, og miðað við sérnám í hinum einstöku menntastofnunum, og ekkert í rammalöggjöfinni megi vera á þann veg, að þessi þróun sem skapar þroska og fjölbreytileik í skólakerfinu, nái ekki að ganga fram. Rammalöggjöfin verður að gæta þess. Með tilliti til þessa hef ég ýmislegt við frv. að athuga.

Ég hygg líka að hæstv. ráðh. leggi meira upp úr frumkvæði menntmrn. en ég. Það er kannske eðlilegt að hæstv. ráðh., sem vill láta til sín taka á þessu sviði, hneigist frekar til þeirrar skoðunar en ég. Ég held þó að það séu sterk efnisrök fyrir því, að það eigi að hafa hóf á frumkvæði menntmrn., en frumkvæðið verði frekar í hinum einstöku skólum. Það breytir að sjálfsögðu ekki því, að menntmrn. og menntmrh. fara með æðsta vald í þessum málum og hljóta að hafa geysiþýðingarmikið hlutverk, bæði varðandi frumkvæði, en ekki síður, eins og ég gat um áður, að hafa umsjón og eftirlit með að settum reglum sé fylgt.

Ég skil ósköp vel að inn í þetta mál kemur spurningin um hverjir standi undir fjármálum skólanna. Ég held að ekki þurfi þó að fara saman frjálsræði handa stofnunum til að laga sína starfsemi og þróast eftir aðstæðum og eftir hlutverki hvers skóla fyrir sig og svo hitt, að sömu aðilar þurfi að standa fjárhagslega undir skólunum og ráða mestu um þróunina í þessu efni. Við verðum að gera greinarmun að vissu marki á skólunum sem menntastofnunum og á skólunum sem rekstrarfyrirtækjum. Þetta vildi ég segja um það atriði.

Umr, hér í dag hafa undirstrikað hvað þetta mál er margþætt og vandmeðfarið, og er ekkert óeðlilegt að meðferð þessa máls taki langan tíma. Hæstv. ráðh. sagði í síðari ræðu sinni að raunverulega gerði ekkert til hvað það tæki langan tíma, en ef við næðum árangri gætum við lokið málinu. Ég er honum sammála um þetta. Af þessu leiðir að þetta mál hlýtur að þurfa að fá mjög vandaða meðferð á þessu þingi, og það kemur heim við skoðanir hv. 11. þm. Reykv., formanns hv. menntmn., sem lýsti hugmyndum sínum um hvernig ætti að haga vinnubrögðum í þeirri ágætu nefnd.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. ráðh. svaraði af spurningum mínum, og ég þakka honum fyrir svör hans. En mér finnst svörin gefa tilefni til fáeinna orða af minni hálfu.

Hæstv. ráðh. sagði að það hefði ekki verið leitað umsagnar nú á sama veg og var þegar frv. var undirbúið 1978. Það kann að vera álitamál hvort hefði átt að gera það eða ekki, en það hefur ekki verið gert. En úr því má bæta með því að leita núna umsagnar, og við hljótum að vera sammála um að það verði gert.

Þá sagði hæstv. ráðh. að hann hefði tekið til meðferðar þál. frá maí 1981 um þá könnun sem þar var gert ráð fyrir að færi fram á áhrifum breytinga á skólahald og árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum. Hæstv. ráðh. sagði að þetta væri býsna erfitt verk, eins og hann orðaði það, og ég skal ekki vefengja það. En ef það er erfitt verk að finna út hverjar eru staðreyndir málsins geta menn séð að það er býsna erfitt verk að móta stefnu í þessum málum til frambúðar.

Ég vík þó að lokum að þeirri spurningu sem ég setti fram varðandi Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskólann. Hæstv. ráðh. svaraði þessu og taldi að það væri ekki óeðlilegt að Leiklistarskóli Íslands og Myndlista- og handíðaskóli Íslands féll ekki inn í þá löggjöf, sem við erum hér að ræða, vegna sérstöðu. En í frv. 1978 var gert ráð fyrir að þessir skólar væru með í lögunum. Ég er sammála hæstv. ráðh. um þetta. Ég held að þetta sé til bóta. Ég held að það sé rétt sem hæstv. ráðh. segir um þetta efni. En ég bendi á að það er ekki einungis að við þurfum að gæta þess að hafa ramma þessarar löggjafar, sem við nú ræðum, sem víðastan, heldur kemur mjög til greina að taka ýmsa skóla út úr, sem frv. gerir ráð fyrir, á sama hátt og með svipuðum rökum eða hliðstæðum og Leiklistarskólinn er nú tekinn út og Myndlista- og handíðaskólinn.

Ég varð að vísu fyrir nokkrum vonbrigðum með hæstv. ráðh. varðandi svar við þessari spurningu, vegna þess að það sem viðkom Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands var aðeins helmingurinn af spurningunni. Hinn helmingurinn var: Hvaða rök eru fyrir því að taka inn í löggjöfina núna fávitastofnunina og Samvinnuskólann, sem ekki voru áður? Ég hef ekki fengið svar við þessu. Þó sagði ég að þetta mundi kannske vera með auðveldustu spurningunum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh.